Túlkunarreglur tollskrár

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Túlkunarreglur tollskrár

Almennar reglur um túlkun tollskrárinnar

Við flokkun vara samkvæmt tollskránni skal fylgja eftirfarandi reglum:

1. Fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum eru einungis til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skal tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða, athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla og brjóti það eigi í bága við orðalag vöruliða eða athugasemda skal fylgt eftirfarandi regl­um:

2. 

a. Þegar talað er um tilteknar vörur í vörulið tekur það einnig til ófullgerðra vara eða vara sem eitthvað vantar á, ef þær við framvísun að öllu verulegu leyti líta út eins og hinar fullgerðu vörur. Enn fremur tekur það til þessara vara fullgerðra eða heilla (eða vara sem flokkast þannig samkvæmt þessum lið) þegar þeim er framvísað ósamsettum eða sundur­teknum.

b. Þegar talað er um tiltekið efni í vörulið tekur það eigi einungis til efnisins óblandaðs, heldur einnig til þess í blöndum eða samböndum við önnur efni. Sérhver tilvísun til vara úr tilteknu efni tekur til vara sem að öllu eða nokkru leyti eru úr því efni. Um tollflokkun blandaðra og samsettra vara fer eftir reglum 3. töluliðar hér á eftir.

3. Nú kemur til álita samkvæmt reglu 2. töluliðar, eða af öðrum ástæðum, að telja vörur til tveggja eða fleiri vöruliða og skal þá tollflokkunin fara eftir því sem hér segir:

a. Vöruliður sem felur í sér nákvæmasta vörulýsingu skal tekinn fram yfir vörulið með almennari vörulýsingu. Þegar tveir eða fleiri vöruliðir hver um sig taka aðeins til hluta þeirra efnivara eða efna, sem eru í blöndum eða samsettum vörum, eða aðeins til hluta vara í vörusamstæðu í smásöluumbúðum, skulu þeir vöruliðir taldir koma að jöfnu til álita með tilliti til þessara vara, þótt ein þeirra gefi fyllri eða nákvæmari lýsingu á vörunum.

b. Blöndur, samsettar vörur úr ýmsum efnum eða hlutum svo og vörusamstæður, sem eigi verður flokkað eftir reglu a-liðar 3. töluliðar, skal flokka eftir því efni eða þeim hluta sem helst einkennir vörurnar, enda verði slíku mati komið við.

c. Ef eigi er unnt að flokka vörur eftir reglum a- eða b-liðar 3. töluliðar hér á undan skal telja þær til þess vöruliðar sem síðastur er þeirra vöruliða sem að jöfnu koma til álita.

4. Vörur sem ekki verða flokkaðar samkvæmt undanfarandi reglum skulu taldar til sama vöruliðar og þær vörur sem þeim eru líkastar.

5. Auk undanfarandi ákvæða skulu eftirfarandi reglur gildar um þær vörur sem hér greinir:

a. Myndavélahylki, hljóðfæratöskur, byssuhulstur, pennastokkar, skartgripaskrín og áþekk ílát sem sérstaklega eru löguð eða smíðuð undir ákveðnar vörur eða vörusamstæður, eru ætluð til langvarandi nota og framvísað með þeim vörum sem þær eru ætlaðar undir skal flokka með þessum hlutum. Ákvæði þetta tekur þó ekki til íláta sem eru einkennandi fyrir vöruna í heild.

b. Leiði ekki annað af reglu a-liðar 5. töluliðar skal umbúðaefni og ílát til pökkunar, sem framvísað er með vörunum í, flokkað með vörunum, enda sé það venjulega notað til pökkunar á slíkum vörum.

6. Í lagalegu tilliti skal flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða byggð á orðalagi undir­liðanna og sérhverri tilheyrandi athugasemda við undirliði og, að breyttu breytanda, framangreindum reglum, með því fororði að aðeins jafnsettir undirliðir verða bornir saman. Viðkomandi athugasemdir við flokka og kafla gilda einnig með tilliti til þessarar reglu, nema annað leiði af orðalagi.

 

Tolltaxtadálkar tollskrárinnar

Dálkar A og A1 í tollskránni gilda fyrir allar innfluttar vörur nema um þær gildi sérreglur í dálki E. Dálkur E í tollskránni gildir fyrir vörur sem fluttar eru inn samkvæmt ákvæðum samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Ráðherra er heimilt með þeim skilmálum, sem kveðið er á um í samningnum eða öðrum fríverslunar- og milliríkjasamningum, að ákveða með reglugerð eða öðrum fyrirmælum sérstaka tollmeðferð á vörum sem flokkast undir 1. til 24. kafla tollskrárinnar.

Tollskráin á vefnum - fyrirvari

Tollskráin er birt á vef embættisin til hagræðis fyrir þá sem þurfa að nota skrána, ekki síst vegna tollafgreiðslu vöru.

Tollskráin, sem birt er í viðauka I við tollalög nr. 88/2005, er gerð í samræmi við vörunúmeraskrá Alþjóða tollastofnunarinnar. Í þeirri skrá er 6 stafa númerakerfi, en í íslensku tollskránni eru 8 stafir til þess að gefa svigrúm til frekari skiptingar.

Kappkostað er að uppfæra tollskrána á vefnum jafnóðum og breytingar eru gerðar á henni. Þess ber þó að gæta, að ef misræmi verður á milli þess texta sem hér birtist, annars vegar, og hinum lögformlega birta texta í A-deild Stjórnartíðinda, hins vegar, gildir sá síðarnefndi.

Tollflokkun er fólgin í að ákvarða 8 stafa númer vöru samkvæmt tollskránni og ber við þá flokkun að fara eftir almennum reglum um túlkun skrárinnar, sem birtar eru fremst í skránni. Þar er meginreglan sú að tollflokkun skal byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við viðeigandi kafla og flokka. Vöruliðirnir eru aðgreindir með feitu letri, bæði texti og númer . Fyrirsagnir á köflum og flokkum eru einungis til leiðbeiningar.

Vakin er athygli á því að inn- og útflytjendur bera ábyrgð á að tollflokkun sé rétt. Þeir sem þess óska geta fengið leiðbeiningar hjá embættinu um tollflokkun og þeir sem hagsmuna hafa að gæta eiga þess ennfremur kost að fá svonefnt bindandi álit á tollflokkun, en í því felst formleg staðfesting af hálfu tollyfirvalda á réttri tollflokkun. Skriflegri beiðni um slíkt skal beina til Stattsins á sérstöku eyðublaði, sbr. nánar 21. gr. tollalaganna. Að auki geta þeir sem eiga í ágreiningi við Skattinn um tollflokkun vöru, fengið formlegan úrskurð embættisins í samræmi við reglur 117. gr., en þeim úrskurði, og raunar bindandi áliti Skattsins um tollflokkun, má skjóta til Yfirskattanefndar í samræmi við reglur 118. gr. laganna.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir