4. kafli

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

4. kafli

Vara, sem á undir vörusvið fríverslunarsamnings, sbr. 3. kafla, telst upprunavara ef hún er að öllu leyti fengin á yfirráðasvæði aðildarríkja viðkomandi samnings með þeim skilyrðum sem getur í honum.  Vörur, sem eru ekki að öllu leyti fengnar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, geta hins vegar öðlast rétt til fríðindameðferðar ef skilyrði aðvinnslureglna samningsins eru uppfyllt.  Skilyrðin lúta m.a. að uppruna aðfanga til framleiðslunnar og frekari vinnslu vörunnar (aðvinnslunni).  Aðvinnslureglurnar mæla með öðrum orðum fyrir um hvort heimilt sé að nota efnivörur frá þriðja landi til framleiðslunnar og hversu mikil aðvinnsla er áskilin til þess að fullbúna varan (framleiðsluvaran) öðlist upprunaréttindi.

Í þessum kafla er í fyrsta lagi gerð grein fyrir reglum sem gilda um vörur sem teljast að öllu leyti fengnar á yfirráðasvæði aðildarríkja fríverslunarsamnings (sjá lið 4.2).

Í öðru lagi er gerð grein fyrir meginatriðum aðvinnslureglna fríverslunarsamninganna (sjá lið 4.3).

Í þriðja lagi verður fjallað um 10% regluna (sjá lið 4.3) og reglur um marghliða uppsöfnun uppruna (sjá lið 4.4) en báðar reglurnar fela í sér frávik frá almennum reglum í liðum 4.2 og 4.3.

Reglur fríverslunarsamningana um uppruna og aðvinnslu eru í meginatriðum efnislega samhljóða, ef frá eru taldar upprunareglur fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við Ísrael og Marokkó, fríverslunarsamnings Íslands og Færeyja og samnings Íslands og Danmerkur um viðskipti á milli Íslands og Grænlands.  Í þessum kafla er vísað til ákvæða bókunar 4 við EES-samninginn.  Sambærileg ákvæði gilda samkvæmt öðrum fríverslunarsamningum ef annað er ekki sérstaklega tekið fram.  Þó nýtur samningurinn við Grænland nokkurrar sérstöðu og þess vegna verður minnst á aðalatriði hans í sérstökum kafla, sjá lið 4.5.

Smelltu á kaflann sem þú vilt lesa.

4.1  Skilgreiningar hugtaka

4.2  Vara er að öllu leyti fengin á EES-svæðinu

4.3  Aðvinnslureglurnar og tengdar reglur

4.4  Endurgreiðsla aðflutningsgjalda eða undanþága frá greiðslu þeirra

4.5  Samningur um viðskipti Íslands og Grænlands

Aftur upp

4.1 Skilgreiningar hugtaka

4.1.1 Efni (efnivara)

Með efnivöru er átt við hvers konar efnisþætti, hráefni, íhluta, hluta, o.s.frv., sem notaðir eru við framleiðslu vöru, sbr. b-lið 1. gr. bókunar 4 við EES-samninginn.

4.1.2 Framleiðsla

Með framleiðslu er átt við hvers konar aðvinnslu, þ.m.t. samsetningu eða sérvinnslu, sbr. a-lið 1. gr. bókunar 4.

4.1.3 Framleiðsluvara

Með framleiðsluvöru er átt við vöru sem er framleidd, jafnvel þótt fyrirhugað sé að nota hana við annars konar framleiðslu síðar, sbr. c-lið 1. gr. bókunar 4.

Aftur upp

4.1.4 Skilgreiningareining

a) Almennt

Grunneining vöru við flokkun samkvæmt tollskrá[1] telst vera sú skilgreiningareining sem lögð er til grundvallar við athugun á því hvort vara telst vera upprunavara á grundvelli aðvinnslureglna fríverslunarsamnings, sbr. 7. gr. bókunar 4 við EES-samninginn.  Það er flokkun grunneiningar (skilgreiningareiningar) í tollskrá sem vísar á viðeigandi aðvinnslureglu í aðvinnslulistanum.[2]

Af reglunni leiðir í fyrsta lagi, að framleiðsluvara, sem gerð er úr blöndum eða samsettum vörum og talin ein grunneining og flokkuð undir einn vörulið með tilliti til samræmdu skrárinnar, telst í heild ein skilgreiningareining m.t.t. aðvinnslureglnanna og í öðru lagi, að þegar í vörusendingu eru margar framleiðsluvörur af sama tagi, sem flokkaðar eru í sama vörulið í samræmdu tollskránni, skal hver einstök framleiðsluvara virt þegar aðvinnslureglunum er beitt.

Dæmi:

Við útflutning er tölvusamstæða gerð úr:

Vörulýsing Vöruliður nr.
minniseiningu 8471
lyklaborði 8471
skjá 8528

Samkvæmt tollskránni flokkast fullgerð tölvusamstæða undir vörulið nr. 8471.  Ef hlutar tölvusamstæðunnar eru fluttir út hver fyrir sig verður niðurstaðan önnur.

Þegar sending er samsett úr nokkrum framleiðsluvörum, sem flokkast í sama vörulið, þá ber að virða hverja framleiðsluvöru fyrir sig þegar aðvinnslureglunum er beitt.

Aftur upp

b) Fylgihlutir, varahlutir, verkfæri

Þá eru í bókun 4 sérstakar reglur sem gilda um úrlausn álitamála um fylgihluti, varahluti og verkfæri, sbr. 8. gr. bókunarinnar.  Samkvæmt reglunni skal skoða fylgihluti, varahluti og verkfæri, sem send eru með búnaði, vél, tæki eða ökutæki og teljast eðlilegir fylgihlutir þeirra og eru innfalin í verði þeirra, sem hluta af viðkomandi búnaði, vél, tæki eða ökutæki.  Um fylgihluti, varahluti og verkfæri, sem send eru hvert fyrir sig, gildir hins vegar meginregla 7. gr. bókunarinnar.   

Dæmi:

Fylgi verkfærasett fólksbíl við útflutning skal tollflokka framleiðsluvörurnar, verkfærasettið og fólksbíllinn, undir sama tollskrárnúmerið.  Það á því að beita aðvinnslureglunni sem gildir um vörulið nr. 8703 um alla vörueininguna.  Ef verkfærasettið er hins vegar flutt út eitt og sér ber að beita aðvinnslureglunni sem gildir um vörulið nr. 8205.

Aftur upp

c) Vörusamstæður

Ákvæði 9. gr. bókunar 4 fjallar um vörusamstæður (sett), sbr. b-lið 3. almennu túlkunarreglu tollskrárinnar.  Samkvæmt reglunni eru vörusamstæður taldar upprunavörur þegar allir vöruíhlutir samstæðunnar eru upprunavörur.  Ef vörusamstæðan er samsett bæði úr upprunavörum og vörum, sem ekki teljast upprunavörur, telst samstæðan í heild upprunavara að því tilskildu að verðmæti þeirra vara, þ.e. tollverð þeirra við innflutning sbr. lið 4.1.7 og 4.1.5, sem ekki eru upprunavörur sé ekki meira en 15% af verksmiðjuverði samstæðunnar.

Í þessu tilviki ber fyrst að leggja mat á hvort einstakir vöruíhlutir uppfylli skilyrði aðvinnslureglunnar sem gildir um þá.  Að því loknu má beita ákvæðum 9. gr. bókunarinnar.  Það má skýra efni þessarar reglu með dæmum:

Aftur upp

Dæmi 1:

Vörusamstæða Upprunaland Verðmæti (ISK)
Hnífur Noregur 30
Skeið Spánn 35
Gaffall Danmörk 35
  Samtals 100

Í þessu dæmi eru allir vöruíhlutirnir upprunnir á EES-svæðinu og vörusamstæðan telst EES-upprunavara.

Dæmi 2:

Vörusamstæða Upprunaland Verðmæti (ISK)
Hnífur Noregur 30
Skeið Spánn 35
Gaffall Tævan 35
  Samtals 100

Í þessu dæmi er verðmæti þeirrar vöru sem ekki telst upprunavara (gaffall frá Tævan) meira en 15% af verksmiðjuverði samstæðunnar og telst vörusamstæðan því ekki EES-upprunavara.

Aftur upp

Dæmi 3:

Vörusamstæða Upprunaland Verðmæti (ISK)
Hnífur Noregur 30
Skeið Spánn 45
Gaffall Tævan 15
  Samtals 100

Í þessu dæmi fer verðmæti þeirrar vöru sem ekki telst upprunavara (gaffall frá Tævan) ekki yfir 15% af verksmiðjuverði samstæðunnar og telst vörusamstæðan því EES-upprunavara.

c) Umbúðir

Þegar umbúðir eru taldar hluti framleiðsluvöru við tollflokkun samkvæmt 5. almennu túlkunarreglu tollskrárinnar [3] skal telja þær með við ákvörðun uppruna, sbr. 2. tl. 7. gr. bókunar 4. 

Dæmi:

 • Útflutningur fistölvu ásamt tösku.  Í þessu tilviki skal tollflokka tölvuna og töskuna saman undir vörulið 8471 og upprunareglan sem við á er sú sem gildir um vörulið nr. 8471.
 • Útflutningur á tösku fyrir fistölvu.  Í þessi tilviki hins vegar skal flokka vöruna í vörulið nr. 4202 og beita upprunareglunni sem gildir um vörulið nr. 4202.

Aftur upp

d) Atriði sem ekki hafa áhrif

Við ákvörðun uppruna þarf ekki að taka tillit til uppruna orku, verksmiðju eða búnaðar hennar, svo og véla og tækja sem notuð eru við framleiðslu vöru, sbr. 10. gr bókunarinnar.  Þá er tekið fram í ákvæðinu að það, sem notað er til framleiðslunnar en verður ekki efnisþáttur í fullgerðri framleiðsluvörunni, hafi ekki áhrif við ákvörðun uppruna endanlegrar framleiðsluvöru.

4.1.5 Tollverð vöru

Tollverð vöru með tilliti til upprunareglnanna er ákveðið í samræmi við samning um framkvæmd VII. gr. hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti 1994, sbr. e-lið 1. gr. bókunar 4.  Um tollverð er fjallað í 8.–10. gr. tollalaga og reglugerð nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun, sbr. reglugerð nr. 457/1995 um breytingu á henni.  Meginreglan samkvæmt tilvitnuðum laga- og reglugerðaákvæðum er að tollverð er samtala viðskiptaverðs, kostnaðar við flutning vörunnar hingað til lands og vátryggingarkostnaðar.  Nokkrir þættir til viðbótar eru taldir í ákvæðunum, t.d. umboðslaun og miðlaraþóknun, og vísast til ákvæðanna um nánari skilgreiningu á tollverði.

4.1.6  Upprunaefni

Til upprunaefna teljast efnivörur eða framleiðsluvörur sem eru að öllu leyti fengnar eða hafa hlotið nægilega aðvinnslu.

4.1.7 Verðmæti efnis

Með orðunum “verðmæti efnis” er átt við tollverð efnivara, sem eru ekki upprunaefni, við innflutning þeirra til nota til framleiðsluvöru eða fyrsta verð sem sýnt er fram á að greitt hafi verið fyrir hina innfluttu efnivöru innan EES, ef tollverð þeirra er ekki þekkt og ekki verður sýnt fram á hvert það er, sbr. g-lið 1. gr. bókunar 4.

Aftur upp

4.1.8 Verksmiðjuverð

Verksmiðjuverð vöru er verð frá framleiðanda, sem síðast vann að vörunni á EES-svæðinu, til kaupanda, að því tilskildu að verðmæti alls efnis sem notað er að frádregnum innlendum álögum, sem hafa verið endurgreiddar eða endurgreiða má þegar framleiðsluvaran er flutt út, sé innifalið í verksmiðjuverðinu, sbr. f-lið 1. gr. bókunar 4.

4.1.9 Virðisauki

Virðisauki í tilteknu ríki er verksmiðjuverð hinnar endanlegu framleiðsluvöru, að frádregnu tollverði þess hráefnis sem notað var til framleiðslunnar og ekki er upprunnið í því ríki, sbr. i-lið 1. gr. bókunar 4.

Aðrir fríverslunarsamningar

Í öðrum öðrum fríverslunarsamningum er vísað til yfirráðasvæðis aðildarríkja viðeigandi samnings í stað EES-svæðisins en að örðu leyti er ákvæðin samhljóða ef frá eru taldir EFTA-samningarnir við Ísrael og Marokkó og samningur Íslands við Færeyjar.  EFTA-samningurinn við Ísrael hefur ekki að geyma skilgreiningarákvæði sama efnis og tilvitnuð ákvæði úr bókun 4 við EES-samningnum.  Þá er hugtakið “virðisauki” ekki skilgreint í samningunum við Marokkó og Færeyjar.

Aftur upp

4.2 Vara er að öllu leyti fengin á EES-svæðinu

Eins og fram hefur komið er sú regla sett fram í 1. mgr. 2. gr. bókunar 4 við EES-samninginn að framleiðsluvara sem er að öllu leyti fengin á EES-svæðinu teljist EES-upprunavara.  Í 4. gr. bókunar 4 eru taldar þær vörur sem teljast fengnar að öllu leyti á EES-svæðinu.  Þær eru:

 1. jarðefni sem unnin eru úr jörðu á EES-svæðinu eða úr hafsbotni þess;
 2. vörur úr jurtaríkinu sem þar eru ræktaðar;
 3. lifandi dýr sem þar eru borin og alin;
 4. afurðir lifandi dýra sem þar eru alin;
 5. veiðibráð og fiskafurðir sem aflað er með veiðum þar;
 6. sjávarafurðir og aðrar afurðir teknar úr sjó utan landhelgi samningsaðila af skipum þeirra;
 7. vörur sem framleiddar eru um borð í verksmiðjuskipum þeirra, eingöngu úr afurðum sem teknar eru úr sjó utan landhelgi samningsaðila af skipum þeirra;
 8. notaðar vörur sem þar er safnað saman og eingöngu er hægt að notað til þess að vinna hráefni úr, þar á meðal notaðir hjólbarðar sem nýtast eingöngu til sólunar eða sem úrgangur;
 9. úrgangur og rusl sem til fellur vegna framleiðslustarfsemi þar;
 10. vörur unnar úr yfirborðslögum hafsbotnsins utan landhelgi samningsríkjanna, að því tilskildu að þau hafi einkarétt á að vinna úr þessum lögum;
 11. vörur sem eru framleiddar á EES-svæðinu eingöngu úr þeim vörum sem tilgreindar eru hér að ofan.

Orðin skip þeirra og verksmiðjuskip þeirra gilda einvörðungu um skip sem uppfylla eftirtalin skilyrði, sbr. 2. tl. 4. gr. bókunar 4:

 1. skip er skráð eða skrásett í aðildarríki Evrópubandalagsins eða í EFTA-ríki;
 2. skip siglir undir fána aðildarríkis Evrópubandalagsins eða EFTA-ríkis;
 3. skip er að minnsta kosti í 50 af hundraði í eigu ríkisborgara aðildaríkja Evrópubandalagsins eða EFTA-ríkis, eða í eigu fyrirtækis sem hefur aðalstöðvar í einu þessara ríkja enda sé framkvæmdarstjóri eða framkvæmdarstjórar þess, stjórnarformaður eða formaður umsjónarnefndar og meirihluti stjórnarnefndarmanna eða umsjónarnefndarmanna ríkisborgarar aðildarríkja Evrópubandalagsins eða EFTA-ríkis; auk þess sem að minnsta kosti helmingur höfuðstóls sé í eigu þessara ríkja eða opinberra stofnana eða ríkisborgara nefndra ríkja, ef um er að ræða sameignarfélög eða hlutafélög;
 4. skipstjóri og yfirmenn skips eru ríkisborgarar aðildarríkis Evrópubandalagsins eða EFTA-ríkis; og
 5. að minnsta kosti 75 % áhafnarinnar eru ríkisborgarar Evrópubandalagsins eða EFTA-ríkis.

Sérstök athygli er vakin á því að uppfylla þarf öll ofantalin skilyrði til þess að skip eða verksmiðjuskip geti talist skip samningsaðila.

Aftur upp

Aðrir fríverslunarsamningar

Samsvarandi ákvæði í EFTA-sáttmálanum og fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna hljóða á þann veg að vara telst að öllu leyti fengin í EFTA-ríki eða viðkomandi samningsríki ef sömu skilyrði og að ofan greinir eru uppfyllt ef frá er talinn EFTA-samningurinn við Ísrael.  Fiskur telst t.d. að öllu leyti fenginn í Póllandi ef hans er aflað í pólskri landhelgi.  Afli, sem fenginn er í pólskri landhelgi, er pólsk upprunavara þrátt fyrir að hann sé tekinn úr sjó af brasilísku skipi.  Hins vegar telst fiskur, sem tekinn er úr sjó utan pólskrar landhelgi, því aðeins vera pólsk upprunavara ef að ofangreind skilyrði, er varða skipið og útgerð þess, eru uppfyllt.  Fiskur telst t.d. pólsk upprunavara ef hann er veiddur af skipi, sem siglir undir pólskum fána og er þar skráð, sem er í tiltekinni eignaraðild EFTA-ríkja og Póllands og með áhöfn frá EFTA-ríkjum og Póllandi.

Í EFTA-samningnum við Ísrael er ekki samsvarandi skilgreining á “skipum þeirra og verksmiðjuskipum þeirra.”  Í athugasemd 3 í skýringum við upprunareglur samningsins er mælt fyrir um að ofangreindar reglur skuli gilda um “skip þeirra og verksmiðjuskip þeirra.”  Að öðru leyti er ákvæðið samhljóða, þ.e. vara telst að öllu leyti fengin í aðildarríki samningsins ef hún er fengin með þeim hætti sem segir í ákvæðinu.

Vörur teljast að öllu leyti fengnar á Íslandi eða í Færeyjum ef samsvarandi ákvæði eru uppfyllt.

4.3 Aðvinnslureglurnar og tengdar reglur

Aftur upp

4.3.1 Nægileg aðvinnsla

Framleiðsluvara getur öðlast EES-uppruna samkvæmt 1. mgr. 2. gr. bókunar 4 við EES-samninginn fái hún nægilega aðvinnslu á EES-svæðinu.  Nánar er kveðið á um hvað felst í skilyrðinu um nægilega aðvinnslu í 5. gr. bókunar 4.  Þar segir að vörur, sem ekki eru að öllu leyti fengnar á EES-svæðinu, teljist hafa fengið nægilega aðvinnslu hafi skilyrðum II. viðbætis við bókun 4 verið fullnægt.  Annar viðbætir við bókun 4 hefur að geyma aðvinnslureglurnar eða aðvinnsluskrána, en viðbætirinn er oft nefndur aðvinnsluskrá.

Aðrir fríverslunarsamningar

Samsvarandi ákvæði um nægilega aðvinnslu efnivöru, sem ekki er að öllu leyti fengin á yfirráðasvæði aðildarríkjanna samkvæmt ákvæðum samninganna, eru í fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna og EFTA-sáttmálanum.  Framleiðsluvara, sem ekki er að öllu leyti fengin í EFTA-ríki, telst upprunnin í því ríki ef hún hlýtur nægilega aðvinnslu á yfirráðasvæði þess samkvæmt aðvinnsluskrá viðeigandi fríverslunarsamnings.  Á sama hátt telst vara, sem ekki er að öllu leyti fengin í Búlgaríu, upprunnin í Búlgaríu ef hún fær nægileg aðvinnslu á yfirráðasvæði Búlgaríu samkvæmt aðvinnsluskránni.

Samkvæmt tvíhliða samningi Íslands og Færeyja telst vara, sem ekki er að öllu leyti fengin á Íslandi eða í Færeyjum, upprunnin þar ef hún hlýtur nægilega aðvinnslu þar samkvæmt ákvæðum samningsins.

Aftur upp

4.3.2 Ófullnægjandi aðvinnsla

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. bókunar 4 við EES-samninginn telst vara EES-upprunavara hafi hún að öllu leyti verið fengin á EES-svæðinu eða fengið þar nægilega aðvinnslu, sbr. 4. og 5. gr. bókunarinnar.  Vörur geta hins vegar fengið margs konar meðhöndlun á EES-svæðinu, sem telst ófullnægjandi aðvinnsla samkvæmt 6. gr. bókunarinnar og veitir ekki upprunaréttindi, óháð því hvort kröfum 5. gr. hafi verið fullnægt eða ekki.  Ófullnægjandi telst t.d. aðvinnsla sem felst í einföldum aðgerðum eins og að flokka vörur, velja vörur í samstæður, þvo, mála, skipta um umbúðir, tappa á flöskur, setja í sekki og öskjur og festa á spjöld, merkja eða auðkenna eða einföld blöndun eða samsetning vöruhluta, sjá a.–f. lið 1. tl. 6. gr.  Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort framkvæmdar séu tvær eða fleiri slíkar aðgerðir, sbr. g-lið 1. tl. 6. gr.

Dæmi:

Fyrirtæki flytur inn sterkjulím í 20 kg umbúðum (vöruliður nr. 3505) frá Bandaríkjunum á 100 kr/kg.  Límið er sett í 1/2 kg umbúðir (vöruliður nr. 3506) og flutt út til Svíþjóðar.  Verð á lími í 1/2 kg umbúðum er ákveðið kr. 200, þ.e. kr. 400 á kíló.  Þegar eingöngu er horft til valkvæðu aðvinnuslureglunnar í 4. dálki aðvinnsluskrárinnar (sjá úr 35. kafla) er verðmæti þriðja lands efnivöru innan þeirra verðmætismarka sem þar gilda.  Verðmæti þriðja lands efnivörunnar er innan við 40% af verksmiðjuverði "framleiðsluvörunnar".  Það er hins vegar á það að líta að innflutta efnivaran hefur ekki fengið fullnægjandi aðvinnslu samkvæmt stafliði c (ii) 1. tl. 6. gr. og af því leiðir að varan getur ekki fengið fríðindameðferð við innflutning til annars EES-ríkis.

Aftur upp

4.3.3 Aðvinnsluskrárnar

Þriðja lands efnivörur

Aðvinnsluskráin í II. viðbæti við bókun 4 kveður á um aðvinnslu efnivöru sem ekki er EES-upprunavara, þ.e. reglur aðvinnsluskrárinnar gilda einvörðungu um þriðja lands efnivörur sem notaðar eru til framleiðslu vara sem EES-samningurinn tekur til.

Samkvæmt EES-samningnum eru efnivörur, sem eru upprunnar í ríkjum utan EES-svæðisins, þriðja lands efnivörur þegar litið er til aðvinnsluskrárinnar.  Reglurnar um marghliða uppsöfnun uppruna gera þó ráð fyrir að efnivörur frá fleiri ríkjum teljist upprunaefni þegar reglum aðvinnsluskrárinnar er beitt, sjá nánar lið 4.4.

Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að hafi framleiðsluvara af EES-uppruna (EES-efnivara) verði notuð sem efnivara til framleiðslu annarrar framleiðsluvöru, á ekki að reikna með verðmæti þriðja lands efnivara sem kunna að hafa verið notaðar til framleiðslu hennar þegar reglum aðvinnsluskrárinnar fyrir hina fullgerðu framleiðsluvöru er beitt.

Aftur upp

Dæmi:

Framleiðsla á plastflöskum, vöruliður nr. 3923, verksmiðjuverð kr. 100.

Efnivörur Upprunaland Vöruliður nr. Verðmæti (ISK)
Plasthráefni Bandaríkin 3903 50
Plasttappar EES-svæðið 3923 10

Sænsku tapparnir eru unnir úr bandarísku plasthráefni.  Hráefnið hefur hins vegar fengið nægilega aðvinnslu á EES-svæðinu til að öðlast EES-uppruna.  Hráefnið er að verðmæti 45% af verðmæti tappans, þ.e. kr. 4,50.

Samkvæmt reglu aðvinnslulistans um fullgerðu framleiðsluvöruna má ekki nota meira en 50% af þriðja lands efnivöru, þ.e. samtals kr. 50.  Ef verðmæti þriðja lands efnivara í tappana hefði verið reiknað með hefði verðmæti þeirra orðið 54,50, þ.e. meira en 50%. Síðari málsgreinarhluti 1. mgr. 5. gr. hefur hins vegar í för með sér að þessi efnivara verður upprunavara.  Þriðja lands efnivara sem notuð hefur verið í EES-framleiðsluvöru, sem síðan er notuð til framleiðslu annarrar framleiðsluvöru, er ekki talin með við útreikninginn.

Aftur upp

Altæk uppsöfnun uppruna

Samkvæmt reglunni um altæka uppsöfnun uppruna er heimilt að líta til verðmætis þriðja lands efnivöru, sem hefur hlotið einhverja aðvinnslu á EES-svæðinu, við beitingu hundraðshlutareglna aðvinnsluskrárinnar, þ.e. heimilt er að taka tillit til verðmætis þeirra aðvinnslu sem þegar hefur farið fram á EES-svæðinu samkvæmt aðvinnslureglunum þrátt fyrir að aðvinnslan hafi ekki verið nægileg til þess að veita vörunni EES-uppruna.

Reglan er leidd af 2. gr. samningsins þar sem segir að yfirráðasvæði aðildarríkjann þ.m.t. landhelgi þeirra skuli teljast eitt yfirráðasvæði m.t.t. reglnanna um vörur sem eru að öllu leyti fengnar á EES-svæðinu og nægilega aðvinnslu.

Dæmi:

Reglan um altæka uppsöfnun verðmætis.

Verð fullgerðrar framleiðsluvöru frá verksmiðju er kr. 1000.  Verðmæti efnivara sem ekki teljast upprunavörur er kr. 550.  Samkvæmt reglu aðvinnslulistans má verðmæti allra þeirra efnivara sem notaðar hafa verið til framleiðslunnar ekki vera meira en 50% af verksmiðjuverði fullgerðu framleiðsluvörunnar.  Ein efnivaran sem notuð var til framleiðslunnar hlaut aðvinnslu í öðru EES-ríki.  Sú aðvinnsla var hins vegar ekki nægileg ein sér til þess veita efnivörunni EES-uppruna, en verðmæti aðvinnslunnar var kr. 50.  Verðmæti þessarar aðvinnslu má íslenski framleiðandinn nota sér ef hann getur sannað að um EES-aðvinnslu sé að ræða.  Geti framleiðandinn það er 50% reglunni fullnægt.

Aftur upp

Uppbygging aðvinnsluskrárinnar

Aðvinnsluskrár fríverslunarsamninganna eru byggðar á samræmdu tollskránni.  Upplýsingar um nauðsynlega aðvinnslu eru gefnar fyrir hvern vörulið.  Þegar flett er upp í skránum er leitað eftir vörulið fullbúnu vörunnar, sbr. lið 4.1.4 um skilgreiningareiningar.  Þess skal getið að í þessum bæklingi er notað orðið efnivara en í aðvinnsluskránni er notað orðið efni.

Í aðvinnslulistunum eru 4 dálkar.

 1. Í dálki 1 eru númer kafla og vöruliða úr samræmdu tollskránni.  Ef flett er upp á 46. kafla og vörulið nr. 4602 í aðvinnsluskránni í II. viðbæti við bókun 4 má sjá að reglan sem þar er tilgreind gildir um allar vörur sem flokkast undir 46. kafla og þess vegna vörulið nr. 4602.  Ef hins vegar er flett upp á 48. kafla og vörulið nr. 4811 má sjá að fyrir framan þessar tilvitnanir í fyrsta dálki stendur orðið “úr” en það gefur til kynna að reglan gildi aðeins um hluta þeirra vara sem flokkast í vörulið nr. 4811.
 2. Í dálki 2 er vörulýsing.  Það er mikilvægt að skoða vel efni hennar þegar aðvinnsluregla gildir aðeins um hluta vara úr kafla eða vörulið, þ.e. þegar orðið úr stendur fyrir framan númer kafla eða vöruliðar.
 3. Í dálki 3 er aðvinnslureglan sem gildir um viðkomandi framleiðsluvöru.
 4. Í dálki 4 er valkvæð aðvinnsluregla fyrir suma kafla og vöruliði.  Ef aðvinnsluregla er tilgreind bæði í 3. og 4. dálki getur útflytjandi valið þá reglu sem honum hentar betur við ákvörðun upprunaréttinda.  Það er nóg að skilmálum annarrar reglunnar sé fullnægt.

Aftur upp

Nokkrar algengar aðvinnslureglur

(1) "Verðmæti allra efnivara má ekki vera meira en 50% af verksmiðjuverði fullgerðrar framleiðsluvöru.”

Dæmi 1:
Verð fullgerðrar vöru frá verksmiðju er kr. 1000.  Verðmæti efnivara, sem ekki eru EES- upprunavörur, er kr. 500.  Þá er verðmæti EES-upprunavara kr. 200.  Verðmæti aðvinnslunnar er kr. 300.  Af 50% reglunni leiðir að framleiðsluvaran telst vera EES-upprunavara.  Sjá einnig dæmi um altæka uppsöfnun uppruna í tengslum við 50% regluna hér að ofan.

Aftur upp

(2) "Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran.”

Dæmi:
Framleiðsluvaran er rjómaís sem flokkast í vörulið 2105.  Allt hráefnið sem ekki er upprunaefni verður því að flokkast í aðra vöruliði en 2105, t.d. smjör í vörulið 0405, sykur í vörulið 1701, plastbox í vörulið 3923 og plastskeið í vörulið 3924.

(3) "Framleiðsla úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran.  Þó má nota efni sem flokkast undir sama vörulið enda sé verðmæti þeirra ekki meira en 20% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar.”

Dæmi:
Framleiðsluvaran er 34% ammoníak í vatnslausn (salmíak) í vörulið 2814.  Allt hráefnið sem ekki er upprunavara verður því að flokkast í aðra vöruliði en 2814, t.d. vetni og köfnunarefni í vörulið 2804. Þó má nota efni í sama vörulið, t.d. ammoníak gas, sem ekki er upprunaefni að því tilskyldu að tollverð þess sem notað er í framleiðsluna sé ekki hærra en 20% af verksmiðjuverði ammoníakslausnarinnar.

(4) "Framleiðsla:

 • úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran;
 • þar sem heildarverðmæti efnanna er ekki meira en 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar.”

Aftur upp

Dæmi:
Framleiðsluvaran er færibandavog í vörulið 8423.  Verksmiðjuverð hennar er 120.000 íslenskar krónur.  Allt þriðja lands hráefnið til framleiðslu vogarinnar verður því að flokkast í aðra vöruliði en 8423, og að auki má heildartollverðmæti utansvæðishráefnis ekki fara fram úr 40% af verksmiðjuverði vogarinnar.

Hráefni Tollskrárnúmer Upprunaland Verðmæti
Prentplötur   EES  
Skjár   USA 10.000,-
Rafmagnshlutir   EES  
Hugbúnaður   USA 22.000,-
Skynjarar   EES  
Málmhlutir aðrir   Japan 15.000,-
    Samtals: 47.000,-

Verðmæti þriðja lands hráefnis er 39% af verksmiðjuverði.  Skjár og hugbúnaður flokkast á aðra vöruliði.  Ef málmhlutirnir frá Japan flokkast allir í aðra vöruliði en 8423 er færibandavogin upprunavara.  Ef hins vegar einhver hluti þeirra flokkast í vörulið 8423, t.d. vogarlóð, er ekki um upprunavöru að ræða.

Aðrir fríverslunarsamningar

Þriðja lands efnivörur

Í fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna er meginreglan sú að efnivörur, sem upprunnar eru utan framleiðsluríksins, teljast þriðja lands efnivörur, þ.e. efnivara frá Íslandi er þriðja lands efnivara þegar aðvinnslureglunum er beitt um vöru sem framleidd er í Búlgaríu.  Reglurnar um marghliða uppsöfnun uppruna í EFTA-samningunum, ef frá eru taldir EFTA-samningarnir við Ísrael og Marokkó, fela þó í sér mikilvægar undantekningar frá meginreglunni þar sem efnivörur frá mun fleiri ríkjum teljast upprunaefni með tilliti til aðvinnsluskránna.  Reglurnar um uppsöfnun uppruna í EFTA-samningunum við Ísrael og Marokkó ganga mun skemur, sjá nánar umfjöllun um marghliða uppsöfnun uppruna í lið 4.4.

Aftur upp

Í fríverslunarsamningi Íslands við Færeyjar er gert ráð fyrir að efnivörur, sem ekki eru að öllu leyti fengnar á Íslandi eða í Færeyjum, teljist þriðja lands efnivörur við beitingu aðvinnsluskrárinnar í samningnum.

Altæk uppsöfnun uppruna

Reglan um altæka uppsöfnun uppruna gildir hvorki samkvæmt EFTA-samningunum, þ.m.t. EFTA-sáttmálanum né fríverslunarsamningnum á milli Íslands og Færeyja.  Þessir samningar heimila einvörðungu uppsöfnun verðmætis upprunavara, þ.e. efnivara sem þegar hafa öðlast upprunaréttindi.

Uppbygging aðvinnsluskrárinnar

Uppbygging aðvinnsluskránna í EFTA-sáttmálanum og EFTA-samningunum er með sama hætti og uppbygging aðvinnsluskrárinnar í II. viðbæti við bókun 4.

Aftur upp

4.3.4  Marghliða uppsöfnun uppruna

Reglur aðvinnsluskrárinnar í EES-samningnum gilda einvörðungu um þriðja lands efnivörur sem notaðar eru til framleiðslu vara sem samningurinn tekur til, sbr. lið 4.3.3 hér að framan.  Reglurnar um marghliða uppsöfnun uppruna fela í sér mikilvægar undantekningar frá þessari reglu en samkvæmt þeim skulu efnivörur, sem eru upprunnar í Búlgaríu, Póllandi, Ungverjalandi, Tékklandi, Slóvakíu, Rúmeníu, Litháen, Lettlandi, Eistlandi, Slóveníu, Sviss, Liechtenstein eða Tyrklandi með vísan til upprunareglna í fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsríkjanna við þessi ríki, teljast upprunnar á EES-svæðinu ef þær verða hluti af framleiðsluvöru sem verður til á EES-svæðinu.  Þegar svo háttar er ekki litið á efnivöru frá nefndum ríkjum sem þriðja lands efnivöru þegar reglum aðvinnsluskrárinnar er beitt.

Það er þó einvörðungu heimilt að líta á efnivöru frá þessum ríkjum sem upprunaefni ef aðvinnsla á EES-svæðinu er umfram það sem telst vera ófullnægjandi aðvinnsla samkvæmt 6. gr. bókunar 4 við EES-samninginn.  Þegar aðvinnslan á EES-svæðinu er ekki nægileg með vísan til 6. gr. bókunar 4 getur framleiðsluvaran öðlast EES-uppruna ef virðisaukinn sem verður til við framleiðslu hennar á EES-svæðinu er meiri en verðmæti efnivöru frá einhverju nefndra ríkja.

Aftur upp

Dæmi 1:

Ófullnægjandi aðvinnsla.

Flattur þorskur með uppruna í Lettlandi er fluttur til Íslands (EES), þar er hann snyrtur, pækilsaltaður, flokkaður, merktur og honum pakkað í kassa. Vinnslan á lettneska hráefninu hefur ekki verið umframþað sem telst ófullnægjandi aðvinnsla, sbr. 6.gr., og má því ekki líta á framleiðsluvöruna sem EES-upprunavöru.

Dæmi 2:

Virðisauki

Í dæminu að ofan er verksmiðjuverð fullbúnu framleiðsluvörunnar kr. 1000.  Tollverð innflutta hráefnisins frá Lettlandi er kr. 450.  Virðisaukinn á EES-svæðinu er meiri en í Lettlandi og því getur framleiðsluvaran öðlast EES-uppruna þrátt fyrir að vinnsla hráefnisins teljist ófullnægjandi.

Aftur upp

Aðrir fríverslunarsamningar

Í EFTA-samningunum eru samsvarandi ákvæði um marghliða uppsöfnun uppruna, ef frá eru taldir samningarnir við Ísrael og Marokkó. 

Samkvæmt ákvæðunum skulu efnivörur, sem er upprunnar í Búlgaríu, Íslandi, Noregi, Sviss, Liechtenstein, Ungverjalandi, Póllandi, Tékklandi, Slóvakíu, Rúmeníu, Slóveníu, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Tyrklandi eða Evrópska efnhagssvæðinu með vísan til upprunareglna fríverslunarsamninga þessara ríkja við EFTA-ríkin eða Evrópusambandið, teljast upprunnar í EFTA-ríki eða viðeigandi samningsríki þegar þær verða hluti af framleiðsluvöru sem verður til þar.

Sömu skilyrði gilda um fullnægjandi aðvinnslu í EFTA-samningunum og í EES-samningnum, þ.e. einvörðungu er heimilt að líta á efnivöru frá þessum ríkjum sem upprunaefni ef aðvinnsla í samningsríki er umfram það sem telst vera ófullnægjandi aðvinnsla samkvæmt samningunum.  Þegar aðvinnslan í samningsríki er ekki nægileg með vísan til ákvæðanna um ófullnægjandi aðvinnslu getur framleiðsluvaran orðið upprunavara ef virðisaukinn sem verður til við framleiðslu hennar í samningsríkinu er meiri en verðmæti efnivara frá ríkjum Evrópusambandsins eða einhverju þeirra ríkja sem talin voru hér að ofan.

Í EFTA-samningnum við Marokkó eru ákvæði um uppsöfnun uppruna sem ganga mun skemur en ofangreindar reglur í hinum EFTA-samningunum, sbr. 3. og 4. gr. viðauka B við EFTA-samninginn við Marokkó.  Það eru engin ákvæði um uppsöfnun uppruna í EFTA-samningnum við Ísrael og samningi Íslands við Færeyjar.

Aftur upp

4.3.5  Almenna fráviksreglan (10% reglan)

Í 2. tl. 5. gr. bókunar 4 við EES samninginn er getið um almennu fráviksregluna (general tolerance rule) eða 10% regluna en hún veitir heimild til þess að notuð séu efni sem ekki eru upprunaefni til framleiðslu vöru ef heildarverðmæti þeirra er ekki meira en 10% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar hvað sem líður reglum aðvinnsluskránna, þ.e. án þess að varan glati uppruna sínum.

Gildissvið greinarinnar er hins vegar bundið eftirtöldum takmörkunum:

 1. Hún rýmkar ekki hundraðshlutareglur aðvinnsluskrárinnar.  Þegar aðvinnsluregla heimilar að verðmæti þriðja lands efnivara sé 40% af verksmiðjuverði framleiðsluvörunnar, þá er það hámarkshlutfall þriðja lands efnivara, eigi framleiðsluvaran að öðlast upprunaréttindi samkvæmt samningnum.
 2. Ekki má beita 10% reglunni um framleiðsluvörur í 50. til 63. kafla tollskrárinnar (spunavörur).
 3. Reglan um ófullnægjandi aðvinnslu gengur ávallt framar aðvinnslureglunum og 10% reglunni, þ.e. aðvinnslan sem framkvæmd er til þess að framleiðsluvara teljist upprunavara þarf að vera meiri en ófullnægjandi aðvinnsla samkvæmt 6. gr. bókunar 4.

Aftur upp

Dæmi:

 1.  
  1. Ef regla aðvinnslulistans gerir kröfu um að allar þriðja lands efnivörur skipti um vörulið, sbr. regluna í 46. kafla. leiðir það af ákvæðum 2. mgr. 5. gr. bókunar 4 að engu að síður megi nota 10% af þriðja lands efnivörum sem ekki skipta um vörulið við aðvinnslu að því gefnu að vinnsla efnivaranna sé meiri en óveruleg aðvinnsla sbr. 6. gr. bókunarinnar
  2. Rækja – soðin, pilluð og fryst.
   Rækju af íslenskum uppruna og þriðja lands uppruna (innan 10 % marka) er blandað saman og hún er soðin, pilluð og fryst (suðan ein og sér telst vera nægileg aðvinnsla samkvæmt bókunar 4).  Það er mat fjármála- og efnahagsráðuneytisins[4] að til þess að unnt sé að blanda rækju af íslenskum og þriðja lands uppruna sé nauðsynlegt að blandan fari í heild í vinnslurásina, þ.e. í suðupottinn o.s.frv., til þess að framleiðsluvaran “rækja til smásölu” geti talist íslensk upprunavara.  Það er áskilið að blöndunin eigi sér stað við upphaf vinnslunnar.  Af þessu leiðir að rækja í smásölueiningum verður ekki íslensk upprunavara, þrátt fyrir að í hverjum og einum poka séu 9/10 hlutar íslensk rækja og 1/10 þriðja lands rækja, ef blöndunum hefur ekki átt sér stað fyrr en eftir suðu.
  3. Grásleppuhrogn
  4. Útflutningsvaran er hnífur, vöruliður nr. 8211, verðmæti kr. 500
Efnivörur Upprunaland Vöruliður nr. Verðmæti
Hnífsblað EES-svæðið 8211 150
Slíður Kórea 8211 40
Tréskaft EES-svæðið 4417 120
    Samtals: 310

Aftur upp

Aðvinnslan felst í skerpingu, lökkun og fleiru, þ. e. aðvinnslan sem er framkvæmd er umfram það sem kallast ófullnægjandi aðvinnsla.

Í þessu tilviki gildir aðvinnsluregla vöruliðar nr. 8211 sem tekur til framleiðslu “úr efnum sem flokkast öll undir aðra vöruliði en framleiðsluvaran.  Þó er heimilt að nota hnífsblöð og -sköft úr ódýrum málmi.”  Þessu skilyrði er ekki fullnægt varðandi efnivöruna frá Kóreu en hér kemur 10% reglan til skoðunar.  Verðmæti slíðursins er minna en 10% af verðmæti fullgerðu framleiðsluvörunnar og telst hnífurinn því engu að síður upprunavara.

Aðrir fríverslunarsamningar

Almenna fráviksreglan er einnig í gildi samkvæmt EFTA-samningunum ef frá eru taldir samningarnir við Ísrael og Marokkó.  Fríverslunarsamningurinn á milli Íslands og Færeyjar hefur ekki að geyma almenna fráviksreglu.

Aftur upp

4.4 Endurgreiðsla aðflutningsgjalda eða undanþága frá greiðslu þeirra

Hafi tollur verið endurgreiddur eða felldur niður af þriðja lands efnivörum í innlendar framleiðsluvörur getur fullbúna varan ekki notið fríðindameðferðar samkvæmt EES-samningnum, sbr. 14. gr. bókunar 4.  Ákvæði 14. gr. á ekki við um efnivörur sem ekki eiga undir vörusvið EES-samningsins, sbr. 3. kafla.

Það er kveðið á um rétt til undanþágu tolls af aðföngum til framleiðslu iðnaðarvara í II. kafla reglugerðar, nr. 719/200, um undanþágu aðflutningsgjalda af aðföngum til ýmissar atvinnustarfsemi, sbr. reglugerð nr. 791/2000 um breytingu á henni og í reglum nr. 172/1985, um endurgreiðslur tolla vegna skipasmíða og skipaviðgerða.

Aðrir fríverslunarsamningar

Samsvarandi regla er í EFTA-samningunum ef frá er talinn samningurinn við Marokkó og fríverslunarsamningnum á milli Íslands og Færeyjar.  Reglan hefur ekki tekið gildi að fullu nema í samningunum við Tyrkland, Ísrael og Færeyjar.  Það er gert ráð fyrir því að reglan taki gildi gagnvart hinum ríkjunum hinn 31. desember nk. ef aðlögunartíminn verður ekki framlengdur.

4.5 Samningur um viðskipti Íslands og Grænlands

Kemur síðar

Aftur upp

- - - - - -

[1] Íslenska tollskráin er byggð á alþjóðasamningi um samræmdar vörulýsingar og vörunúmeraskrá.  Samkvæmt tollskránni flokkast vörur í 97 kafla og 1300 vöruliði.  Það eru fjórir stafir í hverjum vörulið.

[2] Við flokkun samkvæmt tollskránni skal fylgja ákveðnum túlkunarreglum.  Um efni þeirra er vísað til tollskrárinnar.

[3] Fimmta almenna túlkunarregla tollskrár er svohljóðandi:

“Auk undanfarandi ákvæða skulu eftirfarandi reglur gildar um þær vörur sem hér greinir:

 1. Myndavélahylki, hljóðfæratöskur, byssuhulstur, pennastokkar, skartgripaskrín og áþekk ílát sem sérstaklega eru löguð eða smíðuð undir ákveðnar vörur eða vörusamstæður, eru ætluð til langvarandi nota og framvísað með þeim vörum sem þær eru ætlaðar undir skal flokka með þessum hlutum. Ákvæði þetta tekur þó ekki til íláta sem eru einkennandi fyrir vöruna í heild.
 2. Leiði ekki annað af reglu a-liðar 5. töluliðar skal umbúðaefni og ílát til pökkunar, sem framvísað er með vörunum í, flokkað með vörunum, enda sé það venjulega notað til pökkunar á slíkum vörum.”

[4] Sbr. bréf fjármálaráðuneytisins, dags. 26. október 1998.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir