Samstarf tollgæslu og lögreglu skilar árangri

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Samstarf tollgæslu og lögreglu skilar árangri

02.11.2011

Á árinu 2008 gerðu Tollstjóri og Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með sér samstarfssamning um aukið samstarf og samvinnu á sviði fíkniefnamála. Samningurinn tók einnig til rannsóknar og greiningarvinnu, fíkniefnaleitarhunda,  aðstöðu og tækjabúnaðar, samnýtingu mannafla og þekkingarmiðlunar.

Árangur og mikilvægi þessarar samvinnu er fyrir löngu kominn í ljós. Nýleg dæmi eins og til dæmis það sem rakið er hér fyrir neðan og tengist útflutningi á þýfi sem og önnur dæmi um ólöglegan innflutning fíkniefna og stera, sanna svo ekki verður um villst að samvinnan skilar mjög góðum árangri og er báðum embættunum mikilvæg.

Mikilvægt er að sú reynsla og sérþekking, sem starfsmenn tollgæslu og lögreglu búa yfir fái að njóta sín og að mismunandi heimildir embættanna til aðgerða séu nýttar þegar á þarf að halda.

Sem dæmi um þetta mikilvæga samstarf er rannsókn á ráni í úraverslun Franks Michelsen. Maðurinn sem lögregla handtók í síðustu viku vegna aðildar ráninu vakti strax athygli tollvarða þegar þeir fóru yfir farþegalista Norrænu daginn áður en hún kom til landsins.  

Tollverðir ákváðu því að hafa tal af manninum og að leita í bílnum. Ekkert fannst í honum þrátt fyrir ítarlega leit, en fíkniefnaleitarhundar sýndu bílnum mikinn áhuga sem bendir til þess að fíkniefni hafi einhvern tímann verið í honum.

Maðurinn sem var einn á ferð var óöruggur í framkomu og skýringar hans á ferðalaginu voru ekki trúverðuglegar og var því ákveðið að fylgjast sérstaklega með honum þegar hann færi úr landi. Lögregla var einnig látin vita af ferðum hans.

Síðar var leitað í bílnum með tækjabúnaði tollgæslunnar og fannst ránsfengurinn þar vandlega falinn.

Upplýsingar sem Tollgæslan gaf eftir rannsókn sína áttu því talsverðan þátt í að lögreglunni tókst á nokkrum dögum að upplýsa ránið.

Hér eru nokkrar myndir, meðal annars af tækjabúnaði tollgæslunnar, myndirnar tengjast fréttinni ekki beint.

Rannsókn málsins er í höndum lögreglu og Tollstjóri veitir ekki frekari upplýsingar.


Við minnum á upplýsingasímann 800 5005, sem er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.

 

Hafir þú upplýsingar varðandi fíkniefnamál, sem þú vilt koma á framfæri, getur þú hringt nafnlaust í síma 800 5005.
Símsvari tekur við skilaboðum frá þér og þú getur valið um hvort þú vilt gefa upp nafn þitt eða ekki.

Einnig er hægt að senda tollayfirvöldum nafnlaust upplýsingar um um smygl og ólöglegan inn- eða útflutning.

Til baka