Tilkynning nr. 2/2003 um fríverslunarsamninga

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tilkynning nr. 2/2003 um fríverslunarsamninga

04.04.2003

Vakin er athygli á að eftirtaldir fríverslunarsamningar hafa tekið gildi:

  1. Fríverslunarsamningar á milli EFTA – ríkja og Singapúr
     
    Gildistaka
    Þann 1. janúar 2003 tók gildi fríverslunarsamningur milli EFTA – ríkja og Singapúr. 
     
    Helstu ákvæði
    Samningurinn er fyrsti fríverslunarsamningurinn milli Evrópulanda og Austur-Asíulands.  Í II. kafla samningsins er að finna reglur um vöruviðskipti milli ríkjanna. 
     
    Ákvæði kaflans taka til:
    • framleiðsluvara sem heyra undir 25. - 97.  kafla í samræmdri vörulýsingar- og vöruheitaskrá (ST); 
    • framleiðsluvara sem tilgreindar eru í III. viðauka (unnar landbúnaðarafurðir), að teknu  viðeigandi tilliti til fyrirkomulags þess sem kveðið er á um í þeim viðauka; 
    • fisks og annarra  sjávarafurða eins og kveðið er á um í IV. viðauka; 

    Þá hafa Singapúr og hvert einstakt EFTA-ríki gert með sér tvíhliða samninga um viðskipti með landbúnaðarafurðir. Þeir samningar eru hluti af  gerningum um myndun fríverslunarsvæðis EFTA-ríkjanna og Singapúr.
     
    Í 7. og 8. gr. samningsins og I. viðauka við hann er að finna upprunareglur auk ákvæðis um tolla.  Upprunareglur sem veita fríðindi eiga við um 8., 16. og 17. gr. samningsins.  Upprunareglur, sem veita ekki fríðindi, eiga við um aðrar greinar II. kafla.  Samningsaðilar skulu, við gildistöku samningsins, afnema alla tolla á innflutning og útflutning framleiðsluvara sem eru upprunnar í EFTA-ríki eða Singapúr, annarra en framleiðsluvara í V.  viðauka. Óheimilt er að leggja á slíka tolla á  nýjan leik.  Þó er samningsaðilum heimilt að leggja tiltekið gjald á innflutning eða útflutning framleiðsluvöru undir vissum kringumstæðum eins og nánar er greint í samningnum.  Ákvæði 9. gr. samningsins tekur á takmörkunum á innflutningi og útflutningi.  Við gildistöku samningsins skal afnema hvers konar bann eða takmarkanir á  innflutningi eða útflutningi framleiðsluvara í viðskiptum milli EFTA-ríkjanna og Singapúr, önnur en tolla  og skatta, hvort sem um er að ræða kvóta, innflutnings- eða útflutningsleyfi eða aðrar ráðstafanir.
     
    Samningurinn er að mestu leyti hliðstæður öðrum fríverslunarsamningum sem EFTA-ríkin hafa gert og fjalla m.a. um meðferð tolla og samsvarandi gjalda, upprunareglur og samvinnu um tollaframkvæmd, tæknilegar reglugerðir, greiðslur og yfirfærslur.  Sannanir um uppruna vöru eru einungis í formi yfirlýsingar um uppruna með samskonar texta og skv. öðrum samningum. Ekki eru gefin út Eur.1 flutningsskírteini. Yfirlýsing um uppruna skal gerð á ensku, vera auðlesin og með varanlegu sniði, og á henni skal vera upprunaleg undirskrift útflytjandans. 
     
    Ef vara getur notið fríðindameðferðar og óska á eftir slíkri meðferð samkvæmt framangreindum samningi skal slík meðferð gefin til kynna með því að rita lykilinn T, fremst í reit 33 (tegund gjalda) á aðflutningsskýrslu (E-1) eða við SMT/VEF-tollafgreiðslu (sending upplýsinga úr tollskýrslu milli tölva).  Í reiti 8 og 34 skal tilgreina landlykilinn SG (Singapúr) eftir því sem við á.  Í reit 14 skal tilgreina EUR YFIRLÝS.  Með gildistöku samningsins leggst T tollur á öll tollskrárnúmer 25.-97. kafla tollskrár sem bera E toll.
     

  2. Fríverslunarsamningar á milli EFTA – ríkja og Makedóníu
     
    Gildistaka
    Þann 1. ágúst 2002 tók gildi fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna við Makedóníu, ásamt tvíhliða samningi Íslands við Makedóníu um viðskipti með landbúnaðarafurðir.
     
    Helstu ákvæði
    Samningurinn tekur til:
    • a)      framleiðsluvara sem heyra undir 25. – 97. kafla í samræmdu vörulýsingar og vöruheitaskránni (ST), að undanskyldum þeim vörum sem skráðir eru í I. viðauka;
    • b)      framleiðsluvara sem tilgreindar eru í bókun A, að teknu viðeigandi tilliti til fyrirkomulags þess sem kveðið er á um í þeirri bókun;
    • fisks og annarra sjávarafurða eins og kveðið er á um í II. viðauka;

    sem upprunnar eru í EFTA-ríki eða í Makedóníu.
     
    Makedónía og hvert einstakt EFTA-ríki hafa gert með sér tvíhliða samninga um viðskipti með landbúnaðarafurðir.  Þessir samningar eru hluti af gerningum um myndun fríverslunarsvæðis EFTA-ríkjanna og Makedóníu.
     
    Sjá nánar í C-deild Stjórnartíðinda.
      
  3. Fríverslunarsamningar á milli EFTA – ríkja og Króatíu
     
    Gildistaka
    Þann 1. ágúst 2002 tók gildi fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna við Króatíu, ásamt tvíhliða samningi Íslands við Króatíu um viðskipti með landbúnaðarafurðir.
     
    Helstu ákvæði
     
    Samningurinn tekur til:
    • framleiðsluvara sem heyra undir 25. – 97. kafla í samræmdu vörulýsingar- og vöruheitaskránni (ST), að undanskildum þeim vörum sem skráðar eru í I. viðauka;
    • fisks og annarra sjávarafurða eins og kveðið er á um í II. viðauka;

    sem upprunnar eru í EFTA-ríki eða í Króatíu.
     
    Króatía og hvert einstakt EFTA-ríki hafa gert með sér tvíhliða samninga um viðskipti með landbúnaðarafurðir.  Þessir samningar eru hluti af gerningum um myndun fríverslunarsvæðis EFTA-ríkjanna og Króatíu.
     

  4. Fríverslunarsamningur milli EFTA – ríkja og Jórdaníu
     
    Gildistaka
    Þann 1. júlí 2002 tók gildi fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna við Jórdaníu, ásamt tvíhliða samningi Íslands við Jórdaníu um viðskipti með landbúnaðarafurðir.  
     
    Helstu ákvæði
     
    Samningurinn tekur til:
     
    • framleiðsluvara sem heyra undir 25. – 97. kafla í samræmdu vörulýsingar- og vöruheitaskránni (ST), að undanskildum þeim vörum sem skráðar eru í I. viðauka;
    • framleiðsluvara sem tilgreindar eru í bókun A, að teknu viðeigandi tilliti til fyrirkomulags þess sem kveðið er á um í þeirri bókun;
    • fisks og annarra sjávarafurða eins og kveðið er á um í II. viðauka; 
       

    sem upprunnar eru í EFTA-ríki eða Jórdaníu.
     
    Jórdanía og hvert einstakt EFTA-ríki hafa gert með sér tvíhliða samninga um viðskipti með landbúnaðarafurðir.  Þessir samningar eru hluti af gerningum um myndun fríverslunarsvæðis EFTA-ríkjanna og Jórdaníu.
     

  5. Almennt um samningana
     
    Samningarnir fela í sér að frá og með gildistöku þeirra fella EFTA-ríkin, Makedónía, Jórdanía og Króatía niður alla innflutningstolla og gjöld á iðnaðarvörum sem upprunnar eru í aðildarríkjum þeirra.  Samningarnir eru hliðstæðir öðrum fríverslunarsamningum sem EFTA-ríkin hafa gert og fjalla m.a. um meðferð tolla og samsvarandi gjalda, upprunareglur og samvinnu um tollaframkvæmd, tæknilegar reglugerðir, greiðslur og yfirfærslur.  
     
    Ef vara getur notið fríðindameðferðar og óska á eftir slíkri meðferð samkvæmt framangreindum samningum skal slík meðferð gefin til kynna með því að rita lykilinn Q fyrir Makedóníu, R fyrir Króatíu og S fyrir Jórdaníu, fremst í reit 33 (tegund gjalda) á aðflutningsskýrslu (E-1) eða við SMT/VEF-tollafgreiðslu (sending upplýsinga úr tollskýrslu milli tölva).  Í reiti 8 og 34 skal tilgreina landlyklana MK (Makedónía), JO (Jórdanía) og HR (Króatía) eftir því sem við á.  Í reit 14 skal tilgreina númer EUR-1 flutningsskírteinis.
     
    Gerðar hafa verið nauðsynlegar breytingar á tölvukerfi tollyfirvalda til þess að hrinda samningunum í framkvæmd.  
     
    Um frekari lesingu varðandi samningana og bókanir vísast m.a. til þingsályktunartillagna á heimasíðu Alþings, veffang www.althingi.is. Auk þess er samningana ásamt viðaukum og bókunum við þá, sem varða tollamál, að finna á heimasíðu tollstjórans í Reykjavík, veffang www.tollur.is. Þá eru samningarnir birtir í heild sinni á heimasíðu utanríkisráðuneytisins, veffang www.utn.stjr.is.  Á heimasíðu Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, eru birtir ýmsir fríverslunarsamnngar á ensku, m.a. samningar EFTA-ríkjanna við umrædd ríki, en veffang EFTA er www.efta.int. Tekið skal fram að samningstexti birtur í Stjórnartíðindum gildir framar vefútgáfu.
     
    Sjá nánar C-deild Stjórnartíðinda.

 

4. apríl 2003

Tollstjórinn í Reykjavík
 

Til baka