Innflutningur gjafa

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Innflutningur gjafa

21.01.2011

Iðulega koma upp mál þar sem reynir á gjafahugtak tollalaga.  Einstaklingar eða fyrirtæki átta sig oft ekki á því regluverki sem gildir og því miður veldur þetta stundum ágreiningi.

Í tollalögum nr. 88/2005 og reglugerð um tollfríðindi nr. 630/2008 er skýrt tekið fram hvaða heimildir Tollstjóri hefur til að fella niður gjöld af innfluttum vörum. Utan þeirra tilvika er Tollstjóra óheimilt lögum samkvæmt að fella niður gjöld enda ríkir almennt toll og skattskylda við allan innflutning, samanber einnig lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Eingöngu er heimilt að fella niður gjöld af gjöfum til einstaklinga sem sendar eru af sérstöku tilefni frá einstaklingum búsettum erlendis að verðmæti hámark 10.000 ISK, gjöfum til mannúðar og líknarstarfsemi til að dreifa meðal bágstaddra hér og síðan gjöfum sem ríki eða sveitarfélögunum eða stofnunum þeirra eru gefnar erlendis frá í vináttuskyni eða vegna menningartengsla.

Aðrir en ofangreindir þurfa að borga aðflutningsgjöld í tolli þótt þeir þurfi ekki að borga gefanda fyrir vöruna. Greiði viðtakandi ekki aðflutningsgjöld er Tollstjóra óheimilt að afhenda gjöfina.  

Ef vara er ekki leyst úr tolli innan 6 mánaða frá komu flutningsfars til landsins og innflytjandi óskar ekki eftir því að hún sé geymd lengur (hámark 18 mánuðir með leyfi leyfishafa geymslu) ber Tollstjóra að taka hana til uppboðsmeðferðar vegna vangoldinna aðflutningsgjalda eða farga henni á kostnað innflytjanda telji hann hana ekki vera uppboðshæfa. Áður en að uppboði kemur er innflytjanda tilkynnt um fyrirhugað uppboð svo hann geti gripið til viðeigandi aðgerða til að komast hjá uppboði og greiða gjöld. 

Kynnið ykkur einnig:
Upplýsingar um undanþágur frá greiðslu aðflutningsgjalda af gjöfum og aðrar undanþágur frá greiðslu aðflutningsgjalda

Hér er einnig eldri frétt um vörusendingar frá útlöndum ranglega merktar sem gjafir.

Til baka