Útreikningur vörugjalda af ökutækjum

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Útreikningur vörugjalda af ökutækjum

Þann 30. nóvember 2018 tóku lög nr. 117/2018 gildi en lögin fela m.a. í sér ýmsar breytingar á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993.

Hér er gerð grein fyrir ýmsum atriðum, sem snerta breytingar á útreikningi vörugjalda af fólksbifreiðum og öðrum vélknúnum ökutækjum, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993. Breytingarnar, sem hér er fjallað um, tóku gildi þann 1. janúar 2019.

Losun koltvísýrings (CO2-gildi) - skráning í ökutækjaskrá Samgöngustofu

Losun koltvísýrings (CO2-gildi), sem skráð er í ökutækjaskrá Samgöngustofu, er mæld skv. tveimur aðferðum. Önnur aðferðin er nefnd evrópska aksturslotan, skammstöfuð sem NEDC, en hin aðferðin er nefnd samræmda prófunaraðferðin, skammstöfuð sem WLTP.

Breytilegt er eftir ökutækjum hvernig losun koltvísýrings (CO2-gildi) er skráð í ökutækjaskrá. Eftirfarandi fjögur gildi eru í ökutækjaskránni en stundum eru fleiri en eitt gildi skráð fyrir sama ökutækið:

 • CO2-gildi (NEDC)
 • Vegið CO2-gildi (NEDC)
 • CO2-gildi (WLTP)
 • Vegið CO2-gildi (WLTP)

Við útreikning vörugjalds er eftirfarandi aðferð notuð til að ákveða CO2-gildið, sem stuðst verður við:

 • Vegið CO2-gildi (NEDC) er notað, sé það til staðar, en annars er...
 • CO2-gildi (NEDC) notað, sé það til staðar, en annars er...
 • Vegið-CO2 gildi (WLTP) notað, sé það til staðar, en annars er...
 • CO2-gildi (WLTP) notað.

Hafa ber hugfast, að aðferðin hér að ofan segir bara til um CO2-gildið, sem nota skal við útreikning vörugjalds. Hér á eftir er svo gerð grein fyrir því hvernig mismunandi skráning á CO2-gildum í ökutækjaskrá hefur áhrif á þær aðferðir, sem notaðar eru við útreikninginn.

Breytingar á tollskrá og heitum vörugjalda 

Fallið var frá því fyrirkomulagi að leggja vörugjald á ökutæki í tíu gjaldbilum. Tollskrárnúmerin og vörugjöldin, sem endurspegla þetta fyrirkomulag, féllu þar með úr gildi, en í staðinn komu ný tollskrárnúmer og 3 ný vörugjöld. 

Nýju vörugjöldin bera kódana N1, N2 og N3. Þau verða „hengd á“ hvert nýju tollskrárnúmeranna. Við útreikning er eitt gjaldanna svo valið í samræmi við skráningu í ökutækjaskrá.

Útreikningur N1, N2 og N3 vörugjalda

Aðferðin við að velja og reikna út N1, N2 og N3 vörugjöldin er þessi:

 • Vörugjaldið N1:
  0,37% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 74 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni.
 • Vörugjaldið N2:
  0,31% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 90 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni.
 • Vörugjaldið N3:
  0,34% á hvert gramm skráðrar koltvísýrings­losunar samkvæmt evrópsku aksturs­lotunni umfram 81 gramm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunar­aðferðinni.

Um N1, N2 og N3 vörugjöldin gildir þó, að þau verða aldrei hærri en 65%  af tollverði ökutækis.

Dæmi um útreikning má sjá í liðum 1 og 2 í sýnishorni af útreikningi vörugjalda.

Undanþágur vegna vörugjalda af leigubifreiðum til fólksflutninga, bifreiðum til ökukennslu og sérútbúnum bifreiðum til fólksflutninga

Sérstakar reglur gilda um útreikning vörugjalds, sem lagt er á leigubifreiðar til fólksflutninga, bifreiðar til ökukennslu og sérútbúnar bifreiðar til fólksflutninga. Um er að ræða undanþágukódana LÖT15, LÖT23, LÖT24 og LÖT29. Sem fyrr skal skrá UND og tilvísun í undanþágukóda í reit 14 á aðflutningsskýrslu.

Byrjað er á að reikna út fullt vörugjald í samræmi við þær aðferðir, sem lýst er hér að framan.

Því næst er vörugjaldið reiknað út skv. þessari undanþáguaðferð:

 • Vörugjaldið N1:
  0,26% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 132 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni.
 • Vörugjaldið N2:
  0,21% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 160 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar hafi losunin einvörðungu verið skráð samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni.
 • Vörugjaldið N3:
  0,24% á hvert gramm skráðrar koltvísýringslosunar umfram 145 grömm á hvern ekinn kílómetra skráðrar koltvísýringslosunar samkvæmt evrópsku aksturslotunni hafi losunin verið skráð samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni.

Upphæð N1, N2 og N3 vörugjalda skv. þessari undanþáguaðferð verður þó aldrei hærri en 30%  af tollverði ökutækis. Þó gildir sú regla, að mismunur á fullu vörugjaldi og reiknuðu vörugjaldi skv. þessari undanþáguaðferð getur aldrei orðið hærri en 1.250.000 krónur.

Dæmi um útreikning má sjá í liðum 3, 4 og 5 í sýnishorni af útreikningi vörugjalda.

Ýmsar aðrar upplýsingar um nýju lögin nr. 117/2018 má finna í tveimur fréttatilkynningum á tollur.is dagana 26.11.2018 og 30.11.2018

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir