1. kafli

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

1. kafli

1.1  Fríverslunarsvæði og tollabandalög

1.2  Almenn tollmeðferð - fríðindameðferð

1.3  Tengsl fríverslunarsamninga og tollalaga

1.4  Hvar er upprunareglur að finna?

 

1.1 Fríverslunarsvæði og tollabandalög

Það er talað um fríverslunarsvæði þegar vikið er frá almennum reglum um innheimtu aðflutningsgjalda og inn- og útflutningstakmarkanir í viðskiptum með tilteknar vörur á milli aðildarríkja fríverslunarsamnings, sem eru að öllu leyti fengnar eða hafa fengið fullnægjandi aðvinnslu á yfirráðasvæði aðildarríkja samningsins.  Aðildarríkjunum er hins vegar heimilt að halda uppi ólíkum tollum og inn- og útflutningstakmörkunum gagnvart ríkjum sem ekki eru aðilar að fríverslunarsvæðinu, svonefndum þriðju löndum.  Almennum afgreiðsluháttum er haldið uppi við landamæri ríkjanna, sem mynda fríverslunarsvæðið, til þess að tryggja þegar við á innheimtu tolla og annarra aðflutningsgjalda við innflutning og til þess að tryggja að ákvæðum laga um inn- og útflutningstakmarkanir sé fylgt.

Aftur upp

Í tollabandalagi hafa aðildarríki þess fellt niður sín á milli tolla og aðrar viðskiptahindranir en þau hafa jafnframt tekið upp sameiginlegan ytri toll og sameiginlega viðskiptastefnu gagnvart þriðju ríkjum.  Upprunareglur um tollfríðindi eru því óþarfar í viðskiptum innan bandalagsins.  Vörur frá þriðju löndum eru tollafgreiddar á ytri landamærum tollabandalagsins og eru eftir það í frjálsri umferð á bandalagssvæðinu.

Fríverslunarsamtök Evrópu (European Free Trade Associaton - EFTA), sem sett voru á fót árið 1960 með samningnum um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu, eru dæmi um fríverslunarsvæði.[1]  Í EFTA eru nú auk Íslands: Noregur, Sviss og Liechtenstein. 

Evrópubandalagið (EB) er hins vegar m.a. tollabandalag, en ekki fríverslunarsvæði eins og EFTA.  Evrópubandalagsríkin eru: Austurríki, Belgía, Danmörk, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn, Stóra-Bretland og Norður-Írland, Svíþjóð og Þýskaland.

Aftur upp

 

1.2 Almenn tollmeðferð – fríðindameðferð

Í 2. og 4. gr. tollalaga er kveðið á um hina almennu tollskyldu vegna innflutnings á vörum til Íslands en í henni felst að innflytjanda ber að fá vöruna tollafgreidda áður en hann getur tekið hana til frjálsra umráða.  Tilgangurinn með fríverslunarsamningum milli tveggja eða fleiri ríkja er, eins og áður sagði, sá að fella niður eða lækka tolla og fella niður eða takmarka aðrar viðskiptahindranir, s.s. ákvæði um leyfi eða kvóta, vegna þeirrar vöru sem fríverslunarsamningur er gerður um.  Þegar skilyrðum fríverslunarsamninga fyrir lækkun eða niðurfellingu tolla eða annarra beinna viðskiptahindrana er fullnægt er talað um að vara öðlist rétt til fríðindameðferðar.[2]

Það ber að hafa í huga að fríðindameðferð er veitt án þess að varan sé undanþegin tollmeðferð.  Fríðindameðferð er sérstök tollmeðferð sem gerir innflytjanda kleift að fá tollalækkun eða tollfrelsi með tilliti til almenna tollsins (A-dálkur í tollskrá) á grundvelli gerðs fríverslunarsamnings að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í samningnum.  Innflytjanda ber að fá vöruna tollafgreidda áður en hann getur tekið hana til frjálsra umráða.  Sá háttur er nauðsynlegur til þess að tryggja að tollur og önnur gjöld sem lögð eru á vöru séu greidd, að innflutningstakmarkana sem um hana kunna að gilda sé gætt og eins til þess að hægt sé að kanna réttmæti kröfu til fríðindameðferðar.

Aftur upp

 

1.3 Tengsl fríverslunarsamninga og tollalaga

Fríverslunarsamningar eru þjóðréttarsamningar.  Þeir öðlast ekki sjálfkrafa lagagildi hér á landi heldur verður að koma til atbeini löggjafans.

Fríverslunarsamningar, sem gerðir hafa verið frá því að Ísland gerðist aðili að EFTA, hafa almennt verið staðfestir af Íslands hálfu samkvæmt þingsályktun þar sem Alþingi veitir ríkisstjórninni heimild til þess að fullgilda viðkomandi samning.  Tollabreytingar, sem samningarnir hafa í för með sér, hafa verið gerðar með lagabreytingum á tollskránni, sbr. lög nr. 1/1970 um tollskrá, lög nr. 7/1973 um tollskrá, lög nr. 18/1993 um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987 og lög nr. 87/1995, um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni.  Þetta er þó ekki algild regla.  Samkvæmt 1. mgr. 147. gr. tollalaga hefur fjármálaráðherra heimild til þess að hrinda í framkvæmd þeim ákvæðum fríverslunar- og milliríkjasamninga sem fela í sér lækkun eða niðurfellingu tolla.  Tollalækkunar- eða tollfrelsisákvæðum fríverslunarsamninga hefur verið hrint í framkvæmd á grundvelli þessarar lagaheimildar, með þingsályktun Alþingis og staðfestingu ríkisstjórnarinnar, sbr. samninga við ýmsar Mið- og Austur-Evrópuþjóðir, Ísrael og Tyrkland.  Þá hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið gefið út auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda um sérstaka tollmeðferð vegna EFTA-samninganna og tvíhliða samninga Íslands og hlutaðeigandi ríkja, sbr. t.d. nýlega auglýsingu um sérstaka tollmeðferð vegna fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og konungsríkisins Marokkó og bókun milli lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Marokkó um landbúnaðarafurðir. [3]

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. og 122. gr. hefur ráðherra heimildir til þess að setja með reglugerð eða öðrum fyrirmælum nánari reglur um ýmis atriði er varða framkvæmd ákvæða fríverslunarsamninga við innflutning (19. gr.) og útflutning (122. gr.), s.s. nauðsynleg gögn, sbr. auglýsingu nr. 404/1987 um sérstaka tollmeðferð vegna aðildar Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) og samnings Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu (EBE).

Aftur upp

1.4 Hvar er upprunareglurnar að finna?

Upprunareglurnar eru teknar upp í fríverslunarsamningana sem sjálfstæðar bókanir eða viðaukar við þá.  Upprunareglur EES-samningsins eru í bókun 4 við samninginn.  Aðvinnsluskrá yfir tilskilda aðvinnslu þriðja lands efnivöru er sett fram sem II. viðbætir við bókun 4.  Í EFTA-sáttmálanum og samningum EFTA-ríkjanna við Búlgaríu, Eistland, Ísrael, Lettland, Litháen, Marokkó, Pólland, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Tékkland og Tyrkland eru upprunareglurnar í viðauka B við samningana.  Aðvinnsluskrá og skýringar eru í II. viðbæti við viðauka B.  Ísland hefur auk þess gert tvíhliða samninga við einstök ríki um landbúnaðarvörur.  Í þeim samningum eru sérstakar upprunareglur sem taka til umsaminna vara.  Upprunareglur í samningi Íslands og Færeyja eru í 3. viðauka við samninginn.

Samningana er hægt að nálgast í heild sinni á ensku á vef Fríverslunasamtaka Evrópu.

Aftur upp

- - - - - -

[1] Samningurinn um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu er birtur í C-deild Stjórnartíðinda nr. 7/1970.

[2] Rétturinn til fríðindameðferðar á grundvelli fríverslunarsamninga sem Ísland er aðili að verður að byggjast á lagaheimild.  Slíka heimild er að finna í 4. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 87/1995 og 2. og 11. gr. laga nr. 91/1998, viðauka I við þau (tollskrá), og 147. gr. laganna, sbr. 10. gr. I. kafla laga nr. 104/2000.

[3] Sjá B-deild Stjórnartíðinda nr. 813/1999.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir