Áhafnir
Þeir sem eru í áhöfn aðkomufars skulu gera grein fyrir varningi á sérstöku eyðublaði, hvort sem flytja á hann í land eða nota hann um borð í fari, og jafnframt framvísa vörum sem eru háðar innflutningstakmörkunum eða innflutningsbanni.
Tollgæslu er heimilt að taka farangur farþega og áhafnar í sínar vörslur til skoðunar síðar ef þurfa þykir. Getur eigandi krafist þess að farangurinn verði innsiglaður þar til skoðun fer fram þar sem hann á rétt á að vera viðstaddur skoðunina. Enn fremur skal tollgæsla gefa út fullnægjandi kvittun ef hann óskar þess.
Verslun / Tollfríðindi
Varningur sem skipverjar og flugverjar, búsettir hér á landi, hafa meðferðis hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun að verðmæti:
- Allt að 32.500 kr., miðað við smásöluverð á innkaupsstað, hafi þeir verið skemur en 15 daga í ferð,
- Allt að 65.000 kr., hafi þeir verið lengur í ferð.
- Verðmæti einstaks hlutar skal þó að hámarki vera 32.500 kr.
Skipverjum og flugverjum, búsettum erlendis, er heimilt að flytja inn tollfrjálst ferðabúnað og annan farangur sem er hæfilegur miðað við tilgang ferðar og dvalartíma viðkomandi hér á landi, enda verði hann fluttur úr landi á ný við brottför eiganda.
Skipverjar á íslenskum skipum eða skipum í leigu íslenskra aðila
Skipverjum er heimilt að taka 11 einingar af áfengi eins og skilgreint er hér neðar á síðunni hafi skipverji verið 15 daga eða lengur í ferð. Hafi ferðin verið skemur en 15 dagar er skipverjum heimilt að taka 6 einingar.
Skipstjóra, yfirstýrimanni, yfirvélstjóra og bryta, svo og matsveinum á farþega- og vöruflutningaskipum, er jafnframt heimilt að taka gjaldfrjálst aukalega til risnu um borð jafnstóran skammt og þeir mega hafa gjaldfrjálst samkvæmt þessum lið.
Flugverjar, þ.m.t. flugverjar í aukaáhöfn
Flugverjum sem hafa verið 15 daga eða lengur í ferð er heimilt að taka 5 einingar skv. ofangreindum viðmiðum. Hafi ferðin varað skemur en 15 daga er þeim heimilt að taka 3 einingar.
Taflan sýnir lítrafjölda og einingar eftir tegundum áfengis
Einingafjöldi | 1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Sterkt | 0,25 | 0,5 | 0,75 | 1 | 1,25 | 1,5 | 1,75 | 2 | 2,25 | 2,5 | 2,75 |
Létt | 0,75 | 1,5 | 2,25 | 3 | 3,75 | 4,5 | 5,25 | 6 | 6,75 | 7,5 | 8,25 |
Bjór | 3 | 6 | 9 | 12 | 15 | 18 | 21 | 24 | 27 | 30 | 33 |
Gosvín undir 6% | 3 | 6 | 9 | 12 | 15 | 18 | 21 | 24 | 27 | 30 | 33 |
Með einingu er átt við:
- Hverja 0,25 lítra af sterku áfengi, þ.e. áfengi sem í er meira en 21% af vínanda af rúmmáli.
- Hverja 0,75 lítra af léttvíni, þ.e. áfengi annað en öl sem í er 21% eða minna af vínanda að rúmmáli.
- Hverja 3 lítra af öli sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr.
- Hverja 3 lítra af gosvíni, gerjaðri drykkjarvöru eða blöndu gerjaðra drykkjarvara og óáfengra drykkja sem flokkast undir vöruliði 2208 og 2206 enda sé varan að hámarki 6% að styrkleika.