Burðardýr í Leifsstöð með 2.7 kíló fíkniefna innvortis

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Burðardýr í Leifsstöð með 2.7 kíló fíkniefna innvortis

15.10.2012

Tollgæslan hefur, það sem af er þessu ári, stöðvað níu burðardýr fíkniefna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem öll áttu það sammerkt að vera með fíkniefni innvortis. Samanlagt var fólkið með nær 2.7 kíló af fíkniefnum þegar för þess var stöðvuð. Langstærstur hluti þessa magns var kókaín eða rúm 2.2 kíló.

Þar átti eitt burðardýranna, fertugur karlmaður með þýskan ríkisborgararétt, drjúgan hlut að máli því hann reyndist vera með tæplega 1.3 kíló af kókaíni í iðrum sér, sem talið er metmagn í þessum efnum. Tollgæslan stöðvaði hann í Leifsstöð í lok ágústmánaðar. Auk kókaínsins, sem að framan getur, var þýsk kona tekin með rúmlega 400 grömm af e - töfludufti, sem hún hafði komið fyrir innvortis. Önnur kona, íslensk, reyndist vera með rúm 27 grömm af hassi.

Ofangreint magn, sem tollgæslan hefur stöðvað smygl á hingað til lands það sem af er árinu, er nær helmingi meira heldur en það magn fíkniefna sem tekið var allt árið í fyrra hjá innvortis burðardýrum. Þá komu upp níu slík mál í Leifsstöð, þar sem tekin voru rúmt kíló af kókaíni, tæp 145 grömm af MDMA og svipað magn af amfetamíni.

Sé litið til ársins 2010 til samanburðar,  þá stöðvaði tollgæslan för sjö burðardýra á því ári öllu. Samanlagt voru þau með tæp 2.2 kíló fíkniefna innvortis. Langstærstur hluti efnanna var kókaín og amfetamín, rúmt kíló af hvoru. Einnig var um að ræða lítilræði af maríjúana og hassi.

Á árinu 2009 voru tíu burðardýr tekin með samtals tæp 1.7 kíló af fíkniefnum. Að stærstum hluta var um að ræða kókaín, eða tæplega 1.4 kíló. Þá voru tekin rúm 320 grömm af amfetamíni og smáræði af hassi.

Burðardýrin í þeim 35 málum sem komið hafa upp á  ofangreindu árabili voru 25 karlmenn og tíu konur.  Elsta burðardýrið var rúmlega sextugur litháískur karlmaður og það yngsta tvítugur íslenskur karlmaður. Átján þeirra sem tollgæslan stöðvaði voru að koma frá Kaupmannahöfn. Nánari upplýsingar veitir Kári Gunnlaugsson yfirtollvörður.

Magn og tegundir fíkniefna innvortis í grömmum  árin 2009 - 15. október 2012

 

Hass

Maríjúana

Amfetamín

Kókaín

E-duft

MDMA

2009

5.53

0

321.40

1.351.90

0

0

2010

25

2.45

1.063.20

1.082.21

0

0

2011

0

0

146

1.066.98

0

144.68

2012

27.5

0

0

2.242.05

402.15

0

 

 


Við minnum á upplýsingasímann 800 5005, sem er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.

Hafir þú upplýsingar varðandi fíkniefnamál, sem þú vilt koma á framfæri, getur þú hringt nafnlaust í síma 800 5005.
Símsvari tekur við skilaboðum frá þér og þú getur valið um hvort þú vilt gefa upp nafn þitt eða ekki.

Einnig er hægt að senda tollayfirvöldum upplýsingar um um smygl og ólöglegan inn- eða útflutning eða hringja í smyglsímann 552 8030.

Tengiliður vegna fréttar Kári Gunnlaugsson, yfirtollvörður 

Til baka