Málþing um hugverkarétt

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Málþing um hugverkarétt

08.09.2010

Þann 3. september sl. fór fram málþing í kjölfar árlegs fundar norrænna sérfræðinga tollstjóraembættanna á sviði hugverkaréttarbrota (Intellectual Property Rights/IPR). Ísland varð þátttakandi í þessu samstarfi árið 2009, en allt frá árinu 1995 hafa ákvæði um hugverkarétt verið að finna í íslenskum tollalögum. Á undanförnum árum hefur aukin áhersla verið lögð á baráttuna gegn þessari glæpastarfsemi hjá íslenskum tollyfirvöldum.

Frummælendur á málþinginu voru frá embætti Tollstjóra, frá Dönsku tollgæslunni (Skat), Bandaríska tollgæslunni (U.S. Immigration and Customs Enforcement/ICE), Europol, Alþjóðatollastofnuninni (World Customs Organization/WCO) auk lögfræðings frá lögfræðistofunni Árnason Faktor, sem sérhæfir sig í hugverkaréttindamálum. Í máli frummælenda kom skýrt fram að þróunin hefur verið hröð og verða brotin því miður stærri og alvarlegri frá ári til árs. Um er að ræða brotastarfsemi, sem ekki aðeins er orðin hluti af alþjóðlegri glæpastarfsemi, heldur er fjármunum sem aflað hefur verið með hugverkaréttarbrotum í auknum mæli ráðstafað til hryðjuverkastarfsemi.

Þeir sem skaðast á þessari ólöglegu starfsemi eru margir, t.d. hið opinbera sem verður af aðflutningsgjöldum, virðisaukaskatti og launaskatti. Að auki verða þau fyrirtæki sem eiga vörumerkin fyrir gífurlegu tjóni. Það sem þó veldur mestum áhyggjum er að ólögleg framleiðsla hefur færst úr fölsunum á tískuvörum yfir í annan varning, t.d. rafmagnsverkfæri, rafmagnsöryggi, varahluti í bíla og flugvélar, fatnað, barnaleikföng og lyf. Gölluð rafmagnsverkfæri hafa valdið alvarlegum slysum og fjárhagslegu tjóni og gölluð rafmagnsöryggi eldsvoðum. Fölsuð leikföng innihalda oft á tíðum hættuleg efni á borð við blý og hættuleg eiturefni. Gallaðir varahlutir valda bíl- og flugslysum auk þess sem fölsuð lyf hafa valdið veikindum og jafnvel dauða, en slík lyf innihalda oft á tíðum allt of mikið eða of lítið af virku efni stundum jafnvel alls ekkert virkt lækningaefni.

Af framangreindu er ljóst að mikilvægt er að tryggja að til landsins berist ekki slíkur varningur, sem ekki aðeins rýrir tekjustofna ríkisins og fyrirtækja, heldur getur valdið slysum og eru þannig hættulegir lífi og limum landsmanna.

Málþing TS um hugverkarétt var vel sótt

Til baka