6. kafli

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

6. kafli

 

6.1 Krafa um fríðindameðferð

6.2 Upprunasannanir

6.3 Almenn upprunavottorð

 

6.1 Krafa um fríðindameðferð

Þegar réttur til fríðindameðferðar fyrir innfluttar vörur er fyrir hendi ber innflytjanda að setja fram kröfu um fríðindameðferð á grundvelli viðeigandi fríverslunarsamnings í reit 33 á aðflutningsskýrslu. [1] Með því að nota viðeigandi tollskrárlykil, þegar merkt er í reit 33 á aðflutningsskýrslunni, vísar innflytjandi til þess fríverslunarsamnings sem við á. Í reit 14 á aðflutningsskýrslu skal jafnframt vísað til tegundar upprunasönnunar, þ.e. meðfylgjandi upprunayfirlýsingar á vörureikningi (liður 6.2.2.) eða númers meðfylgjandi EUR.1-flutningsskírteinis (liður 6.2.1.).

Komi ekki fram beiðni um fríðindameðferð er almennur tollur (A-tollur) lagður á vöruna. Þá er A-tollur lagður á innflutta vöru ef fullnægjandi upprunavottorð liggja ekki fyrir við tollafgreiðslu hennar.

6.2 Upprunasannanir

Upprunasannanir til stuðnings kröfu um fríðindameðferð fyrir innfluttar vörur á grundvelli fríverslunarsamninga sem Ísland á aðild að eru tvenns konar. Annars vegar koma til hin svonefndu EUR.1.-flutningsskírteini (liður 6.2.1.) og hins vegar gera samningarnir ráð fyrir að útflytjandi geti áritað vörureikning um uppruna vöru (liður 6.2.2.).

Í þessum kafla er vísað til ákvæða bókunar 4 við EES-samninginn. Sambærilegar reglur gilda samkvæmt öðrum fríverslunarsamningum ef annað er ekki tekið fram líkt og áður sagði.

Aftur upp 

 

6.2.1 EUR.1-flutningsskírteini – reglur um útgáfu þess

Tollyfirvöld í útflutningslandi gefa út EUR.1-flutningsskírteini samkvæmt umsókn útflytjanda eða fulltrúa hans á hans ábyrgð, sbr. 1. tl. 16. gr. bókunar 4 við EES-samninginn. Allir útflytjendur geta notað EUR.1-flutningsskírteinið að uppfylltum skilyrðum upprunareglnanna.

EUR.1-flutningsskírteinið er þriggja arka sett. Fyrsta örkin er sjálft flutningsskírteinið, önnur örkin er samrit ætlað útflytjanda og sú þriðja er umsókn um flutningsskírteini. Eyðublaðið, þ.e. flutningsskírteinið, samritið og umsóknin um flutningsskírteini, skal fyllt út af útflytjanda eða fulltrúa hans og afhent tollyfirvaldi til staðfestingar. Kjósi útflytjandi að handskrifa viðeigandi upplýsingar á eyðublöðin ber honum að nota blek og prentstafi, sbr. 2. tl. 16. gr. bókunar 4. Þegar reitir flutningsskírteinisins er ekki fylltir út að öllu leyti skal lína dregin skáhalt yfir auða svæðið sem eftir stendur. Um form EUR.1-flutningsskírteinis að öðru leyti og leiðbeiningar við útfyllingu þess er vísað til Viðauka I.

Sá sem sækir um EUR.1-flutningsskíteini skuldbindur sig til þess að láta tollyfirvöldum í té, hvenær sem nauðsyn krefur, öll nauðsynleg gögn til sönnunar uppruna vöru, sbr. 3. tl. 16. gr. bókunar 4.

Staðfesting EUR.1-flutningsskírteinis fæst hjá tollyfirvaldi á öllum tollafgreiðslustöðum þar sem útflutningstollafgreiðsla fer fram. Tollyfirvaldi ber að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að sannreyna uppruna vöru og hefur í því augnamiði rétt til þess að kalla eftir öllum þeim gögnum og láta framkvæma þær rannsóknir á bókhaldi útflytjanda sem nauðsynlegar eru til þess að tryggja að skilyrðum upprunareglnanna sé fullnægt, sbr. 5. tl. 16. gr. bókunar 4. Tollyfirvald staðfestir flutningsskírteinið með áritun sinni í reit 11 á skírteininu, sbr. 6. tl. sömu greinar. Tollyfirvald heldur umsókninni eftir til varðveislu.

Útflytjandi sendir innflytjanda hið staðfesta flutningsskírteini og hann framvísar því við viðkomandi tollyfirvald við tollafgreiðslu vörunnar.

EUR.1-flutningsskírteini kemur ekki í stað annarra útflutningsskjala, t.d. útflutningsskýrslu vegna útflutnings vöru eða ýmissa leyfa, ef lög kveða á um að þau séu lögð fram.

Aðrir fríverslunarsamningar

Samsvarandi reglur um EUR.1-flutningsskírteini eru sett fram í EFTA-sáttmálanum og EFTA-samningunum. Ákvæði EFTA-samningsins við Ísrael eru þó sett fram með öðrum hætti en samsvarandi ákvæði í hinum samningunum. LT-skírteini.

Aftur upp 

 

6.2.2 Yfirlýsing útflytjanda á vörureikningi um uppruna vöru

Ákvæði fríverslunarsamninga gera einnig ráð fyrir að útflytjendur geti veitt sönnun um uppruna vöru með áritun upprunayfirlýsingar á vörureikning að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ákvæðin um áritun upprunayfirlýsingar á vörureikning veita útflytjanda færi á að gefa sjálfur út sönnun um uppruna framleiðsluvöru án atbeina og staðfestingar tollyfirvalds líkt og gildir um útgáfu EUR.1-flutningsskírteina.

Áritanir á vörureikning eru heimilar í tveimur tilvikum. Annars vegar mega allir gefa yfirlýsingu um uppruna vöru á vörureikningi ef verðmæti upprunavara í vörusendingu er ekki meira en sem nemur 6000 EUR (liður 6.2.2.1). Hins vegar geta útflytjendur sótt um viðurkenningu Skattsins til þess að veita yfirlýsingu um uppruna vara með áritun á vörureikning án tillits til verðmætis þeirra (liður 6.2.2.2.).

Sjá einnig verðmætamörk í fleiri gjaldmiðlum 

Aftur upp 

 

6.2.2.1 Almenn heimild til áritunar vörureiknings um uppruna vöru

Allir útflytjendur geta gefið yfirlýsingu á vörureikningi um uppruna vöru þegar í vörusendingu eru upprunavörur að verðmæti 6.000 EUR eða minna, sbr. b-lið 1. tl. 20. gr. bókunar 4 við EES-samninginn.

Miða skal við FOB-verð upprunavara í vörusendingu. Aðrar vörur en upprunavörur mega jafnframt vera í vörusendingu og því kann verðmæti vörusendingarinnar að vera hærra en verðmætismörk reikningsyfirlýsingar. Í þeim tilvikum ber að auðkenna greinilega þær vörur í sendingunni sem ekki eru upprunavörur. Tilvísun í vörur sem ekki falla undir yfirlýsingu á vörureikningi á þó ekki að setja fram í yfirlýsingunni sjálfri, sjá dæmi um áritun vörureiknings í viðauka II.

Við umbreytingu 6.000 ECU yfir í aðra gjaldmiðla er miðað við gengið eins og það var á fyrsta vinnudegi októbermánaðar 1999, sbr. töflu í viðauka III.

Aðrir fríverslunarsamningar

Samkvæmt EFTA-samningnum við Ísrael mega allir gefa yfirlýsingu á vörureikningi um uppruna vöru þegar í vörusendingu eru upprunavörur að verðmæti 2820 reiknieiningar eða minna. Samkvæmt viðauka 6 við upprunareglurnar í bókun B við samninginn jafngilda 2820 reiknieiningar 510.000 íslenskum krónum, 50.000 norskum krónum, 10.300 svissneskum frönkum og 23.269 ísraelskum shekel.

Í samningi Íslands við Færeyjar er miðað við 5.110 ECU, sbr. 21. gr. 3. viðauka við samninginn.

Aftur upp 

 

6.2.2.2 Áritun viðurkennds útflytjanda um uppruna vöru á vörureikningi

Viðurkenndur útflytjandi má gefa út yfirlýsingu á vörureikningi vegna allra sendinga án tillits til verðmætis þeirra, sbr. 22. gr. og a-lið 1. tl. 21. gr. bókunar 4 við EES-samninginn og samsvarandi ákvæði annarra fríverslunarsamninga.

Útflytjendur geta sótt um viðurkenningu á þar til gerðu eyðublaði til Skatsins til þess að gefa út yfirlýsingu um uppruna vöru á vörureikningi, óháð verðmæti hennar. Eyðublaðið má nálgast hér. Umsóknin skal sendast á: Skatturinn, Lögfræðideild tollasviðs, Tryggvagötu 19, 101 Reykjavík. Við útfyllingu umsóknareyðublaðs er nauðsynlegt að allir dálkar sem við eiga séu fylltir út og að nauðsynleg gögn fylgi umsókninni. 

Skatturinn getur heimilað þeim, sem setja fullnægjandi tryggingar fyrir uppruna framleiðsluvöru og stunda tíðar sendingar á framleiðsluvörum til útflutnings, að árita vörureikning um uppruna vörunnar. Með tíðum sendingum er átt við að umsækjandi flytji út a.m.k. 24 sendingar á ári að meðaltali með upprunavörum. Það er jafnframt skilyrði að þeir þekki vel til upprunareglna fríverslunarsamninga og að þeir hafi lága villutíðni í tölvukerfi embættisins. Viðurkenndur útflytjandi tekst þá skyldu á herðar að viðhalda þekkingu sinni á ákvæðum fríverslunarsamninga og þá einkum upprunareglunum og fara eftir ákvæðum þeirra í hvívetna.

Heimild til áritunar er veitt til fimm ára í senn, að þeim tíma loknum ber aðila að sækja um heimild að nýju til Skattsins.

Í undantekningartilvikum er hægt að veita öðrum en þeim sem uppfylla skilyrði um fjölda sendinga heimild til áritunar vörureiknings um uppruna vöru uppfylli aðili önnur skilyrði um veitingu leyfis. Í slíkum tilvikum er heimild veitt til eins árs í senn og umsókn tekin til endurskoðunar að því tímabili loknu. Sé fengin reynsla af útflytjanda jákvæð að reynslutímabili loknu skal varanleg heimild gefin út.

Það er áskilið að viðurkenndur útflytjandi gegni upplýsingaskyldu í samræmi við fyrirmæli 24. gr., sbr. 149. gr., tollalaga nr. 55/1987 og leggi fram þau gögn og veiti þær upplýsingar, sem tollyfirvald telur nauðsynlegar til að staðreyna réttmæti upprunayfirlýsinga hvenær sem nauðsyn krefur, sbr. einnig 3. tl. 20. gr. bókunar 4 við EES-samninginn.

Við leyfisveitingu er útflytjanda úthlutað leyfisnúmeri sem honum ber að tilgreina í yfirlýsingu á vörureikningi, sbr. 3. tl. 21. gr. bókunarinnar.

Það kann að varða fyrirvaralausri afturköllun leyfisins, ef misfarið er með það eða ef framangreindum skilyrðum fyrir leyfisveitingunni er ekki lengur fullnægt, sbr. 5. tl. 21. gr. bókunarinnar. Jafnframt getur misnotkun leyfisins varðað refsiábyrgð, sbr. m.a. 4. mgr. 126. gr. tollalaga.

Aftur upp 

 

6.2.2.3 Form og efni upprunayfirlýsingar á vörureikningi

Form áritunar

Upprunayfirlýsing á vörureikningi er gefin út með því að vélrita, stimpla eða prenta yfirlýsinguna, sem fram í kemur í IV. viðbæti við bókun 4 við EES-samninginn, á einhverju þeirra tungumála sem þar eru tilgreind, á vörureikninginn, afhendingarseðilinn eða annað viðskiptaskjal, sjá viðauka II. Það má einnig rita yfirlýsingu eigin hendi, með bleki og prentstöfum, sbr. 4. tl. 20. gr. bókunar 4 við EES-samninginn. Yfirlýsing um uppruna má vera á bakhlið vörureiknings.

Um leiðréttingu á texta yfirlýsingarinnar gilda reglur um leiðréttingu á EUR.1-flutningsskírteinum. Allar leiðréttingarnar skulu staðfestar af útflytjanda.

Útflytjanda ber að staðfesta upprunayfirlýsingu á vörureikningi með eiginhandarundirskrift. Þess skal þó ekki krafist af viðurkenndum útflytjanda hafi hann veitt tollyfirvaldi skriflega skuldbindingu þess efnis að hann taki fulla ábyrgð á sérhverri yfirlýsingu á vörureikningi, sem auðkennd er með tilvísun í leyfisnúmer hans, á sama hátt og hefði hann undirritað hana eigin hendi, sbr. 5. tl. 20. gr. bókunar 4.

Texti upprunayfirlýsingar

Texti yfirlýsingar á vörureikningi við útflutning vöru, sem framleidd er hér á landi og uppfyllir skilyrði fríverslunarsamninga um íslenskan uppruna, er breytilegur annars vegar í viðauka IV við Bókun 3 við tvíhliða samning Íslands og Evrópubandalagsins frá 1972 og í viðaukum við EFTA-samninginn og fríverslunarsamninga EFTA ríkjanna við Búlgaríu, Eistland, Ísrael, Lettland, Litháen, Pólland, Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu, Tékkland, Tyrkland og Ungverjaland og hins vegar í viðauka IV við bókun 4 við EES-samninginn. Í hinum fyrrnefndu tilvikum skal tekið fram að vara sé af íslenskum fríðindauppruna en í hinu síðarnefnda tilviki er vara sögð af EES-fríðindauppruna. Gæta skal þess að rita textann orðrétt á vörureikninginn.
Dæmi um áritun vörureiknings á ensku:

1. Þegar leitað er eftir fríðindameðferð á grundvelli samningsins á milli Íslands og Evrópubandalagsins frá 1972 er rétt áritun þessi: "The exporter of the products covered by this document (customs authorization No. ..........)[2] declares that, except where otherwise clearly indicated, these products are of Icelandic preferential origin."

2. Þegar rétturinn til fríðindameðferðar er byggður á fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna við ríki Mið- og Austur Evrópu er áritunin sú sama og þegar byggt er á samningnum á milli Íslands og Evrópubandalagsins frá 1972, sjá lið 1, ef frá er talin yfirlýsing á vörureikningi sem fram kemur í fríverslunarsamningi EFTA ríkjanna við Ísrael en hún er svohljóðandi: "I the undersigned exporter of the goods covered by this document declare that except where otherwise clearly indicated the goods meet the conditions required to obtain originating status in preferential trade with Israel and that the country of origin of the goods is Iceland."

3. Þegar rétturinn til fríðindameðferðar er byggður á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er rétt áritun eftirfarandi: "The exporter of the products covered by this document (customs authorization No. .......) declares that, except where otherwise clearly indicated, these products are of EEA preferential origin."

Í viðauka II eru upplýsingar um orðalag áritunar á vörureikning á fleiri tungumálum.

Aftur upp 

 

6.2.3 Fríðindameðferð án upprunasönnunar

Samkvæmt 25. gr. bókunar 4 við EES-samninginn skulu eftirtaldar framleiðsluvörur taldar upprunavörur án þess að framvísa þurfi formlegri upprunasönnun, að því tilskildu að vörurnar hafi ekki verið fluttar inn á viðskiptagrundvelli og gefin hafi verið yfirlýsing um að vörurnar uppfylli kröfur bókunarinnar og enginn vafi leiki á um sannleiksgildi hennar:

1. Framleiðsluvörur, sem sendar eru í smábögglum frá einstaklingi til einstaklings, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en 500 EUR.

2. Framleiðsluvörur, sem eru í einkafarangri ferðamanna, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en 1.200 EUR.

Ef framleiðsluvörurnar eru sendar í pósti má gefa yfirlýsinguna á C2/CP3-tollseðli eða á blaði sem er fest við tollseðilinn.

Aðrir fríverslunarsamningar

Önnur verðmætismörk gilda samkvæmt EFTA-samningnum við Ísrael. Framleiðsluvörur, sem sendar eru í smábögglum frá einstaklingi til einstaklings, mega verða að verðmæti 200 reikningseiningar sem jafngilda 43.000 íslenskum krónum, 4.100 norskum krónum, 900 svissneskum frönkum eða 1.939 ísraelskum shekelum. Framleiðsluvörur í einkafarangri ferðamanna mega vera að verðmæti 565 reikningseiningar sem jafngilda 100.000 íslenskum krónum, 10.000 norskum krónum, 2.100 svissneskum frönkum og 4.654 ísraelskum shekelum.

Samkvæmt samningi Íslands við Færeyjar mega framleiðsluvörur, sem sendar eru í smábögglum frá einstaklingi til einstaklings, vera að verðmæti 365 ECU. Framleiðsluvörur í einkafarangri mega vera að verðmæti allt að 1.025 ECU.

Aftur upp 

 

6.2.4 Gildistími sönnunar á uppruna

Samkvæmt 1. tl. 22. gr. bókun 4 við EES-samninginn gildir sönnun á uppruna í 4 mánuði frá útgáfu hennar í útflutningslandinu og það er áskilið að hún sé lögð fram innan þess tíma hjá tollyfirvöldum í innflutningslandinu. EUR.1-flutningsskírteini gildir í 4 mánuði talið frá staðfestingardegi tollyfirvalds sem fram kemur í reit 11 á skírteininu. Sama gildir um flutningsskírteini sem er "ÚTGEFIÐ EFTIR Á", sjá lið 6.2.5. Flutningsskírteini sem gefið er út sem "EFTIRIT", sjá 6.2.6, gildir í 4 mánuði talið frá útgáfudagsetningu upphaflega skírteinisins.

Sama regla gildir um áritun á vörureikningi, þ.e. yfirlýsingin gildir í 4 mánuði frá dagsetningu áritunarinnar.

Þrátt fyrir ofangreinda meginreglu um að upprunasönnun skuli lögð fram innan 4 mánaða frestsins er heimilt að taka við EUR.1-flutningsskírteini eða upprunayfirlýsingu á vörureikningi, sem lögð er fram hjá tollyfirvaldi í innflutningslandinu, eftir að 4 mánaða fresturinn er útrunninn, hafi umrædd skjöl ekki verið lögð fram fyrir lok frestsins vegna óviðráðanlegra eða sérstakra aðstæðna, sbr. 2. tl. 22. gr. bókunar 4.

Í öðrum tilvikum, þegar skjöl eru lögð fram of seint, getur tollyfirvald í innflutningslandinu tekið við EUR.1-flutningsskírteini eða upprunayfirlýsingu á vörureikningi ef framleiðsluvörunum hefur verið framvísað við þau fyrir lok frestsins, sbr. 3. tl. 22. gr. bókunar 4.

Aftur upp 

 

6.2.5 EUR.1-flutningsskírteini “ÚTGEFIÐ EFTIR Á”

Í undantekningartilvikum er heimilt að gefa EUR.1.-flutningsskírteini út eftir að útflutningur upprunavöru hefur átt sér stað, að því tilskildu að:

1. flutningsskírteinið hafi ekki verið gefið út á tilskildum tíma vegna mistaka eða yfirsjóna eða sérstakra kringumstæðna; eða

2. sýnt sé fram á það með fullnægjandi hætti, að mati tollyfirvalda, að flutningsskírteinið hafi verið gefið út en skírteinið hafi ekki verið viðurkennt af tæknilegum ástæðum.

Upplýsingar um hvar og hvenær útflutningur upprunavöru átti sér stað og ástæður fyrir beiðninni skulu koma fram í umsókn um útgáfu flutningsskírteinis eftir á, sbr. 2. tl. 17. gr. bókunar 4 við EES-samninginn. Tollyfirvöldum er aðeins heimilt að gefa út EUR.1.-flutningsskírteini eftir á þegar gengið hefur verið úr skugga um að upplýsingarnar sem fram koma í umsókn útflytjanda séu samhljóða þeim sem viðkomandi gögn hafa að geyma, sbr. 3. tl. 17. gr. bókunarinnar. EUR.1.-flutningsskírteini, sem eru gefin út eftir á, skulu árituð í athugasemdarreit á skírteininu með setningunni “ÚTGEFIÐ EFTIR Á” á einu tungumálanna sem um getur í ákvæði 4. tl. 17. bókunarinnar, sbr. 5. tl. bókunarinnar.

Aftur upp 

 

6.2.6 EUR.1-flutningsskírteini, sem gefið er út sem “EFTIRRIT”

Hafi EUR.1-flutningsskírteini verið stolið, það glatast eða eyðilagst getur útflytjandinn sótt um það að fá eftirrit gert af því á grundvelli útflutningsgagna í vörslu tollyfirvalda, sbr. 1. tl. 18. gr. bókunar 4 við EES-samninginn. Umsókn um gerð eftirrits skal beint til tollyfirvalds sem gaf upphaflega flutningsskírteinið út. Endurrit af EUR.1-flutningsskírteinum skulu árituð, í athugasemdarreit, með orðinu “EFTIRRIT” á einu tungumálanna sem um getur í ákvæði 2. tl. 18. gr. bókunar 4. Eftirritið skal vera með sömu útgáfudagsetningu og upphaflega EUR.1.-flutningsskírteinið og gilda frá og með þeim degi, sbr. 4. tl. 18. gr. bókunarinnar.

 

6.2.7 Ábyrgð á útgáfu upprunasannana

Útflytjandi, sem sækir um EUR 1.-flutningsskírteini eða áritar vörureikning um uppruna vöru, ber ábyrgð á því að upplýsingar, sem veittar eru í skírteininu eða á vörureikningnum, séu réttar og hann lýsir því yfir að skilyrði upprunareglnanna, sem gilda um útflutningsvöruna, séu uppfyllt, sbr. 1. tl. 16. gr. bókunar 4 og orðalag upprunayfirlýsingarinnar í viðauka IV við bókun 4. Útflytjandi skuldbindur sig jafnframt til þess að varðveita sönnunargögn um upprunavöru, s.s. upprunasannanir vegna efnivöru og yfirlýsingar birgis vegna aðvinnslu sem þegar hefur farið fram á EES-svæðinu, og leggja þau fram ef þess verður krafist af tollyfirvöldum, sbr. 3. tl. 16. gr. og 3. tl. 20. gr. bókunar 4.

Staðfesting tollyfirvalds á EUR.1-flutningsskírteini er byggð á upplýsingunum sem koma fram í umsókninni um skírteinið og fylgigögnum. Hún hefur ekki áhrif á ábyrgð útflytjanda samkvæmt ofansögðu.

Aftur upp 

 

6.2.8 Staðfestingarskjöl með upprunasönnunum

Í 27. gr. bókunar 4 við EES-samninginn eru talin mikilvægustu staðfestingarskjölin. Talningin er ekki tæmandi.

1. Bókhaldsgögn sem veita réttar upplýsingar um framleiðsluferli, verð o.fl., sbr. a-lið 27. gr.

2. Yfirlýsing framleiðanda upprunavöru, sem notuð er sem efnivara til framleiðslu annarrar upprunavöru hjá sama samningsaðila, sbr. b-lið 27. gr.

3. Yfirlýsing birgis á EES-svæðinu til staðfestingar á þeirri aðvinnslu sem varan hlaut hjá honum. Það er heimilt að taka tillit til verðmætis aðvinnslu sem þegar hefur farið fram á EES-svæðinu samkvæmt aðvinnslureglunum þrátt fyrir að aðvinnslan hafi ekki verið nægileg til þess að veita vörunni EES-uppruna, sbr. umfjöllun um altæka uppsöfnun uppruna í lið 4.3.3. Þeir sem byggja á reglunni þurfa að gæta þess vel að afla nefndra yfirlýsinga birgja vegna efnivöru sem hefur hotið einhverja aðvinnslu á EES-svæðinu, sbr. c- og e-lið 27. gr.

4. Upprunavottorð, EUR.1-flutningsskírteini eða yfirlýsing á vörureikningi vegna innfluttra upprunaefna. Almennt er fullnægjandi að útflytjandi vísi til afgreiðslunúmers aðflutningskýrslu vegna efnivöru, sem fékk fríðindameðferð við innflutning til Íslands, sbr. d-lið 27. gr.

5. Viðeigandi sannanir um að skilyrðum 11. gr. bókunarinnar hafi verið fullnægt þegar unnið hefur verið að vörunni utan EES-svæðisins, sbr. f-lið 27. gr.

Ef ekki unnt að sanna uppruna efnivara með viðeigandi staðfestingarskjölum teljast þær þriðja lands efnivörur við beitingu uppruna- og aðvinnslureglnanna.

 

6.2.8 Varðveisla upprunasannana og staðfestingarskjala

Í 28. gr. bókunar 4 við EES-samninginn er mælt fyrir um að útflytjendur og birgjar skuli varðveita staðfestingarskjöl í a.m.k. þrjú ár. Staðfestingarskjöl sem eiga undir lög um bókhald skulu þó varðveitt í 7 ár frá lokum viðkomandi reikningsárs, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald.

Aftur upp 

 

6.2.9 Sannprófun – endurskoðun eftir á

Í 32. og 33. gr bókunar 4 við EES-samninginn er mælt fyrir um heimildir tollyfirvalda til þess að kanna eftir á, í þeim tilvikum þegar tollyfirvöld hafa réttmæta ástæðu til þess að draga framlagðar upplýsingar í efa eða með slembiathugun, sannleiksgildi EUR.1-flutningsskírteinis eða yfirlýsingar um uppruna á vörureikningi.

Sannprófun eftir á getur farið fram að beiðni tollyfirvalda hvort sem er í innflutningslandinu eða útflutningslandinu. Í bókuninni er gert ráð fyrir gagnkvæmri aðstoð samningsaðila við athugun á áreiðanleika upprunasannana og gagna sem þær eiga með réttu byggja á, sbr. 31. gr. bókunar 4.

Þeir sem gefa út upprunasannanir vegna framleiðsluvöru eða efnivöru, birgjar og aðrir sem gefa yfirlýsingar vegna uppruna vöru, skulu láta tollyfirvöldum í té allar upplýsingar sem þýðingu hafa fyrir endurskoðunina, sbr. 3. tl. 32. gr. og 3. tl 33. gr. bókunar 4. Skyldan til þess að láta tollyfirvöldum í té upplýsingar um atriði sem hafa þýðingu vegna endurskoðunar eftir á er einnig sett fram í 24. gr. og 6. mgr. 122. gr. tollalaga. Í 6. mgr. 122. gr. er jafnframt mælt fyrir um að tollyfirvald geti eftir atvikum látið rannsaka atvinnuhúsnæði, reikningshald og bréfaviðskipti nefndra aðila.

Komi í ljós við endurskoðun tollyfirvalda eftir á að upprunasannanir eða skjöl, sem liggja þeim til grundvallar, eru röng í einhverjum atriðum er tollyfirvöldum í innflutningsríkinu tilkynnt um niðurstöðu endurskoðunarinnar hvort sem endurskoðunin var gerð að frumkvæði tollyfirvalda í inn- eða útflutningsríkinu.

Skatturinn annast samskipti við erlend tollyfirvöld vegna sannprófunar á uppruna vöru.

Aftur upp 

 

 

6.2.10 Viðurlög

Það varðar sektum, svo og fangelsi í allt að tveimur árum ef miklar sakir eru, að láta í té eða valda því að látin eru í té skjöl eða vottorð sem eru röng í mikilvægum atriðum um uppruna íslenskrar útflutningsvöru í því augnamiði að varan njóti fríðindameðferðar við innflutning hennar til annars samningsríkis, sbr. 4. mgr. 126. gr. tollalaga.

Samkvæmt 35. gr. bókunar 4 skal hver sá sæta viðurlögum, sem gefur út eða veldur því að gefið er út skjal með röngum upplýsingum í því skyni að afla sér fríðindameðferðar fyrir framleiðsluvörur.

Þá getur varðað sömu viðurlögum samkvæmt 3. mgr.126 gr. laganna að gefa rangar eða villandi yfirlýsingar eða leggja fram röng eða villandi skjöl til þess að njóta fríðindameðferðar vegna innflutnings til Íslands.

Aftur upp 

6.3 Almenn upprunavottorð

Auk þeirra upprunareglna sem ríki og ríkjasambönd hafa samið um í fríverslunarviðskiptum sín á milli hafa einstök lönd sett þau skilyrði fyrir innflutningi á vörum frá öðrum löndum að lagt sé fram við tollafgreiðslu vottorð um uppruna þeirra (Certificate of Origin). Þessi upprunavottorð, sem ekki tengjast fríðindameðferð vöru, eru m.a. notuð til sönnunar vegna útgáfu á innflutningsleyfi eða innflutningskvóta samkvæmt sérstökum reglum sem kunna að gilda um vörurnar í innflutningslandinu.

Á Íslandi hafa ekki verið settar neinar almennar reglur um það hvenær vara telst upprunnin hér á landi og verða því ekki neinar skýrar leiðbeiningarreglur settar fram hér um það efni. Almennt má þó segja að íslenskar framleiðsluvörur teljist allar vörur, sem að öllu leyti er fengnar hér á landi eins og innlend jarðefni, innlendur sjávarafli og innlendar landbúnaðarafurðir svo og vörur unnar úr þeim ásamt iðnaðarvörum sem fengið hafa meiri aðvinnslu en pökkun eða meðferð til að forða þeim frá skemmdum.

Til þess að koma til móts við kröfur erlendra tollyfirvalda um almennt upprunavottorð vegna útflutnings á íslenskum vörum eða innfluttum vörum hefur embættið látið útbúa sérstakt eyðublað til staðfestingar á uppruna útflutningsvara. Um úfyllingu þess er vísað til þess sem segir hér að framan um útfyllingu EUR.1-flutningsskírteinisins.

- - - - - -

[1] Sjá nánar í bæklingi um tollskýrslugerð við innflutning, útgefinn af ríkistollstjóra í október 1998 .

[2] Leyfisnúmer viðurkenndra útflytjenda.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir