Formáli

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Formáli

Upprunareglur og upprunasannanir

Tilgangurinn með fríverslunarsamningum er sá að víkja frá almennum reglum um innheimtu tolla og annarra aðflutningsgjalda í vöruviðskiptum milli ríkja með því að fella niður tolla eða lækka þá og/eða með því að afnema eða takmarka aðrar hindranir í viðskiptum aðildarríkjanna með vörur sem samningarnir eru gerðir um.

Það er iðulega áskilið í frí­verslunar­samningum að vara sé að öllu leyti fen­gin í aðildar­ríkjunum eða hljóti þar full­nægjandi að­vinnslu eigi hún að öðlast rétt til fríðinda­með­ferðar samkvæmt þeim.  Upprunareglurnar kveða á um skil­yrði þess að vara, sem á undir frí­verslunar­samning, teljist upp­runa­vara og eru því nauðsynlegar til þess að unnt sé að greina vörur, sem falla undir frí­verslunar­samningana og njóta fríðinda­með­ferðar frá öðrum vörum sem ekki fá notið fríðindameðferðar, hinum svonefndu þriðja lands vörum.

Innflytjandi vöru, sem upp­fyllir skil­yrði upp­runa­reglna við­­eigandi frí­verslunar­samnings, þarf að leggja fram upp­runa­sönnun í inn­flutnings­landinu til stuðnings kröfu um fríðinda­meðferð vörunnar.

Framsetning þessa efnis

Í upphafi er vikið almennum orðum að fríverslunarsamningum og fríðinda­­meðferð vöru á grund­velli þeirra og nokkrum hugtökum sem koma oft við sögu þegar fjallað er um fríverslunar­samninga (sjá 1. kafla).  Á þessum síðum er gerð almenn grein fyrir fríverslunarsamningum sem Ísland á aðild að.  Megináherslan er þó lögð á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, EES-samninginn.  Að öðru leyti er upp­byggingu efnisins hagað á þann veg að leitað er svara við spurningum sem jafnan vakna þegar ákveða skal hvort vara njóti réttar til fríðinda­með­ferðar samkvæmt frí­verslunar­samningum Ís­lands við önnur ríki, þ.á.m. þessum spurningum:

  1. Hvert á að flytja vöruna?  Hefur Ísland gert frí­verslunar­samning við við­komandi ríki?  Hvaða ríki eru aðilar að hverjum samningi fyrir sig? (sjá 2. kafla). 
  2. Ef fríverslunarsamningur er fyrir hendi, fellur varan þá undir samninginn, þ.e. var samið um að varan sem um er rætt geti notið fríðinda­með­ferðar? (sjá 3. kafla).
  3. Ef varan fellur undir tiltekinn fríverslunarsamning, hvaða skil­yrði þurfa að vera upp­fyllt til þess að vara öðlist rétt til fríðinda­með­ferðar samkvæmt samningnum, þ.e. er varan upp­runa­vara með til­liti til upprunareglna viðeigandi frí­verslunar­samnings?  Hvað er marg­hliða upp­söfnun upp­runa?  Hvernig á að nota aðvinnsluskrárnar? (sjá 4. kafla).
  4. Hvaða reglur gilda um flutning vörunnar frá upp­runa­landinu til áfanga­staðar? (sjá 5. kafla).
  5. Hvaða reglur gilda um sönnun upp­runa? (sjá 6. kafla).
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir