Vörugjöld af ökutækjum

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Vörugjöld af ökutækjum

Greiða ber í ríkissjóð vörugjald af skráningarskyldum ökutækjum, jafnt nýjum sem notuðum. Gjaldskyldan nær jafnt til ökutækja sem flutt eru til landsins eða framleidd eru hér á landi, unnið er að eða sett eru saman hér á landi.

1. janúar 2019 tóku gildi nýjar reglur um útreikning vörugjalda af ökutækjum.

Frá sama tíma verður ekki hægt að reikna aðflutningsgjöld með veftollskrá eða reiknivél af ökutækjum sem vörugjöldin N1, N2 og  N3 leggjast á við innflutning.

 

Eftirfarandi ökutæki eru undanþegin vörugjaldi:

 • Dráttarbifreiðar fyrir festivagna og sem aðallega eru gerðar til að draga annað ökutæki, sem eru yfir 5 tonn að heildarþyngd.
 • Ökutæki sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga og eru yfir 5 tonn að heildarþyngd.
 • Vélknúin ökutæki til sérstakra nota, gálgabifreiðar, kranabifreiðar o.fl., sem ekki eru aðallega hönnuð til flutnings á mönnum eða vörum og ekki eru tilgreind annars staðar í þessari grein, að heildarþyngd yfir 5 tonn.
 • Tengivagnar og festivagnar til vöruflutninga sem eru yfir 5 tonn að leyfðri heildarþyngd.
 • Dráttarbifreiðar að heildarþyngd 4 tonn eða meira sem gerðar eru til nota utan þjóðvega.
 • Slökkvibifreiðar og sjúkrabifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum.
 • Sjálfhlaðandi eða sjálflosandi tengivagnar og festivagnar til landbúnaðarnota.
 • Dráttarvélar.
 • Beltabifreiðar (snjóbílar), yfir 700 kg að eigin þyngd, sérstaklega ætlaðar til aksturs í snjó.
 • Haffær ökutæki á hjólum fyrir láð og lög.
 • Ökutæki í eigu erlendra sendiráða, sendiræðisskrifstofa og sendiræðismanna sé slíkt skylt samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Sama gildir um alþjóðasamtök og alþjóðastofnanir sem hér eru.
 • Sérsmíðaðar keppnisbifreiðar og keppnisbifhjól sem eru skráð sem slík og einungis notuð í skipulögðum keppnum og æfingum á vegum samtaka akstursíþróttamanna, svo og til aksturs til og frá slíkum atburðum. Skráningarmerki bifreiðanna og bifhjólanna skulu auðkennd sérstaklega. Ráðherra setur nánari reglur um gerð og útbúnað þeirra, svo og til hvaða atburða akstursheimildin taki. Sé brotið í bága við þær reglur skal vörugjald innheimt að fullu.
 • Bifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum eða fatlaðs fólks sem eru sérstaklega útbúnar fyrir fatlað fólk. Bifreiðarnar skulu búnar hjólastólalyftu eða öðrum sambærilegum búnaði og samþykktar af Sjúkratryggingum Íslands.
 • Ökutæki sem ætluð eru fyrir starfsemi björgunarsveita enda liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita á að viðkomandi ökutæki verði einungis notuð í þágu björgunarsveita.
 • Hópferðabifreiðar sem skráðar eru fyrir 10 manns eða fleiri að meðtöldum ökumanni að leyfðri heildarþyngd 5 tonn eða meira.
 • Bifhjól samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga sem knúin eru af rafhreyfli að öllu leyti.
 • Grindur með hreyfli og ökumannshúsi án vöruflutningarýmis.

 

Greiða ber 13% vörugjald við innflutning eftirtalinna ökutækja:

 • Kranabifreiðar og borkranabifreiðar sem eru 5 tonn eða minna að leyfðri heildarþyngd.
 • Yfirbyggingar, þ.m.t. ökumannshús fyrir vélknúin ökutæki.
 • Tengivagnar og festivagnar til vöruflutninga sem eru 5 tonn eða minna að leyfðri heildarþyngd, aðrir tengi- og festivagnar.
 • Dráttarbifreiðar fyrir festivagna sem aðallega eru gerðar til að draga annað ökutæki að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
 • Vélknúin ökutæki til sérstakra nota, gálgabifreiðar o.fl., sem ekki eru aðallega hönnuð til flutnings á mönnum eða vörum og ekki eru tilgreind annars staðar í þessari grein, að heildarþyngd 5 tonn eða minna.
 • Fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki 40 ára og eldri (fornbílar, fornbifhjól).
 • Sendibifreiðar sem aðallega eru ætlaðar til vöruflutninga undir 5 tonn að leyfðri heildarþyngd, með sambyggt stýrishús og flutningsrými og án farþegasæta í farmrými.
 • Grindur með hreyfli og ökumannshúsi sem búið er að bæta við vöruflutningarými, sbr. q-lið 1. tölul.

 

Greiða ber 30% vörugjald við innflutning eftirtalinna ökutækja:

 • Hópferðabifreiðar sem skráðar eru fyrir 10 manns eða fleiri að meðtöldum ökumanni að leyfðri heildarþyngd 5 tonn eða minna. Sömu ökutæki í eigu hópferða- eða sérleyfishafa eða í fjármögnunarleigu vegna fjármögnunarleigusamnings við hópferða- eða sérleyfishafa skulu bera 5% vörugjald.
 • Bifhjól samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga og jafnframt stigin bifhjól.

 

Sérstakar reglur gilda, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, um vörugjald af:

Aftur upp

Leigubifreiðar

Vörugjald af leigubifreiðum til fólksflutninga skal lagt á samkvæmt undanþáguflokki miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra.

Skilyrði lækkunar vörugjalds af leigubifreiðum eru að kaupandi hennar hafi atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða og hafi akstur hennar að aðalatvinnu.

Lækkun vörugjalds er jafnframt háð því skilyrði að næstu tvö ár eftir nýskráningu bifreiðar verði eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

 • Rétthafi skal hafa atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs, samkvæmt lögum um leigubifreiðar. Skal hann leggja fram vottorð því til staðfestingar í tengslum við umsókn um lækkun vörugjalds.
 • Rétthafi má ekki njóta eftirgjafar vegna annarrar leigubifreiðar á sama tíma.
 • Rétthafi skal hafa í tekjur að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu eins og það er ákvarðað af ráðherra árlega, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, næsta almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt. Að loknum tveimur  árum frá eftirgjöf ber rétthafa að senda Tollstjóra staðfest endurrit af skattskýrslu næsta heila almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt, til staðfestingar á tekjum rétthafa. Berist Tollstjóra ekki framangreint skattframtal skal hann innheimta eftirgefið vörugjald að fullu.
 • Að bifreið verði skráð sem leigubifreið í ökutækjaskrá og nýtt sem slík.

Ef brotið er gegn framangreindum skilyrðum skal Tollstjóri innheimta fullt vörugjald, þ.e. mismun á fjárhæð vörugjalds sem greitt var og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar vörugjalds.

Lögveð er í viðkomandi ökutæki fyrir ógreiddu vörugjaldi. 

Framkvæmd lækkunar

Aftur upp

 

Bifreiðar til ökukennslu

 

Vörugjald af bifreiðum til ökukennslu skal lagt á miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra.

 

Skilyrði fyrir því að bifreið til ökukennslu beri vörugjald samkvæmt framangreindu eru, að næstu tvö ár eftir nýskráningu bifreiðar verði eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

 1. Rétthafi skal hafa hlotið löggildingu sem ökukennari, samkvæmt reglugerð um löggildingu ökukennara og starfsleyfi ökuskóla og hafi akstur bifreiðarinnar að aðalatvinnu. Skal hann leggja fram vottorð því til staðfestingar í tengslum við umsókn um lækkun vörugjalds.
 2. Rétthafi má ekki njóta eftirgjafar vegna annarrar bifreiðar til ökukennslu á sama tíma.
 3. Rétthafi skal hafa í tekjur að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu eins og það er ákvarðað af ráðherra árlega, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, næsta almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt. Að loknum tveimur  árum frá eftirgjöf ber rétthafa að senda Tollstjóra staðfest endurrit af skattskýrslu næsta heila almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt, til staðfestingar á tekjum rétthafa. Berist Tollstjóra ekki framangreint skattframtal skal hann innheimta eftirgefið vörugjald að fullu.
 4. Að bifreið verði skráð sem bifreið til ökukennslu í ökutækjaskrá og nýtt sem slík.

Ef brotið er gegn framangreindum skilyrðum skal Tollstjóri innheimta fullt vörugjald, þ.e. mismun á fjárhæð vörugjalds sem greitt var og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar vörugjalds.

Lögveð er í viðkomandi ökutæki fyrir ógreiddu vörugjaldi. 

Ökuskólar geta jafnframt notið lækkunar samkvæmt framangreindu.

lækkun vörugjalds af bifreiðum til ökukennslu í eigu ökuskóla er háð því skilyrði að næstu tvö ár eftir nýskráningu bifreiðar verði nýting hennar og starfsemi ökuskóla hagað sem hér segir:

 1. Bifreið skal skráð á ökuskóla sem hefur starfsleyfi frá Samgöngustofu. Ökuskólar skulu haga starfsemi sinni að öllu leyti í samræmi við reglugerð um löggildingu ökukennara og starfsleyfi ökuskóla.
 2. Bifreið skal skráð sem bifreið til ökukennslu og tryggð sem slík.
 3. Bifreiðin skal eingöngu nýtt til ökukennslu hjá viðkomandi skóla. Við mat á því skal miðað við að unnt sé að gera grein fyrir a.m.k. 80% af akstri hennar með framlagningu akstursdagbókar eða með öðrum hætti sem Tollstjóri metur fullnægjandi.
 4. Ökuskóli skal haga bókhaldi sínu með þeim hætti að hann geti á hverjum tíma gert grein fyrir akstri bifreiðar. Tollstjóri getur án fyrirvara óskað eftir gögnum þar um.

Ef brotið er gegn framangreindum skilyrðum skal Tollstjóri innheimta fullt vörugjald, þ.e. mismun á fjárhæð vörugjalds sem greitt var og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar vörugjalds.

Lögveð er í viðkomandi ökutæki fyrir ógreiddu vörugjaldi. 

Vakin er athygli á því að ökuskóli skal haga skráningu á akstri bifreiðar sem nýtur lægra vörugjalds þannig að á hverjum tíma sé unnt að gera grein fyrir akstri bifreiðarinnar í þágu ökukennslu. Tollstjóri getur án fyrirvara óskað eftir gögnum þar um. Sé bifreið notuð til annars er Tollstjóra heimilt að innheimta fullt vörugjald  með 50% álagi.

Gerist aðili brotlegur við framangreind skilyrði varðar það missi réttar til lækkunar á vörugjaldi í þrjú ár frá síðasta broti.

Framkvæmd lækkunar

Aftur upp

Sérútbúnar bifreiðar til fólksflutninga

Vörugjald af sérútbúnum bifreiðum til fólksflutninga skal lagt á miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra.

Skilyrði fyrir því að bifreið sem er sérútbúin til fólksflutninga beri vörugjald samkvæmt þessum reglum eru að kaupandi hennar hafi leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða skv. 10. gr. laga nr. 73/2001, um fólksflutninga og farmflutninga á landi, jafnframt að bifreiðin sé eingöngu notuð í tengslum við þjónustu við ferðamenn.

Bifreið sem er sérútbúin til fólksflutninga og ber vörugjöld samkvæmt þessum tölulið skal auðkenna með sérstökum hætti í ökutækjaskrá og skal hún bera sérstök skráningarmerki og skal útlit þeirra tilgreint nánar í reglugerð um skráningu ökutækja.

Framkvæmd lækkunar

Aftur upp

  

Rafmagns- vetnis og tengiltvinnbifreiðar

Tollstjóra er heimilt að fella niður virðisaukaskatt af rafmagns- og vetnisbifreiðum, þó að hámarki kr. 1.440.000 og kr. 960.000 af tengiltvinnbifreiðum, að því skilyrði gefnu að ökutækið sé skilgreint í ökutækjaflokka L6e, L7e, M1, M1g, M2 og/eða M3, undirflokka I, II og/eða III, og N1 skv. reglugerð 822/2004 um gerð og búnað ökutækja. Þá er það einnig skilyrði fyrir tengiltvinnbifreiðar að skráð losun á koltvísýringi sé 50 g eða minna á hvern ekinn kílómetra. Ökutækið skal vera þriggja ára eða yngra á innflutningsdegi og söludegi miðað við fyrstu skráningu. 

Þrjár nýjar undanþáguheimildir tóku gildi 1. janúar 2018

Viðeigandi undanþágukóða þarf að skrá í reit 14 á tollskýrslu við innflutning:

 • VSKRA fyrir rafmagnsbifreiðar
 • VSKVE fyrir vetnisbifreiðar
 • VSKTE fyrir tengiltvinnbifreiðar

Heimild þessi gildir til 31. desember 2020 eða þar til 10.000 ökutæki hafa verið skráð í hverjum flokki fyrir sig.

Rafmagnsbílar og aðrir vistvænir bílar greiða jafnframt lægra vörugjald en önnur ökutæki með meiri koltvísýring í útblæstri, líkt og sjá má í þessari töflu.

 

Sjá einng: Lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988 með síðari breytingum.

Framkvæmd lækkunar


Metangasbifreiðar

Tollstjóra er heimilt að fella niður vörugjald af nýju og ónotuðu ökutæki að hámarki 1.250.000 kr. sé ökutækinu breytt fyrir nýskráningu þannig að það nýti metan í stað bensíns eða dísilolíu og breytingin sé staðfest og vottuð í skráningarskoðun ökutækisins.

Til þess að ökutæki geti notið lækkaðs vörugjalds skal það vera útbúið að lágmarki 78 lítra metangeymi. Umsókninni skulu fylgja upplýsingar sem tollstjóri metur fullnægjandi til staðfestingar því að vél ökutækis sé að verulegu leyti knúin metangasi eða rafmagni.

Óheimilt er að fjarlægja eða gera breytingarbúnað ökutækis óvirkan innan fimm ára frá nýskráningu.

Framkvæmd lækkunar

Aftur upp

Sérsmíðaðar bifreiðar til akstursíþrótta

 Vörugjald skal falla niður af sérsmíðuðum bifreiðum til keppni í rallakstri, sem skráðar eru sem slíkar, ökutækjum sem ekki eru skráningarskyld og sérsmíðuð eru til nota í kvartmílukeppni og torfærugrindum til nota í torfærukeppni. 

Niðurfelling vörugjalds er háð því skilyrði að næstu sjö ár eftir nýskráningu bifreiðar verði eftirfarandi skilyrði uppfyllt:

 1. Ökutæki skal ætlað til og einungis notað í aksturskeppnum sem haldnar eru í samræmi við reglur um akstursíþróttir og aksturskeppni og haldnar eru á ábyrgð og samkvæmt reglum samtaka um akstursíþróttir, þ.e. skipulagsbundinna samtaka sem hafa akstursíþróttir á verkefnaskrá sinni og hlotið hafa til þess viðurkenningu innanríkisráðuneytisins.
 2. Við umsókn um niðurfellingu vörugjalds skal lagt fram vottorð frá framleiðanda bifreiðar ásamt rökstuddri yfirlýsingu samtaka um akstursíþróttir um að um sé að ræða sérsmíðaða keppnisbifreið til aksturskeppni í viðkomandi keppnisgrein. Ef ökutæki er ekki skráningarskylt skal leggja fram vottorð um það frá skráningarstofu ökutækja. Við mat á því hvort ökutæki sé sérsmíðað ökutæki til keppni í viðkomandi keppnisgrein skal m.a. litið til þess hvort ökutækið uppfylli þær kröfur sem samtök um akstursíþróttir gera til keppnisbifreiða. Varðandi sérsmíðaðar bifreiðar til keppni í rallakstri skal jafnframt litið til þess hvort bifreiðin uppfylli kröfur sem gerðar eru varðandi skráningu samkvæmt reglugerð um skráningu ökutækja.
 3. Ef um sérsmíðaða bifreið til rallaksturs er að ræða skal hún skráð sem slík í ökutækjaskrá, samkvæmt reglugerð um skráningu ökutækja. Skráningarnúmer skulu vera í samræmi við ákvæði sömu reglugerðar.
 4. Ökutækjum sem njóta niðurfellingar samkvæmt þessari grein er óheimilt að aka á vegum. Þó er heimilt að aka sérsmíðuðum rallbifreiðum á vegum vegna þátttöku í rallaksturskeppnum samkvæmt reglum um akstursíþróttir og aksturskeppni og til æfingaaksturs samkvæmt sömu reglum.

Ef brotið er gegn framangreindum skilyrðum skal Tollstjóri innheimta fullt vörugjald, þ.e. mismun á fjárhæð vörugjalds sem greitt var og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar vörugjalds.

Lögveð er í viðkomandi ökutæki fyrir ógreiddu vörugjaldi. 

Framkvæmd lækkunar

Aftur upp

 


 

Framkvæmd lækkunar eða niðurfellingar vörugjalds af ökutækjum

Umsókn um lækkun eða niðurfellingu vörugjalds skal beint til Tollstjóra.

Sá sem sækir um niðurfellingu eða lækkun skal undirrita yfirlýsingu þar sem fram kemur að hann skuldbindi sig til að hlíta þeim skilyrðum sem sett eru í ákvæðum um nýtingu ökutækis o.fl. Með undirritun yfirlýsingar skuldbindur aðili sig til greiðslu ógreidds vörugjalds verði brotið gegn fyrrgreindum skilyrðum og staðfestir vitneskju þess efnis að lögveð sé í viðkomandi ökutæki fyrir ógreiddu vörugjaldi.

Sé skráður eigandi ökutækis eignarleiga skal hún jafnframt staðfesta vitneskju um fyrrgreind skilyrði og lögveð vegna vangoldins vörugjalds ef skilyrði eru ekki uppfyllt.

Eignarleigufyrirtæki sem hyggst nýta rétt til niðurfellingar vörugjalds skal afhenda tollstjóra undirritaða yfirlýsingu um að fyrirtækinu sé kunnugt um framangreind skilyrði um nýtingu ökutækis svo og skyldu fyrirtækisins til greiðslu á hluta eftirgefins vörugjalds verði ökutækið tekið til annarra nota.

Tilgreina skal í ökutækjaskrá ef vörugjald hefur verið lækkað í samræmi við framangreint. Óheimilt er að umskrá ökutæki sem tilgreint hefur verið með slíkum hætti fyrr en að fenginni heimild tollstjóra.

Ekki skal lækka eða fella niður vörugjald samkvæmt framangreindu nema sótt sé um eftirgjöf fyrir nýskráningu eða í beinum tengslum við hana.
 
Heimilt er að selja ökutæki sem notið hefur lækkunar vörugjalds samkvæmt framangreindu, enda greiði sá sem notið hefur lækkunar, hluta eftirgefins vörugjalds, í réttu hlutfalli við þann tíma sem eftir er miðað við heildartíma kvaðar. 

Jafnframt er heimilt að taka ökutækið til annarrar notkunar en lá til grundvallar lækkunar, innan tilgreindra tímamarka, enda greiði sá sem notið hefur lækkunar, hluta eftirgefins vörugjalds, í réttu hlutfalli við þann tíma sem eftir er miðað við heildartíma kvaðar.

Lög og reglur

Lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.nr. 29/1993

Lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988

Reglugerð um vörugjald af ökutækjum nr. 331/2000

 

 

Eyðublöð

TS-V04 - Umsókn og yfirlýsing vegna eftirgjafar vörugjalds af ökutækis - lesið leiðbeiningar áður en umsókn er fyllt út. 

Notið þetta eyðublað ef sótt er um samkvæmt ákvæðum og skilyrðum um eftirgjöf vörugjalda í II. kafla laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og V. kafla reglugerðar 331/2000, með síðari breytingum.

TS-E20 - Umsókn um endurgreiðslu aðflutningsgjalda - lesið leiðbeiningar áður en umsókn er fyllt út.

Eyðublaðið er notað m.a. þegar sótt er um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna kaupa á ökutækjum slökkviliða.

TS-V01 - Tilkynning um vörugjaldsskylda starfsemi vegna aðvinnslu og framleiðslu ökutækja

TS-V03 - Vörugjaldsskýrsla vegna aðvinnslu eða framleiðslu ökutækis

 

Vistið eyðublaðið á tölvuna og notið Adobe Reader forritið til að fylla það út.

Nánari upplýsingar um notkun eyðublaðanna

 

Sjá einnig frétt um lagabreytingar um áramót 2017/2018 sem varða bifreiðar og önnur ökutæki.

 

Síðast uppfært eða breytt apríl 2019

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Tollstjóra. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?
Ef óskað er eftir svari vinsamlega notið: Hafðu samband eða Hrós, ábendingar og kvartanir