Aðflutningsgjöld
Meginreglan er sú að greiða ber aðflutningsgjöld við innflutning vöru til landsins í samræmi við ákvæði tollskrár sem hefur lagagildi á Íslandi. Hér er átt við tolla, vörugjöld og virðisaukaskatt auk ýmissa annarra gjalda sem leggjast kunna á við innflutning varnings til landsins.
Nokkrar undantekningar eru frá þessari meginreglu
Til viðbótar þeim undantekningum sem vísað er til hér að framan skal þessara einnig getið:
Eftirtaldar vörur eru undanþegnar aðflutningsgjöldum við innflutning, enda sýni innflytjandi skattinum með fullnægjandi hætti fram á rétt til undanþágu:
- Tilteknar vörur sem fluttar eru inn fyrir sendiráð, sendiræðismannaskrifstofur, sendierindreka og sendiræðismenn erlendra ríkja, í samræmi við 36. grein Vínarsamningsins um stjórnmálasamband, samanber fylgiskjal I við lög númer 16/1971, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband.
- Tilteknar vörur sem fluttar eru inn fyrir kjörræðismenn erlendra ríkja og ræðisskrifstofur, í samræmi við 50. grein Vínarsamningsins um ræðissamband, samanber 62. grein samningsins; samanber einnig fylgiskjal I við lög númer 4/1978, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um ræðissamband.
- Tilteknar vörur sem hervöld Bandaríkjanna svo og menn úr liði Bandaríkjanna og skyldulið þeirra flytja til landsins, í samræmi við 8. grein viðbætis um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og liðs þeirra, sem er fylgiskjal við varnarsamning milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins, samanber lög númer 110/1951, um lagagildi varnarsamnings milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra.
- Efni og tæki sem flutt eru hingað til lands til varna gegn ofanflóðum, samanber 15. grein laga númer 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.
- Vörur sem undanþegnar skulu aðflutningsgjöldum samkvæmt ákvæðum annarra sérlaga eða alþjóða- og milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að.