AEO og SAFE

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

AEO og SAFE

1.0      Alþjóðlega vörukeðjan; ógnanir og öryggi

Vörukeðjan

Alþjóðlega vörukeðjan (einnig nefnd aðfangakeðjan og flutningskeðjan, á ensku supply chain) er allt sem með einum eða öðrum hætti varðar flutning vara yfir landamæri; frá upphafsstað, t.d. framleiðanda eða birgja, til endanlegs áfangastaðar, t.d. kaupanda. Allt kerfið sem varðar þetta ferli; vörurnar, aðilana sem að því koma, tæknina og tækjakostinn sem notaður er, gögnin og upplýsingarnar varðandi ferlið og flutninginn og geymslu vörunnar í ferlinu.

Alþjóðlega vörukeðjan samanstendur af ótal einstökum vörukeðjum sem hver um sig varðar viðskipti milli tiltekinna aðila.

Með vörukeðju er í þessari samantekt bæði átt við alþjóðlegu vörukeðjuna og einstakar vörukeðjur.

Ógnanir og öryggi

Vörumagnið í alþjóðlegu vörukeðjunni er gríðarlegt. Viðskiptin margbreytileg og oft flókin. Nútímasamfélög eru algerlega háð því að vöruflæðið sé hnökralaust. Bregðast þarf við ógnunum sem geta haft skaðleg áhrif á öryggi vörukeðjunnar.

Með öryggisráðstöfunum er leitast við að vernda vörurnar sjálfar og allt sem lýtur að vörukeðjunni, svo sem starfsaðstöðu aðila sem koma að vörukeðjunni, flutningatæki, upplýsingar og gögn, og ýmis öryggissjónarmið lúta að starfsmönnum viðkomandi fyrirtækja.

Markmiðið er að koma í veg fyrir hugsanlegt tjón er lýtur að vörukeðjunni og að koma í veg fyrir að vörukeðjan sé notuð í ólögmætum tilgangi, t.d. við smygl eða annan ólöglegan flutning, hvort heldur sem er á fólki eða ólöglegum varningi eða varningi sem um gilda sérstakar takmarkanir.

Jafnvel getur þurft að koma í veg fyrir að flutningatækin sjálf séu notuð sem vopn, eins og alvarleg dæmi eru um.

Hryðjuverkaógn aflvaki öryggisráðstafana til að treysta vörukeðjuna

Reynslan sýnir að í kjölfar alvarlegra hryðjuverka hafa öryggismál tengd millilandaflutningi vöru og fólks oft verið sett í brennidepil.

Nærtækt dæmi um þetta eru hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001 sem urðu til þess að bandarísk stjórnvöld gripu þegar til gríðarlegra öryggisráðstafana. Allt flug yfir Bandaríkjunum var stöðvað umsvifalaust, flugvöllum og höfnum lokað og eftirlit stórhert á landamærum við Kanada og Mexíkó.

Ýmsar aðrar ógnir geta steðjað að vörukeðjunni og haft skaðleg áhrif, bæði á viðkomandi fyrirtæki og heilu samfélögin.

Alþjóðatollastofnunin hefur lagt áherslu á að tollyfirvöld eigi að hafa mikilvægt hlutverk í að vernda vörukeðjuna.

WCO, ESB og tollyfirvöld fjölmargra landa leggja áherslu á tvíþætt markmið sem hugmyndir um AEO byggja á. Annars vegar að tryggja öryggi vörukeðjunnar og hins vegar að greiða fyrir löglegum viðskiptum.

Fjölmörg öryggiskerfi eiga að stuðla að öryggi vörukeðjunnar, en sem dæmi má nefna:

 • SAFE-rammaregluverk WCO (2005);
 • AEO-áætlun ESB (2008) sem byggir aðallega á SAFE;

Bæði SAFE og AEO-áætlun ESB taka á innflutningi, útflutningi og umflutningi og til hvers kyns  flutningsmáta, þ.e. til flutninga í lofti, á láði eða legi.

 • C-TPAT-áætlun Bandaríkjanna („Customs-Trade Partnership Against Terrorism") frá nóvember 2001 sem tekur einungis til innflutnings til Bandaríkjanna;
 • CSI-áætlun Bandaríkjanna um öryggi gáma; „Container Security Initiative" frá 2002 sem á að færa út bandarískt öryggissvæði til hleðslu- eða lestunarstaðar gáma sem flytja á til Bandaríkjanna þannig að bandarískar hafnir verði ekki fyrsta vörn.

Á sama ári var samþykkt á vettvangi WCO að aðildarríkin myndu innleiða kerfi sem byggði á meginreglum CSI.

 • ISPS-kóði Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) varðandi öryggi sjóflutninga og hafna („International Ship and Port Facility Security Code") og SOLAS-samþykktin um öryggi mannslífa á hafinu („Safety of Life at Sea");
 • ISO/PAS 28000 Alþjóðastaðalsamtakanna um öryggi aðfangakeðjunnar;
 • Öryggisreglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) varðandi fraktflug.

Reglur Kyoto-samningsins um öryggismál

Endurskoðaði Kyoto-samningurinn  frá 1999 (í gildi 2006; upphafleg útgáfan frá 1973), um einföldun og samræmingu tollframkvæmdar, er talinn vera viðmið um bestu tollframkvæmd, bæði til að haldið sé uppi árangursríku og skilvirku tolleftirliti og til að greiða fyrir löglegum viðskiptum. Þar kemur fram að tollyfirvöld eiga að halda öryggisráðstöfunum í lágmarki og þær megi ekki seta atvinnulífinu skorður umfram það sem nauðsynlegt er.

Ávinningur og kostnaður af öryggiskerfum

Kostnaður og  óhagræði sem öryggiskerfi valda verða að vera í eðlilegu samræmi við þann ávinning sem sóst er eftir og öryggiskerfin eiga að tryggja.

Öryggisráðstafanir geta fært bæði beinan og óbeinan ávinning. Beini ávinningurinn er að koma í veg fyrir eða draga úr líkum á að tiltekin hætta valdi tjóni. Öryggiskerfi sem gerir ráð fyrir vottunar- eða viðurkenningarferli og viðbragðaáætlun, sbr. AEO, getur gert fyrirtæki betur í stakk búið til að rétta við starfsemi eftir áföll. Líkur eru á að fyrirtæki sem stendur vel að öryggismálum er varða vörukeðjuna, verði almennt fyrir minna óhagræði af völdum tolleftirlits en ella væri. Þá má gera ráð fyrir minna tjóni vegna þjófnaða eða vörurýrnunar af öðrum ástæðum og almennt má ætla að vöruferilsstjórnun sé betri hjá viðkomandi fyrirtækjum en öðrum.

2.0      AEO-hugmyndin

Hugtakið AEO

AEO stendur fyrir „Authorised Economic Operators" og hefur verið nefnt viðurkenndir rekstraraðilar á íslensku.

SAFE er rammaregluverk Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) um vernd og auðveldun alþjóðlegra viðskipta (SAFE Framework of Standards to Secure and Facilitate Global Trade). Þar er viðurkenndur rekstraraðili skilgreindur sem „aðili sem kemur að alþjóðlegum flutningi vara á hvaða hátt sem er, sem er viðurkenndur af viðkomandi tollstjórn sem aðili sem fullnægir öryggisstöðlum WCO um vörukeðjuna eða sambærilegum stöðlum" (í lausl. þýðingu).

Viðurkenndir aðilar geta verið inn- og útflytjendur, framleiðendur, farmflytjendur, farmmiðlarar, tollmiðlarar, rekstraraðilar hafna og flugvalla o.fl. aðilar.

Meginmarkmið AEO eru að auka öryggi vörukeðja viðkomandi rekstraraðila og um leið öryggi alþjóðlegu vörukeðjunnar, jafnframt því að greiða fyrir viðskiptum. AEO gengur út á að samtvinna öryggissjónarmið og sjónarmið sem lúta að því að greiða fyrir viðskiptum.

Viðtekið hefur verið að tollyfirvöld komi bara að einum hlekk í vörukeðjunni, svo sem innflutningi eða útflutningi, og þau hafa haft litla yfirsýn yfir það sem gerist í öðrum hlekkjum vörukeðjunnar.

Ef tollyfirvöld eiga að geta treyst því að þær upplýsingar sem þau fá um vörusendingar séu í samræmi við raunveruleikann, má ekkert óeðlilegt hafa gerst fyrr í vörukeðjunni.

Áhættugreining í tengslum við viðurkenningu fyrirtækis sem AEO-aðila á að stuðla að því að tollyfir-völd geti frekar treyst því að fyrirtækið sé traustur hlekkur í vörukeðjunni, enda fullnægi það settum skilyrðum og öryggisviðmiðum. Upplýsingar frá slíkum aðila um vörusendingar eiga almennt að vera áreiðanlegri heldur en ef þær kæmu frá aðila sem ekki hefur fengið viðurkenningu. Hjá WCO er til hugtakið viðurkennd vörukeðja (Authorised Supply Chain) sem merkir að allir hlekkir í tiltekinni vörukeðju hafi AEO-stöðu, en það kann að vera að slíku stefnt í framtíðinni.

Hugmyndafræði AEO gerir ráð fyrir ákveðnum og vel skilgreindum ávinningi fyrir fyrirtæki sem eru viðurkennd. Það er talin forsenda þess að fyrirtækin sækist eftir slíkri stöðu, en gert er ráð fyrir að fyrirtækjum sé í sjálfs vald sett hvort þau geri það. Það þarf því að vera áþreifanlegur ávinningur af AEO sem aðrir fá ekki.

AEO getur gert tollyfirvöld betur í stakk búin til að nýta starfslið og fjárveitingar á skilvirkan og árangursríkan hátt. Áherslur eru á markvissa og kerfisbundna áhættustjórnun og nýtingu tæknilegra lausna við áhættugreiningu.

Ályktun samstarfsnefndar WCO og einkageirans um lykilatriði varðandi AEO

Árið 2003 var að störfum nefnd WCO og fulltrúa einkageirans[1]sem fjallaði um samstarf tollyfirvalda og fyrirtækja til að auka öryggi vörukeðjunnar og greiða fyrir milliríkjaverslun. Hún ályktaði m.a. með þessum hætti (í lauslegri þýðingu):

„Að því marki sem tollyfirvöld geta treyst á samstarfsaðila í viðskiptasamfélaginu til að meta og bregðast við ógnunum sem steðja að vörukeðju þeirra, minnka þær ógnanir sem steðja að tollyfir-völdum. Því ættu fyrirtæki sem sýna í verki vilja til að efla öryggi vörukeðjunnar að fá sérstakan ávinning. Að minnka áhættu með þessum hætti hjálpar tollyfirvöldum við að gegna öryggishlutverki sínu og að greiða fyrir lögmætum viðskiptum."

Þetta er lykilatriði í þeirri hugsun sem býr að baki AEO. Þetta er aðferðafræði sem samhæfir tolleftirlit og eigið eftirlit og áhættustjórnun fyrirtækjanna og stuðlar að því að því að hámarka árangur í tolleftirliti.

Ávinningur fyrir fyrirtækin

AEO-aðilar eiga að njóta ávinnings umfram aðra sem ekki hafa þá stöðu. Slík mismunun þarf að hafa lagastoð og getur talist heimil innan marka stjórnarskrár. Jafnræðisregla 1. mgr. 65 .gr. stjórnarskrárinnar bannar ekki mismunun ef hún byggist á málefnalegum sjónarmiðum.  

Ætla má að ávinningur geti falist í viðurkenningunni sjálfri og að AEO-staða geti talist vera gæðamerki. Að slík fyrirtæki séu talin traust og eftirsótt að eiga viðskipti við þau. Þetta getur skipt æ meira máli ef AEO nær útbreiðslu.

AEO er liður í þróun breyttra starfshátta tollyfirvalda

AEO er liður í þróun aðferða sem tollyfirvöld geta beitt til að ná markmiðum sínum. Þau eigi að leggja áherslu samstarf við viðskiptasamfélagið; á áhættustjórnun og áhættugreiningu; á tæknilegar lausnir í samskiptum, upplýsingamiðlun og samstarfi; á það sem nefna má upplýsta fylgni við tollalöggjöf (svo leitast sé við að þýða inntak hugtaksins „informed compliance"); á alþjóðlegt samstarf og samstarf við önnur innlend eftirlitsstjórnvöld.

Sveigjanleiki við innleiðingu AEO en ekki vikið frá grundvallaratriðum

Bæði samkvæmt SAFE regluverki WCO og AEO-áætlun ESB hafa tollyfirvöld visst svigrúm til að aðlaga AEO að aðstæðum í viðkomandi landi. Sveigjanleikinn á að greiða fyrir innleiðingu og stuðla að sem mestri útbreiðslu hugmyndakerfisins. Þess verður þó að gæta að ef AEO á að vera grunnur að samstarfi tollyfirvalda til að auka öryggi vörukeðjunnar verða grundvallaratriði að vera sambærileg, svo sem skilyrði og viðmið, úttektarferli og eftirfylgni tollyfirvalda. Um þessa hluti verður að geta ríkt  gagnkvæmt traust milli tollyfirvalda sem gera gagnkvæma AEO-viðurkenningarsamninga. Sveigjanleikinn felst m.a. í því að tollyfirvöld geta innleitt AEO-áætlun í áföngum og forgangsraðað miðað við aðstæður. Þannig getur verið hægt að koma kerfinu á undirbúningslítið á tilteknum sviðum, en önnur svið geta þurft mikinn undirbúning.

3.0      Frá C-TPAT til SAFE og AEO-áætlunar ESB

Segja má að bandaríska C-TPAT-kerfið, SAFE-regluverkið og AEO-áætlun ESB og aðrar AEO-áætlanir byggi öll á sömu grunnhugmyndum.

Er ástæða til að ætla að með innleiðingu C-TPAT hafi bandarísk stjórnvöld markað stefnuna í öryggismálum er varða vörukeðjuna og síðan beitt sér á vettvang WCO til alþjóðlegs samstafs sem leiddi fyrst til SAFE og í framhaldinu ýmissa AEO-áætlana bæði ríkja og ríkjasambanda.

3.1    C-TPAT (Customs-Trade Partnership Against Terrorism)

C-TPAT er grundvallaratriði í stefnu Bandaríkjanna til að efla öryggi vörukeðjunnar í samstarfi við fyrirtækin og jafnframt að auðvelda viðskipti.

Kerfinu var komið á um tveimur mánuðum eftir hryðjuverkin 11. september 2001, en kerfið fókuserar aðallega á að bæta öryggi vörukeðjunnar með tilliti til hryðjuverkaógnarinnar.

Innleiðing hófst með þátttöku 7 stórfyrirtækja.

C-TPAT er valkvætt öryggiskerfi sem gildir fyrst og fremst um innflutning til Bandaríkjanna.

Kerfið átti m.a. að gera umsvifamestu innflytjendur betur í stakk búna til að endurreisa vörukeðju sína efftir hugsanlega hryðjuverkaárás. Því fljótar sem það gengi, myndu skaðleg áhrif verða minni, bæði fyrir viðkomandi fyrirtæki og bandarískt samfélag.

Bandarísk stjórnvöld höfðu unnið að áætluninni um nokkurt skeið fyrir 11. september og því var unnt að hefja innleiðingu svo skömmu eftir hryðjuverkin.

C-TPAT byggir á AEO-hugmyndafræðinni. Miðað er við að tollyfirvöld vinni með fyrritækjunum við efla öryggi vörukeðjunnar. Um er að ræða vottunarferli með tilliti til öryggissjónarmiða.

Í fyrstu var fyrirtækjunum ekki lofað miklum ávinningi vegna áætlunarinnar. Bandarísk tollyfirvöld ætluðu þó að tryggja að viðurkenndir aðilar myndu ekki sæta meiru tolleftirliti en þeir höfðu gert fyrir 11. september.

Um frekari ávinning hefur verið að ræða hin síðari ár. Þannig eru tilteknar tegundir einfaldrar tollafgreiðslu háðar því að fyrirtæki hafi vottun.

Í herfræðilegri (strategískri) áætlun um C-TPAT frá 2004[2] kemur m.a. fram að markmiðið sé að auka öryggi umtalsverðs hluta vörusendinga sem fluttar eru til Bandaríkjanna; að veita sérstakan ávinning og fríðindi þeim fyrirtækjum sem fullnægja skilyrðum C-TPAT og að tollyfirvöld beini kröftum sínum að þeim sendingum sem eru taldar áhættusamastar.

C-TPAT tekur fyrst og fremst til fyrirtækja sem starfa í Bandaríkjunum. Tilteknum erlendum framleiðendum hefur verið boðið að gerast aðilar. Áhersla hefur verið á að fá til samstarfs fyrirtæki sem koma að flutningakeðjunni til Bandaríkjanna og hafa á sínum snærum áhættulitlar sendingar en í umtalsverðu magni.  

Um 10.300 fyrirtæki hafa fengið vottun og hafa þau á sínum snærum rúmlega helming innflutnings.   Auk innflutningsfyrirtækja er einkum um að ræða flutningafyrirtæki (landflutningar, sjóflutningar, auk flugfélaga), farmmiðlara, tollmiðlara og hafnir.

Skilyrði fyrir að fá vottun tengjast einkum öryggi, svo sem öryggi gáma, öryggi athafnasvæða, öryggi er lýtur að starfsmönnum, öryggi ferla, þjálfun með tilliti til öryggismála, tölvuöryggi, öryggi viðskiptafélaga o.fl.

Fyrirtæki eru flokkuð í þrjá flokka, þannig að fyrirtæki sem eru talin veita mesta öryggið, geta almennt gert ráð fyrir að sæta minnsta tolleftirliti.

Árið 2007 gerði Virginíuháskóli úttekt fyrir bandarísk tollyfirvöld á kostnaði og ávinningi við C-TPAT.[3]  Það sýndi sig að ávinningur fælist í færri tollskoðunum, færri þjófnuðum og minni rýrnun. Almennt væri vöruferilsstjórnun betri.

Helsti hvati fyrirtækja til þátttöku væri möguleiki á að spara bæði tíma og peninga við tollafgreiðslur og koma í veg fyrir ýmsa hnökra á vörukeðju viðkomandi fyrirtækja. Um þriðjungur þeirra sem svöruðu könnuninni töldu ávinninginn meiri en kostnaðinn, en um fjórðungur taldi að leggja mæti ávinning og kostnað að jöfnu. Tæp 17% töldu kostnað meiri en ávinning. Ríflega fjórðungur taldi of snemmt að leggja mat á þetta þegar könnunin var gerð. Þriðjungur fyrirtækjanna sem svöruðu töldu að um væri að ræða færri tollskoðanir og endurskoðanir en áður. Rúmlega helmingur af þeim sagði skoðunum hafa fækkað um meira en 50%; tæplega 7% töldu að skoðunum hefði fjölgað, en ríflega 44% að fjöldi skoðana væri óbreyttur.

Hjá bandarískum tollyfirvöldum eru rúmlega 160 manns sem vinna við C-TPAT.

Bandarísk tollyfirvöld hafa stuðlað að útbreiðslu SAFE regluverks WCO og leitað eftir gerð gagnkvæmra AEO-viðurkenningarsamninga við helstu viðskiptalönd sín. Þau hafa gert samninga við Nýja Sjáland (2007), Kanada (2008), Jórdaníu (2008), Japan (2009), Suður-Kóreu (2010) og ESB (2012). Yfir standa viðræður við Kína. Bandaríkin hafa veitt tæknilega aðstoð í 14 öðrum löndum í tengslum við innleiðingu AEO.

3.2      SAFE rammaregluverk WCO

SAFE er ekki eiginlegur milliríkjasamningur, heldur rammaregluverk með stöðlum sem WCO leggur áherslu á að aðildarríkin innleiði í löggjöf sína og tollframkvæmd.

WCO hefur litið á SAFE sem tæki fyrir tollstjórnir aðildarríkja til að gera sig meira gildandi sem þátttakendur í að tryggja efnahagslega og almenna hagsæld þjóða. Þá er annars vegar vísað til þess að tollyfirvöld eru, sem vörsluaðili landamæra, jafnan í lykilstöðu varðandi milliríkjaviðskipti með vörur og hins vegar að aðildarríki WCO eru með um 98% heimsviðskipta á sínum snærum.

SAFE á að tryggja samræmda nálgun tollyfirvalda við að efla öryggi vörukeðjunnar og greiða fyrir viðskiptum. AEO er einn af hornsteinum SAFE.

SAFE var unnið í samstarfi WCO við leiðandi aðildarríki, aðrar alþjóðastofnanir sem koma að öryggismálum og samtök atvinnulífsins, m.a. í flutningum, verslun og framleiðslu. Ástæða er til að ætla að Bandaríkin hafi haft verulega forgöngu um þessa vinnu, enda rökrétt framhald af C-TPAT í viðleitni til að auka alþjóðasamstarf um öryggi vörukeðjunnar.

Ákveðin samsvörun er milli SAFE og Endurskoðaða Kyoto-samningsins um einföldun og samræmingu tollmeðferðar (sbr. staðla 1.3, 6.3 og 6.8 í almanna viðaukanum).

Meginmarkmið SAFE

Í inngangskafla SAFE er meginmarkmiðum regluverksins lýst svo (lauslega þýtt):

 • Að setja staðla sem vernda vörukeðjuna og auðvelda viðskipti á heimsvísu til að efla áreiðanleika og fyrirsjáanleika.
 • Að gera mögulegt að samþætta vöruferilsstjórnun á öllum sviðum flutninga.
 • Að styrkja hlutverk, starfsemi og hæfni tollyfirvalda til að mæta áskorunum og tækifærum 21. aldarinnar.
 • Að styrkja samvinnu tollstjórna til að auka möguleika þeirra á að finna áhættusamar vöru-sendingar.
 • Að styrkja samvinnu tollyfirvalda og viðskiptasamfélagsins.
 • Að stuðla að hnökralausum flutningi vara um öruggar alþjóðlegar vörukeðjur.

Skilyrði og viðmið AEO skv. SAFE

Almenn skilyrði og viðmið AEO skv. SAFE varða eftirtalið:

 • Sýnt þyki að viðkomandi fari eftir tollalöggjöf. Gert er ráð fyrir að þetta sé nánar útfært í viðkomandi AEO-áætlun.
 • Fullnægjandi kerfi til að halda utan um gögn og upplýsingar.
 • Sönnun á gjaldfærni.
 • Samráð, samvinna og samskipti (tollyfirvöld og AEO-aðili; tollstjórnir í alþjóðlegu samhengi; tollyfirvöld og önnur stjórnvöld)
 • Mál er varða menntun og þjálfun og skilning á því sem getur þurft að gera.
 • Upplýsingaskipti, aðgangur að upplýsingum og trúnaður upplýsinga.
 • Öryggi farms.
 • Öryggi flutningatækja.
 • Öryggi starfsaðstöðu og athafnasvæða.
 • Öryggi starfsmanna.
 • Öryggi með tilliti til viðskiptafélaga.
 • Krísustjórnun og endurreisn.
 • Mælingar, greiningar og umbætur.

Grundvallarþættir SAFE

Í fyrsta lagi eru samræmdar kröfur um fyrirfram upplýsingar sem beri að láta tollyfirvöldum í té rafrænt um innflutning, útflutning og umflutning.

Í öðru lagi eiga tollyfirvöld að beita samræmdri áhættustjórnun til að bregðast við öryggisógnunum.

Í þriðja lagi er áskilið að samkvæmt réttmætri beiðni innflutningslands, sem byggð er á sambærilegri aðferðarfræði við áhættumarkviðmiðun, skuli tollyfirvöld í útflutningslandi skoða áhættusama gáma og farm við útflutning; helst með því að nota leitarbúnað sem veldur sem minnstu raski, svo sem stórvirkan gegnumlýsingarbúnað og geislunarskynjara, ef um eiginlega tollskoðun er að ræða.

Í fjórða lagi er á því byggt að fyrirtæki sem taka þátt í AEO og uppfylla kröfur varðandi öryggi og bestu framkvæmd eigi að njóta tiltekins ávinnings umfram önnur fyrirtæki sem standa utan við kerfið.

Stoðir SAFE

Regluverkið byggir annars vegar á samstarfi og tengslaneti tollstjórna (svonefnd 1. stoð) og hins vegar á samstarfi tollyfirvalda og fyrirtækjanna (2. stoð).

Tollstjórnir verða að hafa sambærileg viðmið ef þau ætla að vinna saman að því að hámarka öryggi vörukeðjunnar og vernda hana fyrir hryðjuverkum og annarri alþjóðlegri glæpastarfsemi, jafnframt því að greiða fyrir alþjóðlegum viðskiptum. Þau verða að nýta tæknilegar lausnir í samskiptum og við upplýsingamiðlun. Því þurfa tölvukerfi að vera samhæfð og geta starfað saman.

Staðlar 1. stoðar varða í meginatriðum eftirtalið:

Í 1. staðli kemur fram að tollyfirvöld ættu að fylgja samþættum aðferðum við tolleftirlit í samræmi við leiðbeiningar WCO um samþætta vöruferilsstjórnun (Integrated[4] Supply Chain Management Guidelines; ISCM-Guidelines). Þau þurf að hafa nauðsynlegar lagaheimildir, svo sem hvað varðar kröfur um fyrirfram upplýsingar, alþjóðlegt samstarf o.fl.[5] Það er eitt af grunvallaratriðunum varðandi samstarf tollstjórna að þau viðurkenni gagnkvæmt bæði eftirlitsaðgerðir og AEO-áætlanir.

Í 2. staðli er fjallað um valdheimildir tollyfirvalda varðandi skoðun farms í innflutningi, útflutningi og umflutningi, en þessi staðall er  í samræmi við staðal 6.1 í almennum viðauka Endurskoðaða Kyoto-samningsins.

Í 3. staðli er fjallað um skoðunarbúnað sem nýtir nútímatækni (m.a. gegnumlýsingarbúnaður og geislaskynjunarbúnaður), bæði til að tryggja árangur og að röskun verði sem minnst á lögmætri starfsemi  (WCO hefur gefið út leiðbeiningar um slíkan tækjabúnað). Einnig er mikilvægt að stuðla að notkun tæknilegs varnarbúnaðar til að tryggja að ekki sé átt við farma eða gáma.

Í 4. staðli er fjallað um áhættustjórnunarkerfi tollyfirvalda sem á að nýta tæknilegar lausnir. Nota á sjálfvirkt markkerfi (automated targeting tool) til að finna áhættusamar sendingar eins fljótt og kostur er í vörukeðjunni, á útflutningsstað eða fyrr. Með kerfinu ætti að vera unnt að sannreyna áhættumat og marksetningu. Forðast þarf tvíverknað í eftirliti og því þarf að vera gagnkvæm viðurkenning á eftirlitsaðgerðum og til að svo megi verða þurfa tollyfirvöld að gæta samræmis í eftirliti og áhættustjórnun, skiptast á eftirlitstengdum upplýsingum[6] og hafa sameiginleg viðmið um gæðamat.

Í 5. staðli er fjallað um áhættusama farma og gáma.[7]

Í 6. staðli er fjallað um fyrirfram rafrænar upplýsingar, einkum í tengslum við áhættumat.

Í 7. staðli er fjallað um markkerfi (targeting) og samskipti.

8. staðall fjallar um árangursmælingar.

9. staðall fjallar um öryggismat og samstarf tollyfirvalda við önnur eftirlitsstjórnvöld varðandi öryggisatriði í tengslum við vörukeðjuna.

10. staðall fjallar m.a. um ráðvendni tollstarfsmanna og aðgerðir til að tryggja að þau mál séu í góðu horfi.

11. staðall fjallar um rannsókn eða skoðun á áhættusömum sendingum við útflutning samkvæmt réttmætri beiðni annarra tollstjórna. Með SAFE er tollyfirvöldum í innflutningslandi gert kleift að fá tollyfirvöld í útflutningslandi til að skoða[8] farm eða gám fyrir útflutning, ef tilefni er til að ætla að um geti verið að ræða áhættusama sendingu.

Staðlar 2. stoðar varða samstarf tollyfirvalda og fyrirtækjanna til að tryggja öryggi vörukeðjunnar. Vernd farma og gáma er þannig færð framar í vöruferlinu með því að fyrirtækin tryggi öryggi og vernd m.a. á upprunastað vöru, hleðslustað og síðar í vöruferlinu.

SAFE skilgreinir forsendur fyrir því að fyrirtæki fái AEO-stöðu og verði samstarfsaðilar tollyfirvalda um vernd vörukeðjunnar. Fjallað er um atriði eins og áhættumat, öryggisáætlun, samskiptaáætlun, aðgerðir til að koma í veg fyrir að ólöglegar vörur komist inn í vöruferlið, öryggi athafnasvæða og húsnæðis, öryggi gáma, farma og flutningatækja, starfsmannaöryggi og vernd upplýsingakerfa.

Mörg fyrirtæki þurfa þegar að fullnægja ýmsum alþjóðlegum kröfum í tengslum við vörukeðjuna.

Árangur af samstarfi tollyfirvalda og fyrirtækjanna er m.a. háður gagnkvæmri virðingu gagnvart hlutverki aðila og ábyrgð.

Staðlar 2. stoðar varða í meginatriðum eftirtalið:

1. staðallinn varðar samstarf eða samstarfsgrundvöll tollyfirvalda og fyrirtækjanna. Gert er ráð fyrir sjálfsmati fyrirtækjanna með tilliti til tiltekinna öryggisatriða og bestu framkvæmdar til að tryggja að innri ferlar feli í sér nægilega vernd.

2. staðall varðar öryggisþætti í starfsemi fyrirtækjanna. Öryggi athafnasvæða, aðgangsstjórnun, einkenni starfsmanna, upplýsingavernd, öryggisáætlanir, viðbragðaáætlanir o.fl.

3. staðall varðar vottunar- eða viðurkenningarferlið sem tollyfirvöld eiga að hanna í samstarfi við fulltrúa viðskiptasamfélagsins.

4. staðall varðar tæknileg atriði til að viðhalda áreiðanleika farma og gáma.

Í 5. staðli er fjallað um samskipti tollyfirvalda og fyrirtækjanna til að viðhalda öryggi og bestu framkvæmd til verndar vöruferlinu. Fyrirtækin ættu að eiga kost á að hafa tengilið hjá tollyfirvöldum sem þau geta leitað til milliliðalaust. Halda ætti samráðsfundi eftir þörfum o.fl.

Í 6. staðli er fjallað um auðveldun, en tollyfirvöld eiga að vinna með fyrirtækjunum til að hámarka öryggi vörukeðjunnar og vinna að auðveldun viðskipta í tengslum við hana. Tollyfirvöld ættu að stuðla að einfaldleika varðandi upplýsingagjöf í tengslum við tollafgreiðslu, bæði til að auðvelda viðskipti og bera kennsla á áhættusamar sendingar.[9] Tollyfirvöld ættu að gefa fyrirtækjunum kost á að koma að sjónarmiðum sínum í tengslum við breytingar sem kunna að varða þau miklu vegna hlutverks þeirra í verndun vöruferlisins.´æer Hér

Ávinningur

Gert er ráð fyrir að ávinningur fyrirtækja af AEO sé skilgreindur í löggjöf. Raunverulegur og skýr ávinningur er forsenda þess að fyrirtækin sjái sér hag í þátttöku.

Ávinningur sem stefnt er að fyrir samfélög í heild felst í öruggari vörukeðju og með því að greitt er fyrir löglegum viðskiptum. SAFE á að stuðla að auknu samstarfi tollyfirvalda og auknu samstarfi tollyfirvalda og annarra innlendra stjórnvalda og að almennt samhæfðara eftirliti. Aukin og bætt upplýsingamiðlun á að geta hjálpað tollyfirvöldum við áhættugreiningu. Möguleiki á að láta skoða áhættusamar sendingar fyrr í vörukeðjunni og gagnkvæmir AEO-viðurkenningarsamningar eiga að bæta stöðu tollyfirvalda.

Ávinningur fyrirtækjanna getur m.a. falist í öruggara vöruferli og auðveldun viðskipa. Ávinningur á að felast í hraðari tollafgreiðslu, m.a. vegna minnkaðs hlutfalls sendinga sem eru tollskoðaðar. Regluverkið á að stuðla að fyrirsjáanleika og samkvæmni og draga úr kröfum um margþætta og jafnvel flókna skýrslugerð.

Ávinningur þarf að skipta máli og helst vera mælanlegur. Í dæmaskyni setur SAFE fram hugmyndir um ávinning sem geta átt misvel við eftir löndum:

 • Úrræði til að flýta fyrir vöruafhendingu og lækka geymslukostnað: Minni kröfur um upplýsingar; fljótari afhending; færri skoðanir; forgangur varðandi skoðunarbúnað sem veldur sem minnstri truflun, ef um er að ræða skoðun; dregið úr innheimtu þjónustugjaldtöku, ef við getur átt; lengri opnunartími tollstöðvar ef unnt er og sérstakar aðstæður krefja.
 • Aðgengi AEO-aðila að upplýsingum: Listi yfir aðra AEO-hafa, enda samþykki þeir að vera á slíkum lista; listi yfir lönd sem eru aðilar að SAFE; listi yfir viðurkennda öryggisstaðla og yfirlit yfir bestu framkvæmd.
 • Sérstök úrræði ef um er að ræða áföll með skaðlegum áhrifum á viðskipti eða ef hættulegar aðstæður skapast: Forgangur í tollafgreiðslu við hættuástand; forgangur þegar opnað er að nýju eftir lokun hafna eða landamæra vegna öryggistilvika; forgangur til að flytja út varning til landa sem hafa orðið fyrri skaða af völdum öryggistilvika.
 • Forgangur til þátttöku í nýjum tollafgreiðsluháttum: Tollafgreiðsla í einu lagi á fleiri sendingum á tilteknu tímabili út frá bókhaldi í stað þess að miða við hverja sendingu fyrir sig; einfölduð eftirátollafgreiðsla; möguleiki á sjálfsendurskoðun eða aðild að áætlun þar sem dregur úr endurskoðunum; flýtimeðferð til að leysa úr álitamálum sem upp koma eftir tollafgreiðslur; aukin tilhliðrun í sambandi við refsikennd stjórnsýsluúrræði, enda sé ekki grunur um tollsvik; aukin pappírslaus afgreiðsla í inn- og útflutningi; forgangur til að fá úrskurði í álitamálum; aukinn möguleiki til að koma að leiðréttingum áður en tollyfirvöld beita refsikenndum stjórnsýslulegum aðgerðum, nema um sé að ræða tollsvik; refsikenndum úrræðum ekki beitt, umfram vexti, ef tollskuld er ekki greidd á réttum tíma.

AEO-staða getur verið verðmæt í sjálfu sér. Hún getur verið merki um að fyrirtæki sé traust og góður viðskiptafélagi. Um getur verið að ræða minni kröfur um skýrslugerð og upplýsingar varðandi sendingar í inn- og útflutningi; fljótari afgreiðslu; færri endurskoðanir og tollskoðanir; forgangur ef um er að ræða skoðun; ávinningur erlendis í tengslum við gagnkvæma AEO-viðurkenningarsamninga.

Tiltekin rannsókn[10] leiddi í ljós að ekki þarf að vera alger fylgni milli kostnaðar við öryggisráðstafanir, annars vegar, og árangurs sem þær eiga að stuðla að, hins vegar. Tiltölulega væg öryggisúrræði geta fært miklar umbætur varðandi öryggi. Ennfremur að tiltölulegar litlar fjárfestingar í öryggi gætu leitt m.a. til betri yfirsýnar yfir vörukeðju, nákvæmari upplýsinga og betra utanumhalds gagna og upplýsinga; skýrara og gagnsærra hlutverks og ábyrgðar aðila innan starfseminnar; bætts ráðningarferlis; betra innra eftirlits og innri endurskoðunar og betra mats á viðskiptafélögum. Þá kom í ljós að miklar fjárfestingar í öryggisbúnað skilaði ekki hlutfallslega betri árangri.

Samkvæmt rannsókn Stanford háskóla eru mörg fyrirtæki treg til að fjárfesta í öryggi vegna þess að fókusinn er gjarnan á beinan kostnað sem slíku er samfara. Fjárfestingar í að auka öryggi vörukeðju eru oft miklu minni en ávinningurinn sem slíkt getur fært og varðar m.a. aukið vöruöryggi (færri þjófnaðir, minni rýrnun), bætta birgðastjórnun, meira um afhendingu vöru á réttum tíma, betri yfirsýn yfir vörukeðjuna, meiri hraði, meiri ánægja viðskiptavina o.fl.

Í ljósi þessa, getur verið um að ræða ýmsan ávinning umfram hinn beina ávinning sem á að vera útlistaður í löggjöf.

Tölvukerfi

Tölvukerfi tollyfirvalda þurfa að fullnægja tilteknum kröfum vegna AEO. Þannig þarf að vera unnt að hafa rafræn samskipti, bæði við fyrirtækin, önnur stjórnvöld og erlend tollyfirvöld, eftir atvikum. Þá þarf að fullnægja kröfum um rafræn boðskipti og verklag í tengslum við áhættustjórnun.

Sveigjanleiki við innleiðingu

Tollyfirvöld hafa eitthvað svigrúm til að aðlaga SAFE að aðstæðum í sínu landi, sem þó takmarkast af því að það verður að vera næg samsvörun að því er varðar öryggishluta AEO því ella er ekki unnt að gera gagnkvæma viðurkenningarsamninga við önnur lönd.

Gert er ráð fyrir að unnt sé að innleiða SAFE í áföngum eftir því sem hentugast þykir.

Efling getu og hæfni tollyfirvalda til að gegna hlutverki sínu

Talið er að innleiðing SAFE geti kallað á sérstakar ráðstafanir til að efla getu og hæfni tollyfirvalda (capacity building), þó hluta regluverksins megi innleiða án þess.

WCO er með aðgerðaáætlun sem gerir ráð fyrir aðstoð í þessu skyni handa tollstjórnum sem innleiða SAFE, en slík aðstoð er háð því að til staðar sé raunverulegur vilji og nauðsynleg skuldbinding og heilindi viðkomandi tollyfirvalda gagnvart þessu verkefni. (Columbusar-áætlunin frá 2006).

Leiðbeiningar WCO um SAFE og AEO

WCO gefur út leiðbeiningar um innleiðingu og framkvæmd AEO. Væntanleg er endurskoðuð útgáfa á þessu ári af meginleiðbeiningunum.

Fyrirhugað er að leiðbeint verði þar sérstaklega um gerð gagnkvæmra AEO-viðurkenningarsamninga og gefin fyrirmynd um sniðmát til nota við sjálfsmat fyrirtækja í tengslum við umsókn um AEO-viðurkenningu.

Endurskoðun SAFE

SAFE er endurskoðað á þriggja ára fresti. Endurskoðuð útgáfa mun vera væntanleg á þessu ári. Þar verður m.a. bætt við umfjöllun um endurreisn vörukeðju eftir áföll, um samhæfða landamæravörslu, um samstarf tollyfirvalda og annarra innlendra stjórnvalda, um eins glugga lausn (Single Window) o.fl.

3.3    AEO-áætlun ESB

Um helstu grundvallaratriði má vísa til minnisblaðs míns frá 20. júní sl., þar sem fjallað var um málstofuna um AEO-áætlun ESB sem haldin var í Albaníu 6.-7. júní sl.

Auk þess skal eftirfarandi tekið fram:

Haustið 2006 ákvað framkvæmdastjórnin að krefjast fyrirfram tilkynninga til tollyfirvalda um vörusendingar í inn- og útflutningi og tók sú tilhögun gildi 1. júlí 2009.

Í samræmi við stefnumörkun um innleiðingu AEO-kerfis voru gefnar út leiðbeiningar um AEO-áætlun ESB (EU AEO Guidelines) í júní 2007.

AEO-áætlun ESB kom til framkvæmda 1. janúar 2008. Þar er gert ráð fyrir að fyrirtæki geti fengið AEO-stöðu ýmist með tilliti til einföldunar tollafgreiðslu (AEO-C), öryggis (AEO-S) eða hvoru tveggja (AEO-F). Flestar umsóknir um viðurkenningu munu lúta að síðastnefndu tegundinni.

AEO-áætlun ESB byggir, sem fyrr segir, aðallega á SAFE-regluverki WCO og C-TPAT-áætlun Bandaríkjanna, auk ýmissa annarra alþjóðlegra öryggisstaðla, svo sem ISPS.

Lagagrunnur AEO-áætlunarinnar var settur með breytingum á tollalöggjöf ESB árið 2005 (reglugerð nr. 2913/1992 (tollalög) breytt með reglugerð nr. 648/2005 og reglugerð nr. 2454/1003 (framkvæmdarreglugerð) með reglugerð nr. 1875/2006).

Með þeim breytingum komu ákvæði um fyrirfram tilkynningar um vörur, rammareglur um áhættu-stjórnun og efnisreglur um AEO.

Stoðir og meginþættir AEO-áætlunar ESB eru hinir sömu og í SAFE.

AEO-staða verður eingöngu veitt aðilum með staðfestu í ESB.

AEO-viðurkenning fyrirtækis gildir í öllu Sambandinu.

AEO-staða er ótímabundinn.

Almenn viðmið til að fá viðurkenningu eru að viðkomandi:

 • hafi farið eftir tollalöggjöf
 • haldi með fullnægjandi hætti utan um gögn og upplýsingar í starfseminni
 • sé gjaldfær og
 • fullnægi öryggisstöðlum, ef við á.

Öryggiskröfur varða m.a. eftirtalið: athafnasvæði fyrirtækjanna; ráðstafanir þeirra til að koma í veg fyrir að átt sé við vörur og tryggja örugga lestun og losun gáma, flutningatækja o.fl.; ráðstafanir til að fylgja boðum og bönnum á einstökum sviðum tollalöggjafar; öryggisjónarmið er varða starfsmenn.

Ávinningur af AEO-C varða m.a. möguleika á einföldun tollafgreiðslu; færri endurskoðanir og tollskoðanir; forgang ef um er að ræða skoðun; möguleika á að skoðun fari fram á tilteknum stað sem aðili óskar eftir.

Ávinningur tengdur AEO-S og AEO-F varða m.a. möguleika á að fá fyrirfram að vita um eftirlitsaðgerðir; minni kröfur um upplýsingar í yfirlitstollskýrslum; færri endurskoðanir og tollskoðanir; forgang ef um er að ræða skoðun; möguleika á að skoðun fari fram á sérstökum stað.

Í ljósi úttekta og endurskoðana er varða AEO-aðila má segja að AEO-staða geti verið eins konar gæðavottun fyrirtækis gagnvart viðskiptaaðilum í alþjóðlegum viðskiptum. Gagnkvæmir AEO-samningar milli landa geta skapað fyrirtækjunum aukinn ávinning erlendis. Þá mun þess hafa gætt að  fyrirtæki í þriðjulöndum leitist helst við að eiga viðskipti við aðila innan ESB sem eru með AEO-stöðu.

ESB starfrækir AEO-gagnagrunn varðandi útgefnar AEO-viðurkenningar og leitast með ýmsum úrræðum við að tryggja samræmda framkvæmd AEO í öllum aðildarríkjum. Það er m.a. gert með ákvæðum í tollalöggjöfinni (skilyrði; viðurkenningarferli; ávinningur; umsýsla, vöktun, endurmat, frestun, afturköllun); með handbókum og leiðbeiningum til tollyfirvalda og fyrirtækja; með starfrækslu AEO-þjónustuvers; með tengslaneti tollyfirvalda, samráði og samstarfi varðandi AEO o.fl.

ESB leitar eftir að gera AEO-samstarfsamninga við helstu viðskiptalönd, með gagnkvæmum viðurkenningum á öryggisstöðlum og samstarfssamningum við fyrirtækin. Það er til að auka öryggi viðskiptakeðjunnar á heimsvísu og greiða fyrir viðskiptum.

4.0    AEO í Noregi

Noregur hefur innleitt öryggishluta AEO (sambærilegt AEO-S í AEO-áætlun ESB). Það var gert í framhaldi af ákvörðun ESB 2006 um að krefjast fyrirfram tilkynninga um vörusendingar frá þriðjulöndum með gildistöku frá 1. júlí 2009.

Kröfur ESB að þessu leyti og AEO-áætlun Noregs eru í samræmi við SAFE.

Norsk tollyfirvöld töldu að kröfur ESB um fyrirframtilkynningar myndu hafa skaðleg áhrif á norskan útflutning til ESB og því var leitað samstarf við Sambandið um tilhliðrun vegna norskra útflutningsvara og hófust samningaviðræður í júní 2008.

ESB setti þrjú skilyrði fyrir því að Noregur gæti talist til öryggissvæðis ESB í þessu samandi:

 • Að Noregur tæki upp kröfur um fyrirfram tilkynningar vegna þriðjulanda (landa utan öryggissvæðis ESB);
 • að Noregur ástundaði áhættugreiningu vegna vörusendinga til og frá þriðjulöndum og
 • að Noregur tæki upp AEO-áætlun með tilliti til öryggis, þar sem byggt væri á AEO-áætlun ESB.

AEO-áætlun Noregs tók gildi í mars 2009.

Í AEO-áætlun ESB er, sem fyrr segir, bæði unnt að sækja um stöðu AEO með tilliti til öryggis vörukeðjunnar (AEO-S og F) og einföldunar tollafgreiðslu (AEO-C). Norska áætlunin tekur hins vegar eingöngu til öryggis.

Tollyfirvöld í Noregi hafa þegar (óháð AEO) viðurkenningarferli varðandi heimildir og fríðindi er taka til einfaldari tollafgreiðslu, svo dæmi séu nefnd er um að ræða leyfi til að hafa eigin tollfrjálsan vörulager, tollkrít, svonefnda viðurkennda móttakendur og viðurkennda sendendur o.fl.

AEO-kerfið á að vernda vörukeðjuna með árangursríkum hætti með minna tolleftirliti gagnvart fyrirtækjum sem talin eru örugg á grundvelli viðurkenningarferlis.

Samkvæmt leiðbeiningum tollyfirvalda um AEO er beinn ávinningur einkum fólginn í möguleikanum á að láta tollyfirvöldum í té minni upplýsingar um vörusendingar, ásamt því að vænta megi færri eftirlitsaðgerða tollyfirvalda. Ennfremur segir þar að AEO-staða sé alþjóðlega viðurkennd sem merki um traustan viðskiptafélaga. Það geti gefið samkeppnisforskot umfram aðra sem ekki séu með viðurkenningu.

Í viðurkenningarferli er farið yfir öryggismál fyrirtækisins og ferla. Með viðurkenningunni fæst því:

 • staðfesting á því að fyrritækið hafi gott skikk á ferlum og öryggismálum;
 • heildræn yfirferð yfir öryggisferla;
 • betri samþætting öryggisþátta á fleiri sviðum;
 • meiri vissa um öryggi á öllum sviðum í fyrirtækinu og
 • hagnýting á þeim öryggisvottunum sem þegar liggja fyrir og/eða einföldun í skjalfestingu öryggisferla sem aðrir vottunaraðilar áskilja.

Lagaheimild fyrir AEO er í gr. 3-1 í tollalögunum, sbr. gr. 3-1-20 til 3-1-25 í tollareglugerðinni um skilyrði og um afturköllun viðurkenningar.

Fyrirtæki sem eru skráð í Noregi og koma að vöruflutningum yfir landamæri geta sótt um AEO-stöðu.

Skilyrði  varða fylgni við tolla- og skattalöggjöf, tilhögun bókhalds, innra eftirlit, gjaldfærni og öryggisráðstafanir.

Tilhliðranir AEO-aðila varða tolleftirlit, annars vegar, sem tollyfirvöld eiga eftir að útfæra og munu einkum felast í forgangi, og fyrirfram tilkynningar, hins vegar.

Fyrirtæki sem eru viðurkennd í ESB eru einnig talin viðurkennd í Noregi.

Viðurkenningarferlinu er skipt í eftirfarandi þætti: Móttaka umsóknar og sjálfsmatseyðublaðs; upphafsathugun umsóknar; greining og úttekt; taka afstöðu til umsóknar og afgreiða hana; eftirfylgni.

Áhættumat er framkvæmt með hliðsjón af sjálfsmati umsækjanda og, eftir atvikum, öðrum fyrirliggjandi upplýsingum um hann. Áhættumatið er bráðabirgðamat á umsækjandanum sem gengið er út frá við úttekt á fyrirtækinu. Við úttektina er farið yfir þá þætti í starfseminni sem máli skipta, jafnframt því sem fram fara viðræður við fyrirtækið um efnisþætti sem ástæða er til að ræða sérstaklega.

Að lokinni úttekt fer fram heildarmat á fyrirtækinu og tekin er ákvörðun um hvort viðurkenning skuli veitt eða henni hafnað. Ef viðurkenning er veitt, er gefið út sérstakt AEO-skírteini því til staðfestingar.

Viðurkenning gildir í fimm ár.

Í reglum er fjallað um afturköllun viðurkenningar. Tollyfirvöld geta gefið formlega aðvörun eða afturkallað viðurkenninguna, varanlega eða tímabundið, við brot á skilyrðum eða brot á tollalöggjöf,  með hliðsjón af alvarleika máls, fyrri brotum og aðstæðum að öðru leyti. Tollyfirvöld geta afturkallað viðurkenningu tímabundið, með tilliti til almannaheilsu, umhverfisþátta eða öryggis, ef nauðsyn ber til. Ennfremur er hægt að afturkalla viðurkenningu ef fyrirtæið fær dóm fyrir önnur alvarleg brot af efnahagslegum toga.

Árlega eiga tollyfirvöld að fara yfir viðurkenningar til að staðfesta að kröfum sé enn fullnægt. Sú yfirferð kann að leiða til þess að tollyfirvöld telji ástæðu til að gera nýja úttekt á fyrirtækinu. Hafi engar breytingar orðið frá því að viðurkenning var veitt, mun þessi eftirfylgni ganga greiðlega fyrir sig með samræðum við fyrirtækið.

5.0    Gagnkvæmir AEO-viðurkenningarsamningar

Gagnkvæmir viðurkenningarsamningar landa um AEO taka eðli máls samkvæmt bara til öryggishluta AEO.

WCO leggur áherslu á að lönd sem innleitt hafa AEO geri slíka gagnkvæma alþjóðlega samninga til að stuðla að útbreiðslu AEO á heimsvísu.

Það er m.a. forsenda samninganna að hlutaðeigandi öryggiskerfi séu sambærileg og aðilar geti treyst framkvæmd hvors annars, einkum að úttektir séu traustar og að viðurkenningum sé fylgt eftir með tilteknu eftirliti (eftirfylgni).

Við undirbúningur slíkra samstarfssamninga eru hlutaðeigandi kerfi borin saman og metið hvort grundvallaratriðin, svo sem skilyrði og viðmið, úttektir og eftirfylgni, séu sambærileg, enda er það skilyrði gagnkvæms trausts sem verður að vera. Ef samsvörun er nægjanleg eru gerðir formlegir gagnkvæmir viðurkenningarsamningar og þróað fyrirkomulag upplýsingaskipta og -miðlunar.


[1] „High Level Guidelines for Co-operative Arrangements between WCO Members and Private Industry to Increase Supply Chain Security and Facilitate the Flow og International Trade" (2003)

[2] US Customs and Border Protection, Securing the Global Supply Chain, Customs-Trade Partnership Against Terrorism (C-TPAT) Strategic Plan, (2004).

[3] Fjallað er um úttektina í skýrslunni Supply Chain Security Initiatives: A Trade Facilitation Perspective, Kommerskollegium, The National Board og Trade (Svíþjóð, 2008), bls. 36.

[4] Tilgangurinn með því að nota hugtakið „Integrated" í þessu sambandi er að undirstrika mikilvægi þess að litið sé á vörukeðjuna í heild, en ekki bara einstaka liði hennar, og að fókusera á samstarf milli aðila sem koma að vörukeðjunni.

[5] Er vísað til eftirtalinna leiðbeiningargagna WCO í þessu sambandi: Guidelines for the Development of National Laws for the Collection and Transmission of Customs Information, Model Bilateral Agreement, International Convention on Mutual Administrative Assistance in Customs Matters (Johannesburg Convention).

[6] Í þessu sambandi er vísað til leiðbeininga WCO; Global Information and Intelligence Strategy.

[7] Skilgreining SAFE á áhættusömum farmi: 1) ófullnægjandi upplýsingar eða ástæður til að meta farm áhættulítinn; 2) sérstakar upplýsingar gefa til kynna að farmur sé áhættusamur og 3) farmur er talinn áhættusamur samkvæmt aðferðafræði áhættugreiningar.

[8] Hér er með „skoðun" átt við það sem nefnt er „screening" í SAFE og felst í að meta gögn og upplýsingar varðandi sendingu og flutninginn í áhættumatsferli (hvort heldur er á sjálfvirkan, rafrænan hátt, eða með öðrum hætti). Í SAFE merkir „scanning" hins vegar að skanna með sérstökum skönnunarbúnaði.

[9] Í þessu sambandi er vísað til fyrrimynda í Endurskoðaða Kyoto-samningnum.

[10] Cross Border Research Association f.h. Business Alliance for Safe Commerce, Suður-Ameríku.

Sjá einnig:

Viðurkenndir rekstraraðilar - AEO

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir