NTR, Norræna tollasamvinnuráðið, 50 ára

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

NTR, Norræna tollasamvinnuráðið, 50 ára

11.11.2010

Um þessar mundir eru liðin 50 ár frá því að Norræna tollasamvinnuráðið (Nordisk toldadministrativt råd, NTR) var stofnað. Samstarfið hefur á þessum árum borið margvíslegan ávöxt. Samanburður á löggjöf, verklagsreglum, lausnum og reynslu við hin ýmsu úrlausnarefni eru meðal þess sem ráðið hefur tekið fyrir sem og samstarf vegna tolleftirlits, samvinna í baráttunni við ólöglegan innflutning og einföldun og samræmingu tollafgreiðslu milli Norðurlandanna.

Samvinnan innan NTR hefur leitt af sér ýmsar samþykktir með það að markmiði að einfalda samstarfið og gera það árangursríkara, einkum með tilliti til eftirlits og fyrirbyggjandi aðgerða vegna smygls.

Meðal annars hefur verið unnið að því að samræma reglur um tollfrjálsan farangur ferðamanna, til dæmis hvað varðaði magn áfengis, tóbaks og slíkra vara og heildarverðmæti þess sem mætti flytja inn gjaldfrjálst.

Tollgæsluhópur hefur lengi verið starfandi á vegum ráðsins. Þar er fjallað um tollgæslumálefni og hefur starfsemi hópsins eflt samstarf milli landanna á því sviði og reynst mikilvægur samstarfsvettvangur. Aðrir hópar sem hafa starfað um árabil eru samstarfshópur um tölvuvædda tollafgreiðslu, fræðsluhópur sem er samstarfsvettvangur um fræðslumál á tollasviði, vinnuhópur um innheimtumál og fleiri. Jafnframt hafa starfað hópar sem hafa unnið að sértækum úttektum eða verkefnum samkvæmt ákvörðunum ráðsins.

Á þessum 50 árum hefur komið í ljós að samstarfið innan NTR hefur verið öllum þjóðunum dýrmætt, en vafalaust ekki síst okkur hér heima sem höfum notið góðs af reynslu og þekkingu frændþjóða okkar. Samstarfið hefur opnað margar dyr og stytt okkur leiðina í þeirri viðleitni að gera íslensk tollamál alþjóðlegri og í meira samræmi við það sem er að gerast á alþjóðavettvangi.

Núverandi formaður ráðsins er Snorri Olsen tollstjóri og tók hann við formennsku nú í haust.

Tengiliður vegna fréttar Karl F. Garðarsson

Til baka