Breytingar á tekjuskattslögum, áfengisgjaldi, úrvinnslugjaldi og bifreiðagjaldi

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Breytingar á tekjuskattslögum, áfengisgjaldi, úrvinnslugjaldi og bifreiðagjaldi

29.12.2004

Þann 10. desember sl. voru samþykkt lög um breytingu á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt og fleiri lögum. Lögin hafa eftirtaldar breytingar í för með sér:

  • Tekjuskattur einstaklinga mun lækka um 1% næstu áramót og aftur um 1% 1. janúar 2006. 1. janúar 2007 mun tekjuskatturinn lækka um 2%. Tekjuskattur einstaklinga verður því 23,75% frá og með 1. janúar 2007.
  • Persónuafsláttur einstaklinga mun hækka um 3% þann 1. janúar 2005, aftur um 2,5% 1. janúar 2006 og um 2,25% 1. janúar 2007. Þannig mun persónuafslátturinn nema 348.343 krónur árið 2007. Samsvarandi hækkun verður á frítekjumarki barna undir 16 ára aldri.
  • Sjómannafsláttur og barnabætur munu hækka en vaxtabætur munu lækka.
  • Eignarskattur lögaðila og einstaklinga fellur niður frá og með 31. desember 2005. Þetta þýðir að eignir í árslok 2004 eru skattlagðar að fullu. Athygli er vakin á því að framtalsskyldan eigna og skulda verður þó enn fyrir hendi eftir lagabreytinguna þar sem eignir hafa áhrif á ýmsum öðrum sviðum.

Með lögum nr. 118/2004 var lögum um gjald af áfengi og tóbaki breytt og hækkar áfengisgjald á sterku víni og hvers kyns tóbaki um 7%. Áfengisgjald á léttvín og bjór hækkar ekki. Lög þessi tóku gildi 29. nóvember sl.

Þann 10. desember voru einnig samþykkt lög er breyttu lögum nr. 161/2002 um úrvinnslugjald. Þær breytingar fela í sér að úrvinnslugjald af samsettum drykkjarvöruumbúðum lækkar um tæp 55%, úrvinnslugjald af rafhlöðum lækkar um 50%, úrvinnslugjald af hjólbörðum lækkar um tæp 17% og úrvinnslugjald af ökutækjum lækkar um tæp 33,3%. Þá hækkar skilagjald á ökutækjum um 50%.

Einnig var samþykkt breyting á lögum um bifreiðagjald sem hækkar bifreiðagjald af öllum flokkum bifreiða um 3,5%.

Til baka