Tilkynning nr. 7/2003 um breytingar á sviði tollamála

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tilkynning nr. 7/2003 um breytingar á sviði tollamála

01.09.2003

Vakin er athygli á eftirtöldum breytingum á sviði tollamála:

 1. Reglugerð um tollverð og tollverðsákvörðun
   
  Gildistaka
  Þann 11. ágúst sl. tók gildi reglugerð nr. 604/2003, um breytingu á reglugerð nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun, með síðari breytingum.
   
  Helstu ákvæði 
  Við reglugerðina bætist ný grein sem verður 21. gr. A. sem orðast svo:
   
  Sé talið að ákvörðun tollverðs á grundvelli 20.-21. gr. gefi ekki rétta mynd af verðmæti ökutækis þar sem ástand ökutæksins er mun verra en leiðir af eðlilegri fyrningu, er tollstjóra heimilt að ákveða lækkun tollverðs, enda sýni innflytjandi fram á að verðmæti ökutækisins sé minna en venjulegra ökutækja sömu tegundar og af sömu árgerð, svo sem vegna tjóns. Toll­stjóri getur við matið tekið tillit til væntanlegs viðgerðarkostnaðar. Telji tollstjóri að ákvörðun tollverðs sé eigi á færi annarra en sérfróðra manna er honum heimilt án dómskvaðningar að kalla til matsmenn, sbr. 98. gr. tollalaga nr. 55/1987. 
   
  Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
   
 2. Reglugerð um notkun og bann við notkun tiltekinna efna í málningu og viðarvörn
   
  Gildistaka
  Þann 20. ágúst sl. tók gildi reglugerð nr. 612/2003, um breytingu á reglugerð nr. 903/2002 um notkun og bann við notkun tiltekinna efna í málningu og viðarvörn. 
   
  Helstu ákvæði 
  Ákvæði reglugerðarinnar fela í sér að óheimilt er að framleiða, flytja inn, selja eða nota viðarvarnarefni sem í eru arsensambönd.

  Bann við notkun arsensambanda samkvæmt framangreindu tekur ekki til notkunar ólífrænna saltlausna, kopar-króm-arsen (CCA) gerð C, í iðnfyrirtækjum sem hafa sérstakan tækjabúnað þar sem notaður er þrýstingur eða lofttæmi til gegndreypingar á viði. 
   
  Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
   
 3. Auglýsing um takmörkun á innflutningi á parahnetum frá Brasilíu
   
  Gildistaka
  Þann 20. ágúst sl. tók gildi auglýsing nr. 608/2003, um takmörkun á innflutningi á parahnetum frá Brasilíu. 
   
  Helstu ákvæði 
  Auglýsingin gildir um innflutning á parahnetum (brasilíuhnetum) í hýði sem upprunnar eru í Brasilíu og ætlaðar eru til manneldis.  
   
  Óheimilt er að flytja til landsins parahnetur frá Brasilíu sem falla undir tollskrárnúmerið 0801.2100.  
   
  Innflutningur skal þó heimilaður ef innflytjandi framvísar vottorði frá opinberum aðila til Umhverfisstofnunar um að varan innihaldi hvorki aflatoksín B1 né önnur aflatoksín yfir hámarksgildum skv. reglugerð nr. 97/2003.  
   
  Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.
   
 4. Auglýsing um bann við innflutningi frá Ítalíu vegna Newcastle-veiki
   
  Gildistaka
  Þann 21. ágúst sl. tók gildi auglýsing nr. 620/2003, um bann við innflutningi frá Ítalíu vegna Newcastle-veiki.
   
  Helstu ákvæði 
  Með vísan til þess að ekki liggja fyrir upplýsingar frá dýrasjúkdómayfirvöldum um upprætingu Newcastle-veiki, sem er skæður fuglasjúkdómur sem borist getur, er sett bann við innflutningi til landsins á lifandi fuglum, frjóeggjum og hráum afurðum alifugla frá Ítalíu.  
   
  Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.

1. september 2003

Tollstjórinn í Reykjavík

 

Til baka