Tollflokkun minniskorta

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tollflokkun minniskorta

08.03.2005

Embættið hefur orðið þess vísari að við tollafgreiðslu hafa svokölluð minniskort verið tollflokkuð með ýmsum hætti af innflytjendum. Einnig hefur borið á því að upplýsingar frá tollyfirvöldum hafi verið misvísandi.

Ísland er aðili að alþjóðlegum samningi um samræmda vörulýsingar- og vöruheitaskrá, samræmd tollskrá. Alþjóðatollastofnunin (World Customs Organization (WCO)) hefur umsjón með samningnum og framkvæmd hans og hefur í því skyni m.a. gefið út skýringarbækur um túlkun hans (Explanatory Notes) og ákvarðað tollflokkun vöru þegar ágreiningur er milli aðildarríkjanna. Samningurinn um samræmdu tollskrána var undirritaður fyrir Íslands hönd hinn 10. janúar 1985, sbr. auglýsingu nr. 25/1987 í C-deild Stjórnartíðinda. Með lögum nr. 96/1987, um breyting á tollalögum nr. 55/1987, voru tollflokkunarreglur samræmdu skrárinnar teknar í notkun hér á landi við tollafgreiðslu á vörum 1. janúar 1988, en tollskráin og túlkunarreglur hennar er birt sem viðauki I við lögin.

Alþjóðatollastofnunin hefur á fundi sínum í maí 2002 tekið fyrir og ákveðið tollflokkun þriggja gerða minniskorta í tnr. 8523.90 í hinni alþjóðlegu skrá.

Þau kort sem þar um ræðir eru þekkt sem „flash memory card“ eða „flash electronic storage card“. Þau eru byggð á prentrásaspjaldi (printed circuit board (PCB)) með leifturminni (flash memory („FLASH E2PROM“)). Kortin eru með tengibúnaði eða tengipunktum, geta haft minnisrýmd frá 2MB til 500MB og nota rafmagn frá því tæki sem þau tengjast og þurfa því ekki rafhlöðu. Kortin geta tekið við upplýsingum frá ýmsum tækjum, s.s. GPS tækjum, handskönnum, læknisfræðilegum eftirlitstækjum, hljóðupptökutækjum, friðþjófum, farsímum og stafrænum myndavélum. Hægt er að lesa upplýsingarnar aftur af kortunum þegar þau eru tengd við tækin. Einnig er hægt að hlaða upplýsingunum í gagnavinnsluvél í gegnum sérstök millistykki eða kortalesara.

Í ljósi ofanritaðs hefur verið ákveðið að frá og með 15. mars nk. skuli flokka öll slík óátekin kort í tollskrárnúmer 8523.9009. Ekki verður endurákvarðað vegna þeirra sendinga sem hafa verið ranglega flokkaðar fram að þeim tíma. Komi í ljós að innflytjandi sé ekki sáttur við umrædda breytingu skal honum bent á að hann getur kært ákvörðun tollstjóra til úrskurðar hans og úrskurð hans til ríkistollanefndar í samræmi við tollalög.

 

 F.h.t.  Stefán Bjargmundsson

 

Til baka