Tilkynning nr. 6/2003 um breytingar á sviði tollamála

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tilkynning nr. 6/2003 um breytingar á sviði tollamála

08.08.2003

Vakin er athygli á eftirtöldum breytingum sem orðið hafa á sviði tollamála:

 1. Bráðabirgðalög um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, lögum um innflutning dýra og lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim
   
  Gildistaka
  Þann 1. júlí sl. tóku gildi bráðabirgðalög nr. 103/2003 um breytingu á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim með síðari breytingum
   
  Helstu ákvæði
  Breyting á lögum um lax- og silungsveiði
   
  Fellt er niður bann við innflutningi á lifandi laxfiski eða öðrum fiski, sem lifir í ósöltu vatni, til landsins, sbr. 79. gr. laganna.  Er slíkur innflutningur nú heimilaður enda uppfylli hann skilyrði reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur.
   
  Breyting á lögum um innflutning dýra með síðari breytingum
  Þrátt fyrir innflutningsbann á hvers konar dýrum, tömdum eða villtum, svo og erfðaefni þeirra, er eftir breytinguna heimilt að flytja til landsins lifandi fisk, krabbadýr eða lindýr frá eldisstöð, óháð þroskastigi, að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð til eldis í eldisstöð, enda skal innflutningurinn háður skilyrðum reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur.  Við innflutning skal framvísa skriflegri staðfestingu yfirdýralæknis á að uppfyllt séu skilyrði samkvæmt ákvæðinu.

  Breyting á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim
  Breyting er gerð á 8. gr. laganna varðandi heimildir yfirdýralæknis til ráðstafana gegn útbreiðslu dýrasjúkdóma, þess efnis að nýir stafliðir bætast við í upptalningu varðandi bann við innflutningi eða útflutningi.  Þá er gert ráð fyrir heimild landbúnaðarráðherra til að takmarka eða banna inn- og útflutning tiltekinna dýra og setningar reglugerðar.
   
  Sjá nánar A-deild Stjórnartíðinda.
   
 2. Reglugerð um dýraheilbrigðiseftirlit með innflutningi eldisdýra
   
  Gildistaka
  Þann 21. júlí sl. tók gildi reglugerð nr. 525/2003 um dýraheilbrigðiseftirlit með innflutningi eldisdýra.  Reglugerðin gildir um dýraheilbrigðiseftirlit við innflutning eldisdýra, þ.m.t. hrogna og svilja innan Evrópska efnahagssvæðisins og við innflutning eldisdýra frá þriðju ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
   
  Helstu ákvæði 
  Innflutningur frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
   
  Við flutning frá upprunastað skal fylgja eldisdýrum flutningsskýrsla og heilbrigðisvottorð áritað af opinberum eftirlitsaðila.  Óheimilt er að senda hingað til lands eldisdýr sem eru upprunnin af eldisstöð sem kann að þurfa að slátra dýrum samkvæmt innlendri áætlun um útrýmingu sjúkdóma samkvæmt reglum EES eða eldisdýr sem ekki er unnt að markaðssetja á upprunastað af ástæðum sem tengjast heilbrigði manna og dýra.
   
  Ef eldisdýr eiga að fara á fleiri en einn viðtökustað skal flokka þau niður í jafnmargar sendingar og viðtökustaðirnir eru. Hverri sendingu skulu fylgja viðeigandi vottorð og skjöl.
   
  Flutningur til þriðja ríkis um yfirráðasvæði innan Evrópska efnahagssvæðisins.
  Ef eldisdýr eru ætluð til útflutnings til þriðja ríkis um yfirráðasvæði annars aðildarríkis verður flutningurinn að vera undir eftirliti tollyfirvalda að þeim stað þar sem tollsvæði EES endar nema í bráðatilvikum sem tilskilin leyfi hafa fengist fyrir hjá lögbæru yfirvaldi til að tryggja velferð dýranna.
   
  Rannsókna- og tilkynningaskylda viðtakanda.
  Viðtakandi eldisdýra frá ríkjum innan EES skal ganga úr skugga um að samræmi sé á milli þeirra og meðfylgjandi flutningsskýrslu og annarra skjala áður en þau eru flutt á viðtökustað.  Komi fram misræmi skal tilkynna það yfirdýralækni án tafar.
   
  Varðveita skal flutningsskýrslur, heilbrigðisvottorð og önnur skjöl þeim viðkomandi í eitt ár svo að unnt sé að framvísa þeim að kröfu yfirdýralæknis.
   
  Innflutningur frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
   
  Viðurkennd ríki.
   
  Innflutningur lifandi eldisdýra frá ríkjum utan EES er því aðeins heimill að viðkomandi þriðja ríki sé á skrá Evrópusambandsins yfir viðurkennd ríki.
   
  Tilkynningaskylda.
   
  Innflytjandi lifandi eldisdýra frá þriðja ríki skal tilkynna yfirdýralækni með a.m.k. 24 klst. fyrirvara um komu sendingar til landsins frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Tilkynning skal vera í fjórum eintökum, frumriti og þremur afritum og fá tollyfirvöld eitt afrit en hin þrjú skulu afhent yfirdýralækni eða fulltrúa hans.
   
  Sé áformað að flytja eldisdýr á milli flutningstækja hér á landi á leið til annars ríkis innan EES eða þriðja ríkis utan EES skal það tilkynnt yfirdýralækni með sama hætti.
   
  Öllum eldisdýrum eða sendingum skal fylgja frumrit heilbrigðisvottorðs og annarra skjala sem krafist er svo og upplýsingar um tryggingar sem settar hafa verið fyrir kostnaði sem fallið getur á sendinguna.
   
  Eftirlit við innflutning.
  Lifandi eldisdýr skulu flutt beint á landamærastöðina á Keflavíkurflugvelli við innflutning og skal allt eftirlit samkvæmt reglugerðinni fara fram í þeirri landamærastöð. 
   
  Staðfesting eftirlitsaðila og leyfi til innflutnings.
  Yfirdýralæknir gefur út leyfi til innflutningsins. Frumrit skjalsins skal fylgja eldisdýrunum á meðan þau eru undir tolleftirliti eða þar til þau komast til ákvörðunarstaðar. Innflytjanda skal afhent afrit af skjalinu og skal annað afrit varðveitt á landamærastöð í þrjú ár hið minnsta. Sé sendingu skipt í fleiri hluta skal yfirdýralæknir gefa út staðfestingu fyrir hverja einstaka hluta sendingarinnar.
   
  Innflutningur skal því aðeins leyfður að fram komi í staðfestingu yfirdýralæknis að eldisdýrin hafi staðist eftirlit og aðeins í samræmi við þær kröfur sem fram koma í staðfestingu yfirdýralæknis.
   
  Yfirdýralæknir skal afhenda innflytjanda afrit af heilbrigðisvottorði og öðrum skjölum er fylgdu eldisdýrunum en frumritin skulu varðveitt á landamærastöð í þrjú ár hið minnsta.
   
  Flutningur til eldisstöðvar.
  Innflutt eldisdýr frá þriðju ríkjum skulu að fenginni staðfestingu yfirdýralæknis flutt beint á viðtökueldisstöð eftir atvikum undir eftirliti yfirdýralæknis eða fulltrúa hans.
   
  Sjá nánar B-deild stjórnartíðinda.
   
 3. Reglugerð um skilyrði á sviði dýraheilbrigðis vegna inn- og útflutnings eldisdýra og afurða þeirra
   
  Gildistaka
  Þann 21. júlí sl. tók gildi reglugerð nr. 526/2003, um skilyrði á sviði dýraheilbrigðis vegna inn- og útflutnings eldisdýra og afurða þeirra.  Frá og með gildistöku reglugerðarinnar féll úr gildi reglugerð nr. 484/2003, sama efnis, með síðari breytingum.
   
  Helstu ákvæði 
  Tilgangur reglugerðarinnar er að hindra útbreiðslu smitsjúkdóma í eldisdýrum við markaðssetningu lifandi eldisdýra og eldisafurða.
   
  Reglugerðin gildir um markaðssetningu innan Evrópska efnahagssvæðisins og innflutning frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins á eldisdýrum og afurðum þeirra. Með reglugerðinni er kveðið nánar á um þær heilbrigðiskröfur sem gerðar eru við markaðssetningu á eldisdýrum og afurðum þeirra.
   
  Innflytjandi skal tilkynna yfirdýralækni með 24 klst. fyrirvara um fyrirhugaðan innflutning (markaðssetningu) eldisdýra og afurða þeirra.
   
  Heilbrigðisvottorð frá opinberum eftirlitsaðila skal fylgja hverri vörusendingu af lifandi eldisdýrum, hrognum og sviljum, nema annað sé ákveðið í reglugerðinni. Hver vörusending skal greinilega auðkennd svo að unnt sé að rekja hana til baka til upprunaeldisstöðvarinnar og sannreyna, eftir því sem við á, tengsl dýranna eða afurðanna við upplýsingarnar sem fram koma á meðfylgjandi flutningsskýrslu og heilbrigðisvottorði. Eyðublöð fyrir flutningsskýrslur skulu vera rituð á tungumáli sendingarríkis og viðtökuríkis.
   
  Um eldisdýr, eldisafurðir, villt lifandi veidd lindýr og krabbadýr til manneldis vísast nánar til 11. gr. reglugerðarinnar.  Þó skal það áréttað að við útflutning óslægðs atlantshafslax, sjóbirtings og regnbogasilungs með uppruna á Íslandi skal framleiðslan ekki koma frá eldisstöð með takmarkanir vegna rökstudds gruns eða staðfests tilviks um blóðþorra (ISA). Slíkur útflutningur skal heldur ekki eiga sér stað frá svæði sem liggur innan eftirlitssvæðis vegna blóðþorra (ISA), sbr. reglugerð nr. 665/2001 um viðbrögð við smitsjúkdómum.
   
  Um viðbótarkröfur vegna innflutnings eldisdýra og afurða þeirra frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins vísast til 13. gr. reglugerðarinnar.  Lifandi eldisdýr og afurðir þeirra má flytja inn frá löndum utan EES, ef viðkomandi land eða landsvæði er talið upp á sérstakri skrá Evrópusambandsins yfir viðurkennd lönd. 
   
  Vottorð útgefið af opinberum eftirlitsaðila í þriðja landi skal fylgja lifandi eldisdýrum og afurðum þeirra sem flutt eru inn til landsins ritað á sérstök eyðublöð sem yfirdýralæknir gefur út og uppfylla eftirtalin skilyrði: a) vera útgefið þann dag sem vörusendingin er afhent til afgreiðslu hér á landi, b) fylgja vörusendingunni í frumriti, c) staðfesta að eldisdýrin og tilteknar afurðir uppfylli kröfur þessarar reglugerðar og þær sem settar eru í tengslum við hana vegna innflutningsins, d) gilda í 10 daga, e) vera ein pappírsörk og f) vera gert fyrir einn viðtakanda.
   
  Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
   
 4. Auglýsing um öryggisráðstafanir vegna innflutnings sjávarafurða frá Myanmar, Tælandi og Víetnam
   
  Gildistaka
  Þann 7. júlí sl. tók gildi auglýsing nr. 496/2003 um breytingar á auglýsingu nr. 341/2002, um öryggisráðstafanir vegna innflutnings sjávarafurða frá Myanmar, Tælandi og Víetnam.
   
  Helstu ákvæði 
  Samkvæmt auglýsingunni er af heilbrigðisástæðum bannað að flytja inn rækju frá Tælandi sem nota á til manneldis, ef heilbrigðisvottorð sendingarinnar er gefið út fyrir 21. september 2002.
   
 5. Auglýsing um öryggisráðstafanir vegna innflutnings á sjávar- og fiskeldisafurðum frá Kína
   
  Gildistaka 
  Þann 7. júlí sl. tók gildi auglýsing nr. 497/2003 um breytingar á auglýsingu nr. 83/2003, um öryggisráðstafanir vegna innflutnings á sjávar- og fiskeldisafurðum frá Kína.
   
  Helstu ákvæði 
  Samkvæmt auglýsingunum er heimilt að flytja inn flök af laxi af tegundinni salmon salar.
   
 6. Auglýsing um öryggisráðstafanir vegna innflutnings á óslægðum  laxfiski frá Færeyjum og Noregi
   
  Gildistaka
  Þann 7. júlí sl. tók gildi auglýsing nr. 495/2003, um öryggisráðstafanir vegna innflutnings á óslægðum laxfiski frá Færeyjum og Noregi.
   
  Helstu ákvæði 
  Samkvæmt auglýsingunni er af heilbrigðisástæðum óheimilt að flytja inn óslægðan lax, sjóbirting og regnbogasilung frá Færeyjum og Noregi.
   
 7. Auglýsing um takmörkun á innflutningi á sterkum chílepipar og afurðum úr honum
   
  Gildistaka
  Þann 7. júlí sl. tók gildi auglýsing nr. 491/2003, um takmörkun á innflutningi á sterkum chílepipar og afurðum úr honum.  Auglýsingin gildir um innflutning á þurrkuðum, gróf- og/eða fínmöluðum sterkum chílepipar af ættinni Capsicum og afurðum úr honum sem ætlaðar eru til manneldis.
   
  Helstu ákvæði 
  Auglýsingunni er ætlað að tryggja að matvæli sem um getur og innihalda litarefnið Sudan 1 séu ekki í dreifingu hér á landi.  Óheimilt er að flytja til landsins þurrkaðan, gróf- eða fínmalaðan sterkan chílepipar af ættinni Capsicum eða afurðir úr honum sem falla undir tollskrárnúmerin 0904.1200 og/eða 0904.2009, nema með leyfi Umhverfisstofnunar.
   
 8. Auglýsing um lista yfir viðurkennd ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem heimilt er að flytja inn sjávarafurðir, afurðir vatna- og eldisfiska frá
   
  Gildistaka 
  Þann 7. júlí sl. tók gildi auglýsing nr. 490/2003, um lista yfir viðurkennd ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem heimilt er að flytja inn sjávarafurðir, afurðir vatna- og eldisfiska frá.
   
  Helstu ákvæði 
  Aðeins er heimilt að flytja inn sjávarafurðir frá viðurkenndum ríkjum samkvæmt auglýsingunni.
   
  Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
   
 9. Reglugerð um úrvinnslugjald
   
  Gildistaka 
  Þann 10. júlí sl. tók gildi reglugerð nr. 501/2003, um úrvinnslugjald.  Með gildistöku reglugerðarinnar féll úr gildi reglugerð sama efnis nr. 227/2003.
   
  Helstu ákvæði 
  Með nýju reglugerðinni er m.a. kveðið skýrar á um framkvæmd við skil á ökutækjum til úrvinnslu.  Þar segir í 9. gr. að skráður eigandi, eða sá sem hefur skriflegt umboð hans, skuli skila ökutæki til úrvinnslu til söfnunar- eða móttökustöðvar sem hefur heimild til að taka á móti ökutækjum til úrvinnslu samkvæmt starfsleyfi frá viðkomandi heilbrigðisnefnd.
   
  Við skil á ökutæki til úrvinnslu skal verksmiðjunúmer ökutækis vera auðþekkjanlegt og skal a.m.k. vera til staðar yfirbygging og grind ökutækisins. Afhenda ber þeim aðila skilavottorð sem skilar inn ökutæki til úrvinnslu.
   
  Sé óskað eftir greiðslu skilagjalds skal skráður eigandi eða sá sem hefur skriflegt umboð hans skrifa undir beiðni um afskráningu ökutækis hjá viðkomandi skoðunarstofu eða Umferð­arstofu, ásamt því að leggja fram skilavottorð. Að öðru leyti fer um afskráningu samkvæmt reglugerð um skráningu ökutækja. 
   
  Sé afskráningarbeiðni samþykkt með athugasemdinni „Til úrvinnslu“ skal viðkomandi skoðunarstofa eða Umferðarstofa greiða skráðum eiganda skilagjald eða leggja það inn á reikning hans.  Einnig er hægt að senda afskráningarbeiðni ásamt skilavottorði til Umferðar­stofu og fá skilagjald greitt hjá viðkomandi tollstjóra/sýslumanni.
   
  Skráður eigandi fær greitt skilagjald, 10.000 kr. af bifreið sinni hafi hún verið nýskráð hér á landi eftir 1. janúar 1988, enda hafi verið greitt úrvinnslugjald af ökutækinu og ökutækið tekið af skrá eftir 1. janúar 2003. Í þeim tilvikum sem skráður eigandi á vangreidd opinber gjöld vegna úrvinnslugjalds, bifreiðagjalds og/eða þungaskatts skulu þau dragast frá við greiðslu skilgjalds. 
   
  Hafi ökutæki verið afskráð á tímabilinu 1. janúar 2003 til 30. júní 2003 og óski skráður eigandi ökutækis eftir því að fá greitt skilagjald þarf hann að afla skilavottorðs frá söfnunar- eða móttökustöð og láta breyta ástæðu afskráningar hjá Umferðarstofu. 
   
  Sjá nánar tilkynningar til tollstjóra nr. 17/2002, 1/2003 og 3/2003.
   
 10. Reglugerð  um verðjöfnun við útflutning á fullunnum vörum sem innihalda landbúnaðarhráefni
   
  Gildistaka
  Þann 22. júlí sl. tók gildi reglugerð nr. 535/2003 um verðjöfnun við útflutning á fullunnum vörum sem innihalda landbúnaðarhráefni.  Með gildistöku reglugerðarinnar féll úr gildi reglugerð nr. 259/1996.
   
  Helstu ákvæði 
  Samkvæmt reglugerðinni er við útflutning á fullunnum vörum sem innihalda að einhverjum hluta þau innlendu hráefni sem talin eru upp í 3. gr., heimilt að greiða mismun á verði viðkomandi hráefna á heimsmarkaði og innanlands til verðjöfnunar. 
   
  Um vöruliði og tollskrárnúmer sem ætluð eru til verðjöfnunar vísast til 2. gr. reglugerðarinnar.  Varðandi upphæð verðjöfnunar vísast til 3. gr. 
   
  Sækja skal um heimild til verðjöfnunar til landbúnaðarráðuneytisins eigi síðar en ári eftir að útflutningur á sér stað. Tollstjórinn í Reykjavík annast greiðslu verðjöfnunar. Umsækjandi sækir um greiðslu verðjöfnunar til tollstjórans í Reykjavík eða tollstjóra í umdæmi útflutningshafnar sem framsendir umsókn til tollstjórans í Reykjavík.
   
  Upphæð verðjöfnunar skal reiknuð samkvæmt þeim reglum sem í gildi voru er útflutningur átti sér stað.
 11. Reglugerðir um úthlutun á tollkvótum
   
  Gildistaka
  Þann 22. júlí sl. tók gildi reglugerð nr. 536/2003 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á kartöfluflögum frá Noregi.
   
  Þann 18. júlí sl. tók gildi reglugerð nr. 566/2003 um (1.) breytingu á reglugerð nr. 444/2003 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á grænmeti.  
   
  Helstu ákvæði 
  Reglugerð nr. 536/2003 varðar 15.000 kg tollkvóta á vörur í tollskrárnúmerum 2005.2002 og 2005.2003 og gildir til 31. desember 2003.  
   
  Reglugerð nr. 566/2003 varðar kartöflur í tollskrárnúmeri 0710.9000. 
   
  Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
   
 12. Bann við innflutningi á lifandi fuglum, frjóeggjum og hráum afurðum alifugla frá Belgíu, Þýskalandi og Ítalíu
   
  Gildistaka
  Þann 28. júlí sl. tók gildi reglugerð nr. 570/2003 um framlengingu banns við innflutningi frá Belgíu og Þýskalandi og bann við innflutningi frá Ítalíu vegna Avian Influensu eða fuglaflensu. 

8. ágúst 2003

Tollstjórinn í Reykjavík

 

Til baka