Tollflokkun á skjáum

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tollflokkun á skjáum

Samkvæmt tollanafnaskrá Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) er skjáum skipt í tvo flokka.  Annars vegar er þeim skipt í skjái sem gerðir eru eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum (eins og gagnavinnslukerfum er lýst í vörulið 8471), HS-númer 8528.51,  og hins vegar sem aðrir skjáir, HS-númer 8528.59.


8528.5100
 -- Sem gerðir eru eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum í nr. 8471
8528.5900
 - - Aðrir

 

Nánari skilgreiningar og leiðbeiningar um aðgreiningu og flokkun skjáa er að finna í skýringabókum (EN) WCO.  Umræður hafa skapast að undanförnu á tollflokkunarfundum WCO um textann í skýringabókunum.   Nefndarmenn hafa verið á einu máli að laga þurfi textann varðandi vörulið 8528 að nýju tækniumhverfi.  Þó nokkrir fundarmenn vildu leggja niður þessa tvískiptingu og sameina alla skjái í eitt númer en viðskiptahagsmunir annarra þjóða gætu gert slíkt erfitt.

Fjögur atriði eru nefnd í textanum í skýringabókunum sem aðgreina gagnavinnslukerfaskjái frá öðrum skjáum.  Þrjú af þeim eiga aðeins við CRT skjái sem mikið til er hætt að nota.  Fyrsta atriðið tekur hins vegar til allra skjáa.  Þar er tekið fram að þessir skjáir eigi aðeins að geta tekið við merkjum frá örgjörfum sjálfvirkra gagnavinnsluvéla og geti því ekki tekið á móti samsettum vídeómerkjum (composite video signal) eins og PAL, NTSC o.s.frv.   Einnig eiga þessir skjáir að bera aðeins tengi sem einkenna gagnavinnslukerfi og mega ekki vera með hljóðrásir (audio circuit).

 Í textanum eru einnig tiltekin ýmis atriði sem snúa að notendaviðmóti skjásins, t.d. að segulsviðsútgeislun sé lág, að hægt sé að hækka og lækka og snúa skjáunum á þar til gerðum stöndum og annað sem snýr að iðjufræðilegum (ergonomic) atriðum sem gera notanda kleift að vinna í mikilli nálægð við skjáinn til langs tíma.

Til þess að skjáir geti flokkast í HS-númer 8528.51 þurfa þeir að uppfylla framangreind skilyrði og vera gerðir,  eingöngu eða aðallega, til nota í gagnavinnslukerfum eins og þeim er lýst í vörulið 8471.  Allir aðrir skjáir flokkast í HS-númer 8528.59. 

Annað sem hefur verið til umræðu í WCO tollflokkunarnefndinni er hvort skýringabækur WCO þrengi svið lagatextans með orðalagi sínu.  Í skýringabókum WCO stendur að í HS-númerinu 8528.51 séu skjáir sem geti aðeins tekið á móti merkjum frá örgjörva (CPU) en í lagatextanum er númerið sagt innihalda skjái sem gerðir eru eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum.

Í Hollandi féll dómur árið 2009 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væri nóg að skjár uppfyllti ekki eitt atriði í skýringabókunum til að hann yrði sjálfkrafa flokkaður í seinna númerið sem aðrir skjáir.  Líta þyrfti til fleiri þátta til að taka ákvörðun um flokkun og að heildarmyndin réði flokkun.

Á 50. HS-fundi WCO í september á síðasta ári var skjár (Maritime Multi Display) tollflokkaður í WCO-númer 8528.51 sem skjár aðallega til nota í  gagnavinnslukerfum þrátt fyrir að geta tekið á móti composite video merkjum og  styðja  NTSC og PAL staðla sem skýringabækur WCO segja að skjáir í 8528.51 mega ekki geta.  Þetta eru merki sem HDMI tengi geta borið.  Lögð var mikil áhersla á það að skjárinn yrði oftast tengdur gagnavinnslukerfum.  Einnig var bent á það að texti skýringabókanna við vörulið 8528 þarfnaðist lagfæringar, m.a. þar sem hann væri hugsanlega ekki í samræmi við lagatextann. 

Í kjölfar og aðdraganda þessa álits nefndarinnar á Maritime Multi Display skjánum tók embættið stefnu sína í tollflokkun skjáa til endurskoðunar.  Niðurstaða þeirrar endurskoðunar var að ekki væri hægt að útiloka skjái úr tollskrárnúmeri 8528.5100 vegna þess að þeir næðu ekki að uppfylla öll skilyrðin sem talin eru upp í skýringabókum WCO.  Við tollflokkun á skjáum þyrfti að líta til fleiri þátta og leggja heildstætt mat á vöruna.  Af þeim atriðum sem talin eru upp í skýringabókunum er ljóst að þrennt vegur þyngst.  Þ.e. að skjárinn geti ekki tekið á móti öðrum merkum en frá örgjörva, að skjárinn sé aðeins með tengi sem einkenna gagnavinnslukerfi og að í þeim séu ekki hljóðrásir.  Hafa ber í huga að oft fara fyrstu tvö atriðin saman.  Þ.e. að tengi sem einkenna gagnavinnslukerfi geta oft ekki borið önnur merki en frá örgjörva, t.d. má nefna VGA tengi í því sambandi, á meðan að tengi sem eru meira almenns eðlis geta borið önnur merki eins og t.d. HDMI tengið. 

Hvað  þýðir þetta þegar kemur að tollflokkun?

Hvern skjá þarf að meta heildstætt en til einföldunar má segja að ef skjár er aðeins með tengi sem einkenna gagnavinnslukerfi, t.d. VGA eða DVI tengi þá flokkast þeir í tnr. 8528.5100 sama hvort þeir eru með hátölurum eða ekki.  Það er að segja ef þeir eru aðallega til nota í gagnavinnslukerfum.

Ef skjáir eru með tengi sem eru almenns eðlis og geta borið önnur merki en frá örgjörva þá flokkast þeir sem skjáir í 8528.5100 ef þeir eru ekki með hátalara.  Ef þeir eru hins vegar með hátalara þá verður að telja að þeir hafi ekki uppfyllt neitt af veigamestu skilyrðunum í skýringabókum WCO og verði því að flokkast í aðra skjái í tnr. 8528.5900 enda eru slíkir skjáir nothæfir til fleiri hluta en við gagnavinnslukerfi.  Þess konar skjáir geta þar af leiðandi ekki talist vera eingöngu eða aðallega til notkunar við gagnavinnslukerfi.

Hvað eru gagnavinnslukerfi?

Sjálfvirkum gagnavinnsluvélum, sem eru í gagnavinnslukerfum, er lýst í athugasemd 5.A við 84. kafla.  Þar eru talin upp fjögur atriði sem þessi tæki verða að geta uppfyllt til að teljast sem gagnavinnsluvélar.  Vélarnar verða að geta:

  1. geymt vinnsluforrit eða forrit og að minnsta kosti þau gögn sem beint eru nauðsynleg til að láta forritið vinna;
  2. verið auðveldlega forritaðar í samræmi við óskir notandans;
  3. framkvæmt talnaútreikning samkvæmt ákvörðun notandans;
  4. framkvæmt, án mannlegra afskipta, vinnsluforrit sem gerir ráð fyrir að þær geti breytt úrvinnslu sinni með rökrænni ákvörðun á meðan á vinnslu stendur.
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir