Samstarfsamningur Tollstjóra og Safnaráðs

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Samstarfsamningur Tollstjóra og Safnaráðs

12.07.2011

Miðvikudaginn 6. júlí 2011 undirrituðu Tollstjóri og Safnaráð samstarfssamning. Markmið samningsins er að auka og dýpka samvinnu þessara aðila til að stemma stigu við ólöglegum útflutningi og innflutningi á menningarverðmætum. Að auki er m.a. kveðið á um samstarf á vettvangi, nauðsynleg upplýsingaskipti og kæruleiðir vegna þeirra mála sem koma munu upp í framtíðinni.

Fyrirhugað er með haustinu að halda námskeið fyrir starfsmenn Tollstjóra um mikilvægi málaflokksins en einnig verða gefnar út leiðbeiningar og gátlistar fyrir tollverði er vinna við eftirlit á landamærunum. Útflutningsleyfi safnaráðs berast nú rafrænt til embættis Tollstjóra, sem dreifir þeim á landamærastöðvar. Þessu til viðbótar gaf safnaráð út einblöðung með upplýsingum um þær reglur er gilda um útflutning á menningarverðmætum. Þá verða hengd upp plaköt sem minna á málaflokkinn á landamærastöðum.

Samstarfið beinist einnig að eftirliti með menningarverðmætum, sem berast á ólöglegan hátt til landsins frá öðrum löndum, en töluvert er um að menningarminjum sé stolið í fátækum og stríðshrjáðum löndum um allan heim og þeim komið til Vesturlanda. Ísland er aðili að samningum UNESCO um skil á slíkum minjum og vill safnaráð og embætti Tollstjóra auka eftirlit í þessum efnum. Embætti Tollstjóra hefur á undanförnum árum undirritað nokkra samstarfssamninga, m.a. við Lögreglu, Landhelgisgæsluna og Fiskistofu. Á næstu mánuðum og árum mun sú vinna halda áfram að koma þeirri góðu samvinnu sem embættið á við fjölmargar stofnanir í fastari skorður með samstarfssamningum, þar sem hlutverk samstarfsaðila eru skilgreind og kveðið á um gagnkvæma aðstoð.

Undirritun samnings

Til baka