Forvarnarstarf tollstjórans í Reykjavík

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Forvarnarstarf tollstjórans í Reykjavík

26.11.2003

Eitt af markmiðum tollstjórans í Reykjavík er að koma í veg fyrir innflutning á fíkniefnum. Til að nálgast það markmið var hafið forvarnarstarf á vegum embættisins fyrir rúmlega fjórum árum, en þá byrjaði Þorsteinn Haukur Þorsteinsson tollfulltrúi að fræða nemendur í grunnskóla og fermingarbörn um skaðsemi fíkniefna. Þessari fræðslu var vel tekið og hefur hún smám saman verið aukin.

Þann 26. nóvember sl. undirritaði svo embætti tollstjórans í Reykjavík samstarfssamning við biskupsstofu um forvarnarstarf meðal fermingarbarna. Samningurinn felur í sér að fræsludeild biskupsstofu annast kynningu á starfi Þorsteins Hauks Þorsteinssonar meðal presta þjóðkirkjunnar.

Þá hefur embætti tollstjórans í Reykjavík staðið fyrir gerð margmiðlunardisks með ýmsum fróðleik, m.a. um heilbrigt líferni, skaðsemi fíkniefna, störf tollgæslunnar og fíkniefnaleitarhunda ásamt viðtölum við fólk sem segir frá reynslu sinni. Margmiðlunadiskinum verður dreift til allra fermingarbarna á landinu og reynt verður að afhenda hann líka þeim börnum á fermingaraldri sem ekki fermast.

 

Til baka