Vöruskoðun
Vöruskoðun er afgreiðslueining tollgæslunnar er annast eftirlit og skoðun á ótollafgreiddri vöru.
Tollgæslu er heimilt að skoða og rannsaka allar vörur sem fluttar eru til landsins, hvort sem um er að ræða vörur á farmskrá, póstflutning, farþegaflutning eða annað. Almennt fer slík skoðun fram í vörugeymslum farmflytjanda. Heimilt er að krefjast þess að vörurnar séu fluttar í húsakynni skattsins eða á annan tiltekinn stað þar sem tolleftirlit fer fram og þeim framvísað þar til skoðunar.
Innflytjendum og vörsluhöfum ótollafgreiddrar vöru er skylt að aðstoða við tollskoðun með því að framvísa vöru að beiðni tollgæslu, opna töskur og aðrar umbúðir, taka upp úr þeim, loka þeim aftur að skoðun lokinni og veita alla þá aðstoð og upplýsingar sem leitað er eftir. Sinni innflytjandi eða vörsluhafi ekki skyldu sinni til að aðstoða við tollskoðun er Skattinum heimilt að fela tollvörðum eða öðrum starfsmönnum Skattsins að vinna verkið eða ráða menn til starfsins og innheimta hjá innflytjanda eða vörsluhafa þóknun er nemur kostnaði.