Teknir í Færeyjum með fíkniefni á leið til Íslands

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Teknir í Færeyjum með fíkniefni á leið til Íslands

08.01.2010

9. nóvember síðastliðinn stöðvaði Færeyska tollgæslan tvo Litháa, sem voru á leið til Íslands með Norrænu.

Á vefnum portal.fo kemur fram að færeysku tollverðirnir höfðu illan grun um að mennirnir væru með fíkniefni meðferðis. Eftir að hafa ráðfært sig við tollgæsluna á Íslandi styrktist grunur þeirra mjög. Lögregla var því kölluð til og handtók hún mennina. Norræna hélt hins vegar för sinni til Íslands áfram.

Eftir ýtarlega leit í bifreiðinni fundust um þrjú kíló af sterku metaamfetamíni og 4200 E-töflur og lagði tollgæslan hald á efnin.  

Þetta er mesta magn fíkniefna sem nokkru sinni hefur fundist  í Færeyjum og að sögn fréttavefsins lítur færeyska lögreglan málið það alvarlegum augum að hún fer með það sem um mannsmorð væri að ræða.

Þrír Litháar hafa verið handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarhald á Íslandi í tengslum við rannsókn málsins, en þeir eru grunaðir um að vera viðtakendur efnanna hér á landi.

Rannsókn málsins á Íslandi er í höndum lögreglu, Tollstjóri veitir ekki frekari upplýsingar.

Fíkniefni falin í bifreið (myndin tengist málinu ekki beint)Fíkniefni falin í bifreið (myndin tengist málinu ekki beint)
Myndirnar tengjast málinu ekki beint.


Við minnum á upplýsingasímann 800 5005, sem er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.

Hafir þú upplýsingar varðandi fíkniefnamál, sem þú vilt koma á framfæri, getur þú hringt nafnlaust í síma 800 5005.
Símsvari tekur við skilaboðum frá þér og þú getur valið um hvort þú vilt gefa upp nafn þitt eða ekki.

Einnig er hægt að senda tollayfirvöldum upplýsingar um um smygl og ólöglegan inn- eða útflutning eða hringja í smyglsímann 552 8030.

 

Fræðsluefni um fíkniefni og skaðsemi þeirra

 

Til baka