EFTA og SACU

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

EFTA og SACU

Almennt

 Með ályktun Alþingis frá 24. nóvember 2006 var ríkisstjórninni veitt heimild til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Tollabandalags Suður-Afríkuríkja, SACU-ríkin. Samningur þessi hefur nú verið fullgiltur af samningsaðilum.

Aðilar að samningnum, auk EFTA-ríkjanna, eru Botsvana (BW), Lesótó (LS), Namibía (NA), Suður-Afríka (ZA), og Svasíland (SZ), hér á efnd SACU-ríkin.

Fríverslunarsamningurinn inn við SACU-ríkin er sérstakur að því leyti að hann er fyrsti fríverslunar­samningurinn sem EFTA-ríkin gera við aðra viðskiptablokk og jafnframt fyrsti samningur slíkrar tegundar sem gerður er við ríki í Afríku, sunnan Sahara. Samkvæmt samningnum munu EFTA-ríkin lækka og fella niður tolla af sínum vörum hraðar en aðildarríki SACU en samningurinn inniheldur ákvæði um sértæka meðferð í ýmsu tilliti fyrir Botsvana, Lesótó, Namibíu og Svasíland, auk ákvæða um efnahagslega samvinnu og tækniaðstoð. Almennt má segja að samningur þessi sé hliðstæður þeim fríverslunar­samningum sem EFTA-ríkin hafa fram til þessa gert við önnur Afríkuríki.

Auk fríverslunarsamningsins hefur Ísland og Tollabandalag Afríkuríkja gert tvíhliða samning um viðskipti með ýmsar landbúnaðarvörur, sbr. hér síðar.

 Gildistaka 1. maí 2008

Fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna og SACU-ríkjanna og tvíhliða samningur Íslands og SACU-ríkjanna um viðskipti með ýmsar landbúnaðarvörur öðlast gildi og koma til framkvæmda 1. maí 2008.

Vörur sem fluttar verða inn frá og með 1. maí 2008 geta notið tollfríðinda samkvæmt nefndum samningum að því tilskildu að fullnægjandi sönnun liggi fyrir um að þær séu upprunnar í Botsvana (BW), Lesótó (LS), Namibía (NA), Suður-Afríka (ZA), eða Svasíland (SZ) eins og kveðið er á um í nefndum samningum.

Hér á eftir verður vikið að meginatriðum þeim sem samningarnir og viðaukar við þá hans taka til og snerta tollframkvæmdina. Um frekari lesingu vísast m.a. til tillögu til þingsályktunar

um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Tollabanda­lags Suður-Afríkuríkja.

1          Fríverslunarsamningurinn

Helstu ákvæði fríverslunarsamningsins sem varða tollframkvæmdina er að finna í II. kafla hans, 6. til 9. Þar er m.a. afmarkað vörusvið það sem samningurinn tekur til og kveðið á um upprunareglur sem gilda skulu um tollframkvæmdina, tollalækkanir svo og samvinnu tollyfir­valda aðildarríkjanna varðandi tollframkvæmdina. Samningurinn er ekki einshliða að því leiti að EFTA-ríkin fella almennt niður tolla af viðkomandi vörum við gildistöku samningsins meðan SACU-ríkin fá vissan aðlögunartíma eins þar kveðið nánar á um í viðauka VII og lista 1 og 2 við hann.

Hér á eftir er jafnframt gerð grein fyrir tollalækkunum af hálfu Íslands.

1.1       Vörusvið fríverslunarsamningsins

Við gildistöku samningsins falla tollar niður af þeim framleiðsluvörum SACU-ríkjanna sem fluttar eru til Íslands og falla undir 25. til 98. kafla tollskrárinnar, þ.e. iðnaðarvara almennt. Fyrirvari er gerður varðandi nokkrar vörur í viðauka II sem flokkast í þessa kafla tollskrárinnar en hefur ekki áhrif við innflutning til Íslands þar sem þessar vörur ber ekki toll samkvæmt tollskránni. Þá falla tollar niður af unnum landbúnaðarvörum frá SACU-ríkjunum eins og nánar er kveðið á um viðauka III við samninginn. Ennfremur falla tollar niður af ýmsum sjávarafurðum frá þessum ríkjum samkvæmt viðauka IV við samninginn.

 

Viðaukar við fríverslunarsamninginn

Samningnum fylgja viðaukar sem eru óaðskiljanlegur hluti hans svo sem hér segir:

Viðauki I

Í viðauka I er heimild fyrir Noreg til þess að undanþiggja Svalbarða ákvæðum samningsins.

Viðauki II

 Í viðauka II, sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. samningsins, eru tilgreindar þær vörur í 25. til 97. kafla tollskrárinnar (Sameiginlega tollskráin (HS)) sem samningurinn tekur ekki til. Vörurnar sem hér um ræðir eru aðallega albúmínkennd efni, umbreytt sterkja, lím og ensím úr 35. kafla. Að því er Ísland varðar hafa ákvæði þessa viðauka ekki áhrif á tollframkvæmdina við innflutning þar sem þessar vörur eru tollfrjálsar án tillits til uppruna.

Viðauki III

Í viðauka III, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. samningsins, er kveðið á um fríverslunarmeðferð á iðnaðar­vörum úr landbúnaðarafurðum. Samningurinn gerir almennt ráð fyrir að samnings­aðilar hafi heimild til að beita verðjöfnunarkerfi til að jafna verðmismun á landbúnaðar­hráefnum sem notaðar eru til framleiðslu á iðnaðarvörum. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. viðaukans skuldbinda EFTA-ríkin sig til þess að veita SACU-ríkjunum ekki lakari tollmeðferð en Evrópubandalagið nýtur á þeim framleiðsluvörum sem viðauki III tekur til.

 

Í lista, sem fylgir viðauka III, eru tilgreindar þær vörur sem njóta tollfríðinda samkvæmt samningnum og tollalækkanir á þeim. Þær vörur sem hér um ræðir eru m.a. að finna í 4 og  17. til 22. kafla tollskrárinnar, þ.e. ýmsar neysluvörur eins og jógúrt, sælgæti, gosdrykki, öl auk nokkurra matvara.

Tekinn hefur verið saman sérstakur listi yfir tollskárnúmer þeirra vara sem falla undir viðauka III og tollar falla niður af eða lækka á frá og með 1. maí 2008 (tollar í A- og A1-dálki tollskrárinnar) við innflutning til Íslands. Í þennan lista hafa ekki verið tekin upp tollskrár­númer sem viðaukinn tekur til og þegar eru undanþegnar öllum tollum. 

Viðauki IV

Í þessum viðauka, sbr. c-lið 1. mgr. 6. gr. samningsins, eru ákvæði um fríverslun með fisk og aðrar sjávarafurðir í viðskiptum milli aðildarríkjanna.

Tekinn hefur verið saman sérstakur listi yfir tollskárnúmer þeirra sjávarafurðavara sem falla undir viðauka IV og tollar falla niður af frá og með 1. maí 2008 (tollar í A- og A1-dálki tollskrárinnar) við innflutning til Íslands. Í þennan lista hafa ekki verið tekin upp tollskrár­númer sem viðaukinn tekur til og þegar eru undanþegnar öllum tollum. 

Viðauki V

 Í viðauka V, sbr. 1. mgr. 7. gr. samningsins, er að finna upprunareglurnar og fyrirkomulag á samvinnu tollyfirvalda, sbr. hér síðar.

Viðauki VI

Í þessum viðauka, sbr. 2. mgr. 7. gr. samningsins, eru ákvæði um gagnkvæma stjórnsýslu­samvinnu á sviði tollamála.

Viðauki VII

 Viðaukinn og lista 1 og 2, sbr. 3. mgr. 8. gr. samningsins, er kveður á um tollalækkanir á af hálfu SACU-ríkjanna á framleiðsluvörum upprunnum í EFTA-ríkjunum.

Viðauki VIII

 Í viðauka VIII, sbr. 4. mgr. 9. gr. samningsins, eru kveðið á um tollalækkanir á vörum sem eru til rannsóknar hjá stjórnsýslunefnd Suður-Afríku um alþjóðleg viðskipti.

1.2       Framkvæmd fríverslunarsamningsins

1.2.1    Upprunareglur 

Fríðindameðferð samkvæmt samningnum er bundin því skilyrði að um sé að ræða uppruna­vörur í skilningi viðauka V við fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og SACU-ríkjanna. Reglur þessar eru hliðstæðar upprunareglum annarra fríverslunarsamninga sem EFTA-ríkin hafa gert við einstök ríki en gæta þarf þess að aðvinnslulistar varðandi notkun þriðjalands efnivara geta verið frábrugðnir.

1.2.2    Upprunaskilyrði

Í 2. til 6. gr. viðauka V er kveðið á um með hvaða hætti vörur geti öðlast upprunaréttindi. Meginreglan er sú að vara sem er að öllu leyti fengin í EFTA-ríki eða SACU-ríki telst upprunavara (framleidd úr efnivörum sem alfarið eru til orðnar í framleiðslulandinu).

 Sama gildir um vörur sem fengið hafa nægilega aðvinnslu í EFTA-ríki eða SACU-ríki (fram­leidd úr efnivörum sem ekki eru að öllu leyti til orðnar í framleiðslulandinu). Í því sambandi getur verið nægilegt að framleiðsluvaran flokkist undir annað tollskrárnúmer en þær efnivörur sem í hana eru notaðar en auk þess geta önnur skilyrði veri sett, eins og takmark­aður hundraðshluti vissra efnivara af þriðjalands uppruna. Mikilvægt er því vegna útflutnings að íslenskir framleiðendur kynni sér upprunareglurnar til þess að ekki þurfi að koma til greiðslu tolla síðar leiði skoðun á framleiðsluvöru þeirra í ljós að ekki hafi verið gætt þeirra skilyrða sem upprunareglurnar setja fríðindameðferðinni.

1.2.3    Uppsöfnunarreglur (cumulation)

Allar vörur sem taldar verða upprunnar í EFTA-ríki eða SACU-ríki má nota við framleiðslu án takmörkunar og flytja aftur út til aðildarríkjanna. Efnivörur sem upprunnar eru utan aðildarríkjanna, t.d. í Evrópusambandinu eða öðrum löndum verða hins vegar að fá næga aðvinnslu.

1.2.4    Flutningsreglur

Viðskiptum með upprunavörur á samningssvæðinu eru ekki sett nein takmörk. Þannig getur t.d. vara upprunnin í SACU-ríki sem hefur verið tollafgreidd í Sviss, notið síðar tollfríðinda samkvæmt samningnum við innflutning til Íslands og íslensk upprunavara, sem hefur verið tollafgreidd í Noregi, notið tollfríðinda við innflutning til SACU-ríkis. Vörur upprunnar í SACU-ríki sem tollafgreiddar hafa verið í Evrópusambands-ríki til frjálsra nota þar, geta hins vegar ekki notið fríðindameðferðar við innflutning til EFTA-ríkis samkvæmt flutningsreglunni.

Um flutning á upprunavörum gilda því ákvæði 12. gr. uppruna­reglnanna um beinan flutning. Upprunavörur, sem fluttar eru um landsvæði önnur en aðildarlandanna, glata þó ekki upprunaréttindum sínum við slíkan flutning hafi þær verið undir tolleftirliti og ekki hlotið neina aðvinnslu nema óverulega meðhöndlun til að forða þeim frá skemmdum.

 

1.2.5    Upprunavottorð

Til þess að vara njóti tollfríðinda við innflutning til EFTA-ríkis eða SACU-ríkis samkvæmt samn­ing­num verður að sanna uppruna varanna í samræmi við sérstakar sönnunarreglur. Þessar reglur eru hluti af viðauka V.

Fríðindameðferðar verður notið við innflutning gegn því að framvísað sé:

1.  EUR. 1 flutningsskírteini útgefnu af tollstjóra. Slíkt skírteini geta allir útflytjendur fengið við útflutning yfir hvers konar vörur sem notið geta upprunaréttinda.

2.  Vörureikningi með upprunayfirlýsingu viðurkennds útflytjanda án tillits til verð­mætis vörusendingar, sbr. 22. gr. viðauka V. Til þess þarf útflytjandinn sérstakt leyfi sem sótt er um til tollstjórans í Reykjavík. Flutnings­skírteini sem gefin eru út með þeim hætti má nota yfir hvers konar upprunavörur.

3.  Vörureikningi með upprunayfirlýsingu útflytjanda sem bundin er verðmætis­tak­mörkum. Upprunayfirlýsingu þessa geta allir útflytjendur gefið í vörureikningi yfir hvers konar upprunavörur sem að heildarverðmæti eru EUR 6.000 eða minna.

Upprunayfirlýsing á vörureikningi skal orðuð á eftirfarandi hátt:

"The exporter of the products covered by this document ......................... (customs authorization No (1)) declares that, except where otherwise clearly indicated, the products are of  .............................. preferential origin (2)."

Þegar viðurkenndur útflytjandi skrifar upprunayfirlýsing á vörureikning ber honum að rita heimildarnúmer, sem tollstjóri hefur gefið honum í þessu skyni, í eyðuna í ofangreindum  texta sem auðkennd er með (1) og uppruna vörunnar í eyðu textans sem auðkennd er með (2).

1.2.6    Upprunameðferð smásendinga og vara í farangri ferðamanna

Vörur sem sendar eru sem smásendingar af einstaklingum til einstaklinga eða eru hluti farangurs ferðamanna geta notið fríðindameðferðar samkvæmt samningnum án þess að fram­vísað sé upprunaskírteini eða vörureikningi með upprunayfirlýsingu, enda sé ekki um innflutn­ing í atvinnuskynið að ræða og því hafi verið lýst yfir við tollafgreiðsluna að þær uppfylli upprunaskilyrði viðauka V og ekki leiki vafi á um sannleiksgildi yfirlýsingarinnar. Ef um smásendingar í pósti er að ræða nægir að slík yfirlýsing sé gefin á tollseðli CN22/CN23 eða skjali sem fest sé við tollseðilinn.

Verðmæti smásendinga má ekki vera umfram EUR 500 og EUR 1.200 þegar um upprunavöru í farangri ferðamanna er að ræða.

 

2.         Tvíhliða samningur Íslands og SACU-ríkjanna um landbúnaðarmál

Samkvæmt nefndum tvíhliða samningi um landbúnaðarmál milli Íslands og SACU-ríkjanna skal ekki greiða toll af innfluttum landbúnaðarvörum, sem falla undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í viðauka 2 við samninginn, vegna innflutnings til Íslands á landbúnaðarvörum frá SACU-ríkjunum, en viðauka 1 við vegna útflutnings á íslenskum landbúnaðarvörum til SACU-ríkjanna. Helstu vörur sem tollar falla niður af við innflutning til Íslands eru: Nellikkur, innfluttar frá 1. desember til 30 apríl, nokkrar grænmetistegundir eins og laukur, spergill, sveppir af ættinni Agaricus sem verðtollur fellur niður af en magntollur lækkar í 80 kr/kg, spínat, sykurmaís og baunir svo og ölkelduvatn.

Upprunareglur í viðauka V við fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna og SACU-ríkjanna gilda um uppruna landbúnaðarvara sem um ræðir í nefndum tvíhliða samningi um landbúnaðarvörur, með þeim fyrirvara að tilvísun til EFTA-ríkja á eingöngu við Ísland með tilliti til vara sem tvíhliða samningurinn tekur til.

Tekin hefur verið saman sérstakur listi yfir tollskárnúmer þeirra landbúnaðarvara sem falla undir tvíhliða samninginn og tollar falla niður af eða lækka á frá og með 1. maí 2008 (tollar í A- og A1-dálki tollskrárinnar). Í þennan lista hafa ekki verið tekin upp tollskrárnúmer sem viðaukinn tekur til og þegar eru undanþegnar öllum tollum.

 

3.         Útfylling aðflutningsskýrslu/útflutningsskýrslu

Þegar óskað er eftir  fríðindameðferð við innflutning samkvæmt nefndum samningum skal færa lykilinn YB fremst í reit 33 við gerð  aðflutningsskýrslu (E-1) eða vegan SMT- eða VEF-tollafgreiðslu.  Í reit 8 og 34 skal tilgreina landalykilinn viðkomandi lands, t.d. BW (Botsvana). Í reit 14 skal tilgreina númer EUR. 1 flutningsskírteinis eða textann "Upprunayfirlýsing á vörureikningi".

Þegar óskað er eftir  fríðindameðferð við útflutning samkvæmt nefndum samningum skal færa lykilinn YB fremst í reit 47 (tegund gjalda). Í reit 11 og 47 skal tilgreina eftir því sem við á landalykilinn IS (Ísland). Í reit 44 skal tilgreina númer EUR. 1 flutningsskírteinis eða textann "Upprunayfirlýsing á vörureikningi".

Að öðru leyti vísast til leiðbeininga um tollskýrslugerð vegna innflutnings og útflutnings.

 

Á vef EFTA eru ítarlegar upplýsingar um fríverslunarsamninga samtakanna og nýjustu breytingar á þeim.

 

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir