Tilkynning nr. 8/2004 til inn- og útflytjenda

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tilkynning nr. 8/2004 til inn- og útflytjenda

31.12.2004

Auglýsing um breytingu á viðauka I við tollalög; breyting á tollskrá 
Breyting á lögum um úrvinnslugjald 
Tollkvótareglugerð varðandi innflutning á grænmeti 
Fuglaflensa 
Reglugerð um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu

 

I.  Auglýsing um breytingu á viðauka I við tollalög; breyting á tollskrá
Auglýsing nr. 152/2004
Tekur gildi 1.1.2005

Þann 1. janúar 2005 tekur gildi auglýsing nr. 152/2004 um breytingu á viðauka I við tollalög nr. 55/1987, með síðari breytingum.  Gerðar eru breytingar á tollskrárnúmerum í eftirtöldum köflum tollskrár:  3. kafla,  84. kafla og  87. kafla.  Breytingarnar taka til allra vara sem ótollafgreiddar eru við gildistöku auglýsingarinnar. 

 

II.   Breyting á lögum um úrvinnslugjald

Þann 1. janúar 2005 taka gildi ákvæði laga um breytingu á lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, með síðari breytingum.  Lögin voru samþykkt á Alþingi 10. desember 2004.

Með breytingum laganna er m.a. gert ráð fyrir nýjum gjaldskyldum vörum, þ.e. pappa-, pappírs- og plastumbúðum, sem tekur gildi 1. september 2005.

Ennfremur eru gerðar breytingar er varða úrvinnslugjald á samsettar drykkjarvöruumbúðir, lækkun úrvinnslugjalds á tiltekna vöruflokka og hækkun skilagjalds á ökutæki.  Einnig er gert ráð fyrir að fleiri ökutæki falli undir kerfið en jafnframt að fornbílar verði undanþegnir úrvinnslugjaldi

Gert er ráð fyrir lækkun á upphæð núgildandi gjalda í fjórum vöruflokkum, þ.e.:

  1. Úrvinnslugjald á samsettar drykkjarvöruumbúðir (BQ-gjald) lækki um tæp 55%.
  2. Úrvinnslugjald á rafhlöður (BH-gjald og BO-gjald) lækki um 50%
  3. Úrvinnslugjald á hjólbarða (BR-gjald og BS-gjald) lækki um tæp 17%.
  4. Úrvinnslugjald á ökutæki lækki um tæp 33%, úr 1.040 kr. á ári í 700 kr. á ári

Þá er einnig gert ráð fyrir að skilagjald á ökutæki hækki um 50% eða úr 10.000 kr. í 15.000 kr.

Til samræmingar á lögum um bifreiðagjald, sem innheimta úrvinnslugjalds á ökutæki fylgir, nær innheimta úrvinnslugjalds ekki til bifreiða sem náð hafa 25 ára aldri og teljast þar með fornbílar. Fornbílar eru því undanþegnir bifreiðagjaldi.

Úrvinnslugjald helst óbreytt á olíuvörur (BL-gjald), lífræn leysiefni (BF-gjald), halógeneruð efnasambönd (BK-gjald), ísósýanöt (BJ-gjald), olíumálningu (BL-gjald), prentliti (BT-gjald), rafgeyma (BA,BB,BC-gjald), kemískar vörur í ljósmynda- og prentiðnaði (BD-gjald), kvikasilfursvörur BN-gjald), varnarefni (BI-gjald) og kælimiðla BM-gjald).

Úrvinnslugjald er þegar lagt á heyrúlluplast (BP-gjald) og breytist það ekki.

Úrvinnslugjald á pappírs-, pappa- og plastumbúðir tekur gildi 1. september 2005
Við ákvörðun úrvinnslugjalds vegna pappírs-, pappa- og plastumbúða er gert ráð fyrir að lagðar verði til grundvallar upplýsingar sem innflytjendur og framleiðendur gefa upp í aðflutningsskýrslu við tollafgreiðslu um þyngd umbúða vöru.  Þessar breytingar kalla á ný svæði í aðflutningsskýrslu fyrir þyngd umbúða og kalla á breytingar á tölvukerfum tollstjóra, flutningsmiðlara og innflytjenda fyrir tollskýrslur og tollafgreiðslu, þ.m.t. rafræna tollafgreiðslu.  Embætti tollstjóra áætlar að nánari upplýsingar um breytingarnar liggi fyrir í mars 2005.

Úrvinnslugjald á allar umbúðir úr pappa, pappír og plasti verður, 10 kr./kg, og skal lagt á við innflutning og framleiðslu umbúða hér á landi. Þetta á bæði við þegar um er að ræða umbúðir utan um vöru og umbúðir ætlaðar til notkunar utan um vöru.

Við tollafgreiðslu vöru ber innflytjanda að gefa upp magn umbúða í kg. Þyngd umbúða skal skipta í tvo flokka, annars vegar pappa- og pappírsumbúðir og hins vegar plastumbúðir og gefa upp sérstaklega þyngd plasts annars vegar og pappa/pappírs hins vegar.

Úrvinnslugjald af veiðarfærum úr gerviefnum tekur gildi 1. september 2005
Viðauki XVII við lögin tekur til úrvinnslugjalds af veiðarfærum úr gerviefnum.  Útbúinn hefur verið sérstakur gjaldakódi, BU-gjald, í Tollakerfinu af þessu tilefni.

Gert er ráð fyrir heimild til að semja um ráðstafanir til að tryggja úrvinnslu tiltekins úrgangs vegna tiltekinna vöruflokka. Er hér sérstaklega átt við svartolíu og veiðarfæri sem eru undanþegin úrvinnslugjaldi sé svo um samið.

Álagning úrvinnslugjalds á veiðarfæri og úrvinnslugjalds á pappa-, pappírs- og plastumbúðir tekur gildi 1. september 2005. Greiðsla vegna móttöku umbúða frá fyrirtækjum og bylgjupappa frá söfnunarstöðum sveitarfélaga skal þó hefjast fyrr eða frá og með 1. apríl 2005, en vegna annarra umbúða 1. desember 2005.

Núverandi fyrirkomulag álagningar úrvinnslugjalds á samsettar drykkjarvöruumbúðir verður óbreytt fram til og með 31. ágúst 2005.
Sjá nánar A-deild Stjórnartíðinda.

III.  Tollkvótareglugerð vegna innflutnings á grænmeti
Reglugerð nr. 1023/2004 (1. breyting)
Tók gildi 21.12.2004
Breytti reglugerð nr. 791/2004

IV.  Bann við innflutningi vegna fuglaflensu
Auglýsing nr. 990/2004
Tók gildi 15.12.2004
Gildir til 31.3.2005

Framlengt bann við innflutningi á lifandi fuglum, frjóeggjum og hráum afurðum alifugla frá Kína, Tælandi, Suður-Kóreu, Malasíu, Víetnam, Japan, Kambódíu, Indónesíu, Laos, Pakistan og Hong Kong, vegna fuglaflensu.

V.  Reglugerð um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu
Reglugerð nr. 993/2004
Tók gildi 20.12.2004

Reglugerðin gildir um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem heyra undir samninginn um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra í útrýmingarhættu, sem gerður var í Washington 3. mars 1973 (CITES). Markmið samningsins og reglugerðar þessarar er að vernda tegundir dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu með því að stjórna alþjóðlegum viðskiptum með þær.

Tollyfirvöld annast skoðun á eintökum og gögnum sem þeim fylgja við inn- og útflutning.

Innflutningur, útflutningur, endurútflutningur og aðflutningur úr sjó er háður leyfi eða vottorði eftir því sem nánar greinir í reglugerðinni.

Sjá nánar B-deild Stjórnartíðinda.

 

31. desember 2004

Tollstjórinn í Reykjavík

Tilkynning nr. 8/2004 í pdf formi

Til baka