Metár í haldlagningu fíkniefna

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Metár í haldlagningu fíkniefna

11.01.2007

Tollgæsla á landinu lagði árið 2006 hald á mesta magn fíkniefna sem fundist hefur á einu ári við landamæraeftirlit. Fundust 43,5 kg af amfetamíni, 8,3 kg af kókaíni og 21,6 kg af kannabisefnum auk lítils magns heróíns en það efni hefur ekki fundist áður við fíkniefnaeftirlit tollgæslu hérlendis. Umtalsverðust er aukningin í haldlagningu amfetamíns en um er að ræða tíföldun frá árinu 2005 og fjórföldun frá 2004 en þau rúmlega 11 kg sem þá fundust voru á þeim tíma mesta magn efnisins sem tollgæsla hafði fundið á einu ári. Aukið magn kókaíns vekur ekki síður athygli en 8,3 kg af efninu er tífalt það magn sem fannst 2005 og tæpum þremur kg meira en árið 2004 sem var metár.

Ofangreind fíkniefni fundust öll við eftirlit tollgæslu í Reykjavík, á Keflavíkurflugvelli og Seyðisfirði og var í sumum tilvikum um að ræða samstarf embættanna og lögreglu, bæði hvað varðar aðstoð fíkniefnaleitarhunda og tollvarða. Margvíslegar ástæður leiddu til fundar efnanna og má þar nefna áhættugreiningarvinnu tollgæslu, upplýsingar frá lögreglu, ábendingar frá almenningi og reglubundið eftirlit.

Eitt stórt fíkniefnamál kom upp í Reykjavík laust fyrir páska og fannst þar rúmlega þriðjungur þess amfetamíns sem haldlagt var á árinu, tæp 15,3 kg, auk tveggja þriðju hluta af haldlögðum kannabisefnum, eða 11,5 kg. Hafði efnunum verið komið fyrir í eldsneytistanki bifreiðar sem flutt var til landsins frá Hollandi. Nær allt haldlagt kókaín árið 2006 fannst við eftirlit tollgæslu á Keflavíkurflugvelli og ber þar hæst 2,9 kg sem fundust á komufarþega. Á Seyðisfirði fundust tæp 50 gr. af kókaíni á farþega er kom til landsins með ferjunni Norrænu en mest amfetamín fannst þar á öllu landinu, tæp 19 kg. Af því magni fundust tæp 12 kg í einu máli þar sem tveir litháískir karlmenn höfðu falið efnið í eldsneytistanki bifreiðar er þeir fluttu með ferjunni.

Meðfylgjandi töflur sýna magn haldlagðra efna flokkað eftir tollumdæmum og magn áranna 2003 – 2006 hjá tollgæslu á landinu öllu. Allar tölur fyrir 2006 eru til bráðabirgða enn sem komið er.

Fíkniefni gr.

Reykjavík

Kefl.flugvelli

Seyðisfirði

Kannabisefni

13.084

1.678

6.815

Amfetamín

15.266

8.356

19.916

Kókaín

0

8.258

47

Tafla 1. Haldlögð fíkniefni árið 2006 eftir tollumdæmum, námundað að heilum grömmum.

Fíkniefni gr.

2003

2004

2005

2006

Kannabisefni

48.910

27.467

6.071

21.577

Amfetamín

1.566

11.583

4.307

43.537

Kókaín

1.002

5.528

874

8.305

Tafla 2. Fíkniefni haldlögð af tollgæslu á landinu 2003 – 2006, námundað að heilum grömmum.

Til baka