5. kafli

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

5. kafli

Fríðindameðferð samkvæmt EES-samningnum gildir einungis um vörur sem fluttar eru milli EFTA-ríkjanna, ríkja Evrópusambandsins og annarra ríkja, sem eru aðilar að samkomulaginu um marghliða uppsöfnun uppruna, án þess að farið sé um yfirráðasvæði þriðja lands (svæðisreglan), sbr. 1. tl. 12. gr. bókunar 4 við EES-samninginn. [1]

Þó má flytja framleiðsluvörur, sem mynda eina óskipta vörusendingu, á yfirráðasvæði þriðja lands til umfermingar eða bráðabirgðabirgðageymslu ef þörf krefur, að því tilskildu að vörurnar verði undir eftirliti tollyfirvalda í landinu þar sem umflutningurinn eða geymslan á sér stað og hljóti ekki aðra meðferð en affermingu, endurfermingu eða meðferð sem miðar að því að forða þeim frá skemmdum, sbr. 1. tl. 12. gr. bókunar 4.

Eftirfarandi sannanir um að ofangreindum skilyrðum hafi verið fullnægt skal leggja fram hjá tollyfirvöldum í innflutningsríkinu:

 1. farmskírteini sem gefið er út í útflutningslandinu og gildir um ferðina um umflutnings­landið; eða
 2. skírteini, sem tollyfirvöld umflutningslandsins gefa út, þar sem fram kemur:
  • nákvæm lýsing á framleiðsluvörunni,
  • dagsetning affermingar og endurfermingar og heiti hlutað­eigandi skipa þegar við á, og
  • vottorð um við hvað aðstæður framleiðsluvaran var geymd í umflutnings­landinu; eða
 3. að öðrum kosti, önnur skjöl sem færa sönnur á þetta.

Aftur upp

Ákvæði 13. gr. um upprunavörur sem sendar eru á sýningar í þriðja landi veitir undanþágu frá svæðisreglunni.  Samkvæmt ákvæðinu skulu upprunavörur, sem sendar eru frá samningsríki til sýningar í þriðja landi, njóta upprunaréttinda við sölu þeirra og innflutning til annars samningsríkis að því tilskildu að sýnt sé fram á eftirtalið:

 1. að útflytjandi hafi sent framleiðsluvörurnar frá einu samningsríkjanna til landsins þar sem sýningin er haldin og sýnt þær þar;
 2. að sá útflytjandi hafi selt vörurnar eða ráðstafað þeim til viðtakanda í öðru samnings­ríki.
 3. að vörurnar hafi verið sendar á meðan á sýningunni stóð eða strax eftir hana til síðarnefnda samningsríkisins í því ástandi sem þær voru í þegar þær voru sendar til sýningar; og
 4. að vörurnar hafi ekki frá því að þær voru sendar til sýningarinnar verið notaðar í öðru skyni en til sýningar þar.

Sönnun á uppruna skal gefin út eða útbúin í samræmi við ákvæði 5. kafla í bókun 4 og lögð fram hjá tollyfirvöldum í innflutningslandinu með venjulegum hætti.  Þar skal tilgreint heiti sýningar­innar og sýningarstaður.  Ef nauðsyn ber til má krefjast skjal­festra viðbótar­sönnunar­gagna um eðli fram­leiðsluvaranna og aðstæður við sýningu þeirra.

Ákvæðið 13. gr. tekur til allra vöru-, iðn-, landbúnaðar- eða handverkssýninga, kaup­stefna eða áþekkra opinberra sýninga, sem eru ekki skipulagðar í eiginhagsmunaskyni í sölu­búðum eða verslunarhúsnæði með það fyrir augum að selja erlendar vörur, enda sé varan undir tolleftirliti meðan á sýningu stendur.

Aftur upp

Aðrir fríverslunarsamningar

Samsvarandi regla um flutning vöru um þriðju lönd er í EFTA-samningunum ef frá eru taldir samningarnir við Marokkó og Ísrael.  Þriðju lönd eru skilgreind með sama hætti og í EES-samn­ingnum við beitingu svæðisreglunnar samkvæmt þeim.

Sama regla gildir samkvæmt EFTA-samningnum við Marokkó með þeirri undantekningu að ríkin sem teljast þriðju lönd m.t.t. samningsins eru öll önnur ríki en EFTA-ríkin, Marokkó og Túnis þegar við á sbr. 4. gr. viðauka B við samninginn.

Samkvæmt EFTA-samningnum við Ísrael er heimilt flytja framleiðsluvörur, sem mynda eina óskipta vörusendingu, á yfirráðasvæði þriðja lands til umfermingar eða bráðabirgða­birgða­geymslu ef ástæður af landfræðilegum toga mæla með því, að því tilskildu að vörurnar hafi verið undir eftirliti tollyfirvalda í landinu þar sem umflutningurinn eða geymslan átti sér stað og ekki hlotið aðra meðferð en affermingu, endurfermingu eða meðferð sem miðar að því að forða þeim frá skemmdum.  Þriðju lönd m.t.t. samningsins við Ísrael eru öll önnur ríki en EFTA-ríkin og Ísrael.  Það er ekki kveðið á um hvernig sannanir um að skilyrðum til flutnings um þriðju lönd eigi að vera úr garði gerðar í samningnum.

Þriðju lönd við beitingu svæðisreglunnar í samningnum við Færeyjar eru öll ríki nema Ísland og Færeyjar.  Að öðru leyti er reglan samhljóða reglunni í bókun 4 við EES-samn­inginn.

Aftur upp

- - - - - -

[1] Ríkin eru eftirtalin:

Ísland, Noregur, Sviss, Liechtenstein, Ítalía, Grikkland, Holland, Þýskaland, Frakkland, Spánn, Bretland, Austurríki, Svíþjóð, Finnland, Danmörk, Belgía, Lúxemborg, Írland, Portúgal, Búlgaría, Rúmenía, Ungverjaland, Slóvenía, Tékkland, Slóvakía, Pólland, Eistland, Lettland, Litháen og Tyrkland.
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir