3. kafli

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

3. kafli

3.1 Iðnaðarvörur

3.2 Sjávarafurðir

3.3 Landbúnaðarvörur

 

3.1 Iðnaðarvörur
Flestar iðnaðarvörur, sem falla undir 25.-97. kafla tollskrárinnar, heyra undir fríverslunarsamninga Íslands við önnur ríki. Undantekningarnar eru taldar upp í bókun 2 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og viðauka 1 við samninga EFTA-ríkjanna við Búlgaríu, Eistland, Ísrael, Lettland, Litháen, Marókkó, Pólland, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland og 1. viðauka við tvíhliða samning Íslands og Færeyja um fríverslun. 

Þær vörur sem undanþegnar eru vörusviði samninganna eru að jafnaði kaseín og eggja- og mjólkuralbúmín (úr vöruliðum 3501 og 3502 í samræmdu tollskráinni).  Þó er talsvert um að undanþegnar vörur séu breytilegar frá einum samningi til annars og því er nauðsynlegt að athuga viðeigandi viðauka og bókanir þegar vara er í eftirtöldum vöruliðum í tollskránni: 2905, 3501, 3502, 3505, 3809, 3823, 4501, 5301 og 5302.

Aftur upp

3.2  Sjávarafurðir
Í bókun 9 við EES-samninginn eru ákvæði um viðskipti með fisk og aðrar sjávarafurðir. Þess skal getið að tvíhliða samningur Íslands og Evrópubandalagsins gildir framar ákvæðum bókunar 9 og því er unnt að styðjast við samninginn frá 1972 þegar ákvæðum bókunar 9 sleppir eða þegar hann veitir betri rétt en ákvæði bókunar 9, sbr. 7. gr. bókunarinnar. Til dæmis fellur rækja undir samninginn frá 1972 en ekki undir vörusvið EES-samningsins eins og það er skilgreint í bókun 9 við hann.   

Samkvæmt 2. gr. bókunar 9 við EES-samninginn voru tollar Evrópubandalagsins af sjávarafurðum, sem tilgreindar eru í töflu II í 2. viðbæti við bókunina, felldir niður að fullu frá og með gildistöku samningsins. Hins vegar féllu tollar Evrópubandalagsins niður í áföngum af sjávarafurðum sem taldar eru upp í töflu III í 2. viðbæti, nema af þeim sjávarafurðum sem sérstakar tollalækkanir gilda um í áðurnefndri töflu II og þeim sem fram koma í fylgiskjali með töflu III. Samningurinn tekur m.ö.o. ekki til þeirra sjávarafurða sem taldar eru upp í nefndu fylgiskjali.  Þar er um að ræða lax, síld, makríl, rækju, hörpuskel og leturhumar.

Sérstakar reglur um sjávarafurðir eru í viðauka II við fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna.  Þær eru breytilegar frá einum samningi til annars. Þess vegna er nauðsynlegt að gaumgæfa efni þeirra vandlega þegar áfangastaður útfluttra sjávarafurða er aðildarríki þessara samninga.

Aftur upp

3.3  Landbúnaðarvörur
Ákvæði EES-samningsins taka einungis til framleiðsluvara sem tilgreindar eru í bókun 3 við samninginn, með því sérstaka fyrirkomulagi sem þar greinir. Samkvæmt bókuninni er heimilt að beita verðjöfnun varðandi tiltekið hráefni úr landbúnaði, sbr. skrá yfir hráefni í 2. viðbæti við bókunina, sem notað er við framleiðslu þeirra vara sem taldar eru í töflu I í bókuninni, þ.e. álagning breytilegra gjalda við innflutning og endurgreiðslu við útflutning er heimil, sjá nánar efni bókunarinnar. 

Í tengslum við EES-samninginn var undirritaður samningur á milli Íslands og Efnahags- bandalags Evrópu um sérstakt fyrirkomulag vegna landbúnaðarafurða. [1] Með samningnum var ákveðið að afnema tolla af tilgreindum vörum úr 6.- 10., 12., 13., 15., 18., 20., 22. og 24. kafla tollskrár. 

Það er kveðið á um verðjöfnun í bókun A við fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við ríki Mið- og Austur-Evrópu og Marokkó. Tvíhliða samningar á milli Íslands og þessara ríkja [2] um viðskipti með landbúnaðarafurðir tóku gildi samhliða fríverslunarsamningunum.

Verðjöfnunarákvæðunum í tilvitnuðum bókunum við EES-samninginn og EFTA-samningana hefur ekki verið hrint í framkvæmd. Hins vegar er mælt fyrir um verðjöfnun við útflutning á vörum sem innihalda landbúnaðarhráefni í reglugerð nr. nr. 535/2003.

Aftur upp

- - - - - -

[1] Sjá auglýsingu nr. 34/1993 í C-deild Stjórnartíðinda. 

[2] Sjá auglýsingu nr. 9/1993 í C-deild Stjórnartíðinda, sbr. auglýsingu nr. 39/1995 (Pólland).

    Sjá auglýsingu nr. 23/1992 í C-deild Stjórnartíðinda, sbr. auglýsingar nr. 20/1993 og 24/1993  

    (Tékkland og Slóvakía).

    Sjá auglýsingu nr. 11/1993 í C-deild Stjórnartíðinda (Ísrael).

    Sjá auglýsingu nr. 16/1992 í C-deild Stjórnartíðinda (Tyrkland).

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir