Tollflokkun

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tollflokkun

Inngangur

Þeim sem eru að byrja að feta sig eftir hinu flókna völundarhúsi tollskrárinnar fallast oft hendur við að ráða fram úr jafnvel einföldustu tollflokkun vöru. Ástæðan er þá yfirleitt sú að leiðbeiningar hefur skort um það hvernig nota skuli flokkunarkerfið. Raunin er þó sú að tiltölulega fáar almennar reglur gilda urn það hvernig kerfinu skuli beitt, svokallaðar almennar túlkunarreglur tollskrár. Þeir sem hafa náð að tileinka sér þær ná fljótlega góðum árangri í tollflokkun jafnvel þótt þeir noti tollskrána sjaldan í sínu starfi. Fyrir byrjendur er vandinn fyrst og fremst sá að átta sig á þessum almennu reglum. Það er þó oft ekki heiglum hent því orðalagið í þessum reglum er njörvað og virkar nokkuð uppskrúfað við fyrsta yfirlestur. Sannkallaður "kansellistíll" eins og gjarnan er sagt um torráðinn texta í opinberum gögnum. Ástæðan fyrir þessu er þó einfaldlega sú að höfundar kerfisins þjappa textanum svona saman til að koma sem mest í veg fyrir hártoganir og mistúlkun.

Á þessari síðu er reynt að draga saman í almennum orðum og á eins auðveldan hátt og auðið er þýðingu þessara reglna. Fyrst verður þó sagt frá uppruna skrárinnar og skiptingu hennar í kafla og flokka.

Aftur upp

Alþjóðlegt kerfi

Tollskráin er alþjóðlegt flokkunarkerfi yfir flytjanlegar vörur og er samin af Tollasamvinnuráðinu í Brussel (nú WCO) upp úr eldra kerfi sem notað var hér á landi til áramóta 1987-88. Kerfið heitir á ensku "Harmonised System", stytt HS. Tollskráin er því eins konar alþjóðlegt tungumál um vörur. Þannig væri hægt að ráða í vörureikninga á swahili ef HS- númerin væru aftan við hvert vöruheiti þó við skildum að öðru leyti ekkert af textanum. Nú hafa nær 150 þjóðir heims tekið upp þetta kerfi. Tollastofnunin sér um að halda kerfinu við með tilliti til nýjunga á sviði framleiðslu, tækni og breytinga í alþjóðaviðskiptum. Eins úrskurðar stofnunin í álitamálum sem er vísað til hennar. Skráin er ekki samin eingöngu með það fyrir augum að flokka vörur til tollaálagningar heldur er hún þannig upp byggð að nota má hana í fjölbreyttum tilgangi. Til að mynda hafa hagstofur tekið þessa skrá til nota við upplýsingaöflun í verslunarskýrslur og hafa lagt af eldri kerfi (SITC). Það kerfi var auk gömlu tollskrárinnar notað við uppbyggingu HS. Þetta þýðir að útflutningur er einnig flokkaður eftir HS.

Aftur upp

Uppskipting skrárinnar

Tollskránni er skipt upp í 21 flokk og 97 kafla. Flokkarnir eru númeraðir með rómverskum tölum. Fyrirsagnir flokkanna og kaflanna veita leiðbeiningar um hvers konar vörur séu þar flokkaðar. Hins vegar má ekki flokka vörur eftir orðalagi í fyrirsögnunum eins og nánar verður vikið að síðar. Í efnisyfirliti kemur þessi skipting greinilega fram enda nauðsynleg leiðbeining fyrir byrjendur.

Aftur upp

Vöruliðir, undirliðir og skiptiliðir

Túlkunarreglurnar eru eins og áður sagði meginreglur um þær aðferðir sem beita skal við tollflokkun vöru. Þær eru sex og er raðað upp í nokkurs konar forgangsröð. Sú fyrsta er t.d. algjör forgangsregla og sú sjötta fjallar um tollflokkun í undirliði. Benda má á að notað er orðið undirliður í stað orðsins tollskrárnúmer. Ástæðan er einfaldlega sú að skiptingar í skránni bera ekki alltaf með sér tollskrárnúmer eins og sést ef grannt er skoðað. Það er vegna þess að vörusviði viðkomandi texta er skipt frekar upp. Af þeim sökum er ekki unnt samhengisins vegna að nota orðið tollskrárnúmer þegar fjallað er um allar skiptingar í skránni. Því eru önnur hugtök notuð til að vísa í texta í skránni. Þau eru eftirfarandi:

1. Vöruliðir:

Feitletraði textinn og táknaður með fjórum fyrstu tölustöfunum í númerinu.

2. Undirliðir:

Undirliður er táknaður með næstu tveimur tölustöfunum annað hvort þeim fyrri eða báðum (núll hefur ekkert gildi) og þá ýmist einu þankastriki eða tveimur á undan texta.

3. Skiptiliðir:

Íslensk undirskipting táknuð með tveimur síðustu tölustöfunum og er oftast tollskrárnúmer. Fjöldi þankastrika fer eftir því hvort einhverjir undirliðir koma á undan.

Aftur upp

Vöruliðirnir eru feitletraðir og táknaðir með fjórum fyrstu tölustöfunum. Benda má á að fyrstu tveir eru alltaf þeir sömu í hverjum kafla og eru númer kaflans sem um ræðir. Einnig má sjá að sums staðar er allt númerið fyrir framan vöruliðinn, númer vöruliðarins og síðan fjögur núll. Þá eru engir undirliðir eða skiptiliðir undir vöruliðnum.

Eins og sjá má á undan undirliðunum er ýmist eitt eða tvö þankastrik sem áður var getið. Ef grannt er skoðað má sjá að það er alltaf eitt þankastrik ef sjötti tölustafurinn er núll. Ef hins vegar báðir tölustafirnir hafa eitthvað gildi kemur undirliður með einu þankastriki og síðan, ef honum er skipt, tveir eða fleiri undirliðir með tveimur þankastrikum. Allar þessar skiptingar geta verið tollskrárnúmer, nema

1. á eftir fyrri undirlið koma undirliðir með tveim þankastrikum, þ.e. sjötti tölustafur er annað en núll.

2. að skiptiliður sé á eftir.

Þetta stafar einfaldlega af því að seinni liðirnir eru frekari uppskipting á þeim fyrri sem getur því ekki verið tollskrárnúmer eins og áður sagði.

Nú hefur verið lokið við að skýra þau hugtök sem notuð eru í túlkunarreglunum yfir skiptingar í skránni og er því komið að því að líta á sjálfar túlkunarreglurnar. Þess ber þó að geta að skiptiliðir eru ekki nefndir þar en lúta sömu lögmálum.

Aftur upp

Túlkunarreglurnar

Túlkunarregla 1

Eins og áður sagði er túlkunarreglunum raðað í forgangsröð og því fyrsta regla sú æðsta.

Hvað þýðir hún?

Ekki má flokka eftir fyrirsögnum flokka og kafla. Fyrirsagnirnar eru einungis til leiðbeiningar. Fyrsti hluti reglu eitt segir þetta beinlínis. Seinni hlutinn segir frá því lögmáli flokkunarkerfisins að flokka beri vörur eftir því hvort hún er beinlínis nefnd eða henni nákvæmlega lýst í vöruliðum eða athugasemdum og því aðeins skal beita öllum hinum túlkunarreglunum að það brjóti ekki í bága við þessa meginreglu.

Farið var yfir hugtakið vöruliður en eins og sjá má skv. fyrstu reglunni að virða ber það sem stendur í athugasemdum en þær eru víðast hvar á undan einstöku flokkum og köflum. Efnislega fjalla athugasemdirnar einkum um skilgreiningar á einstökum vöruliðum, vöruheitum eða hafa að geyma skýringar á orðum og hugtökum. Þá gefur að líta víðast hvar athugasemdir þar sem frávísað er ýmsum vörum úr viðeigandi flokkum og köflum. Það er mjög mikilvægt að fylgjast með þeim. Dæmi er athugasemdin við 01. kafla tollskrárinnar. Svo eru til athugasemdir sem tilgreina mis ítarlega hvaða vörur flokkast í tiltekna vöruliði, t.d. athugasemd 11 við 39. kafla. Þá skal nefna að í skránni eru nokkrar forgangsathugasemdir sem veita tilteknum vöruliðum forgang umfram aðra er við fyrstu sýn kæmu til greina, sbr. athugasemd 5 við 62. kafla.

Yfirleitt gilda athugasemdir eingöngu fyrir tiltekna flokka eða kafla eftir því hvort þær standa við flokk eða kafla. Þó eru á nokkrum stöðum athugasemdir sem gilda hvarvetna í tollskránni, sbr. athugasemd 2. við XV. flokk.

Það er gullvæg regla við tollflokkun að lesa fyrst athugasemdir áður en flakkað er um vöruliðina í einstaka köflum í leit að viðeigandi númeri. Á einstaka stað eru athugasemdir við undirliði og hafa þær einungis gildi fyrir flokkun í undirliði en ekki vöruliði. Ber því fyrst að finna vöruliðinn fyrst og líta síðan á það hvort einhverjar athugasemdir eru við undirliðina í viðkomandi vöruliðum áður en tollskrárnúmer er valið.

Aftur upp

 

Túlkunarregla 2

Túlkunarregla tvö er í tveim liðum og segir okkur í fyrsta lagi:

a. að ófullgerðar vörur flokkast eins og fullgerðar nema þeirra sé getið einhvers staðar í öðrum vöruliðum eða athugasemdum, sem oft er. Sama á við um ósamsettar eða sundurteknar vörur.

Í öðru lagi:

b. er það áréttað að efni flokkast yfirleitt eins þó það sé í sambandi við önnur efni svo fremi að sú blöndun hafi ekki í för með sér breytingu á tollflokkun. Sem dæmi flokkast plast yfirleitt í 39. kafla. Plastplata styrkt með vírdúk úr járni er áfram plastplata. Að vísu í öðrum vörulið plastkaflans. Hins vegar sé járnið orðið það mikið í þessu sambandi að til álita komi að flokka plötuna sem járn þá segir niðurlag greinarinnar okkur það að beita skuli túlkunarreglu þrjú við flokkunina.

Þá er komið að því að reyna að átta sig á því hvernig flokka á vöru ef hún er þeirrar gerðar, að til álita kemur að flokka hana í tvo eða fleiri vöruliði og fyrstu reglu verður ekki beitt. Þetta er skýrt í túlkunarreglu þrjú, sem er í þremur liðum og raðað í forgangsröð. Fyrsta regla er meginreglan í þessu sambandi og kveður hún á um það, að sé vörunni best lýst í einum af þeim vöruliðum sem til álita koma, ber að flokka vöruna í þann vörulið. Þessi regla er í fullu samræmi við meginregluna, túlkunarreglu eitt. Seinni og lengri málsgreinin í 3 (a) segir okkur einfaldlega það, að þó einungis hluti vörunnar sem flokka skal sé nefndur í einhverjum vörulið kemur hann jafnt til álita við flokkun og hinir. Enginn má vera útundan þegar flokkun er velt fyrir sér. Hins vegar er ekki þar með sagt að sá hluti ráði í öllum tilfellum endanlegri niðurstöðu. Svo dæmið sé tekið um plastplötuna þá má ekki gleyma því að vírdúkur er í plastplötunni enda hefur hann áhrif á flokkunina hvort sem við komumst að þeirri niðurstöðu að platan sé plast eða járn. Þetta sýnir einnig vel hversu nauðsynlegt er að kynna sér vel gerð og samsetningu vörunnar áður en ráðist er í tollflokkun hennar.

Aftur upp

Nú verður ekki séð að einn vöruliður lýsi vörunni umfram aðra sem til greina koma, t.d. ef um er að ræða jafn almennt orðaða vöruliði og "Aðrar vörur" eða "Annað" verðum við að beita túlkunarreglu 3 (b).

Túlkunarregla 3 (b)

Túlkunarregla þrjú getur verið mjög erfð í framkvæmd því oftlega getur verið uppi ágreiningur um hvaða þáttur eða atriði það er sem einkennir tilteknar vörur eða vörusamstæður. Ólíkt því sem um ræðir í 3 (a) verðum við að láta vöruna sjálfa stjórna flokkuninni en ekki lýsingu í vöruliðum tollskrárinnar. Þau álitamáI, sem upp kunna að koma við beitingu þessarar reglu, verðum við að kryfja til mergjar áður en við beitum reglu 3 (c). Sú regla skýrir sig að mestu sjálf.

Það er ýmislegt sem þarft er að skoða við beitingu túlkunarreglu 3 b. Sem dæmi má nefna eftirfarandi : Eðli og efni vörunnar, umfang (bulk), þyngd, magn, verðmæti, gæði eða meginhlutverk við notkun.

Túlkunarregla 4

Túlkunarregla fjögur fjallar um vandamál sem ólíklegt er að upp komi. Þessi regla er fyrst og fremst sett til að gera tollflokkun á nýjum vörum mögulega og brúa það bil sem myndast milli þess að slíkar vörur komi á markað og nauðsynlegar breytingar þeirra vegna séu gerðar á tollskránni. Venjulega eru slík vandamál leyst með því að beita endavöruliðum skrárinnar, "Aðrar vörur" eða "Annað".

Túlkunarregla 5

Túlkunarregla fimm er í tveimur liðum og fjallar um tollmeðferð á umbúðum um vörur. Í fyrsta lagi varanlegum umbúðum og í öðru lagi venjulegum flutningsumbúðum. Ekki er ástæða til að fjalla sérstaklega um orðalag þessarar reglu hér, enda skýrir hún sig að mestu sjálf. Hún er sett fyrst og fremst í þeim tilgangi að samræma tollmeðferð á umbúðum í þeim löndum sem nota HS-flokkunarkerfið.

 

Túlkunarregla 6

 Að lokum verður farið fáum orðum um 6. túlkunarregluna. Þessi regla er e.t.v. torskilin við fyrsta yfirlestur en boðskapur hennar er í sem stystu máli sá, að við tollflokkun í undirliði beitum við sömu meginreglum og beita á við flokkun í vöruliði. Jafnframt er það undirstrikað, að einungis verði þeim reglum beitt við jafnsetta undirliði, þ.e. undirliði í sama vörulið. Þetta minnir okkur á þá aðferð sem nota ber við leit að réttu tollskrárnúmeri: Fyrst finnum við flokkinn, síðan kaflann, þá vöruliðinn og loks undirliðinn. Síðast flokkum við í skiptiliði ef þeir eru einhverjir.

 

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir