Tilkynning um breytta framkvæmd varðandi skuldfærslu áfengisgjalda við tollafgreiðslu

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tilkynning um breytta framkvæmd varðandi skuldfærslu áfengisgjalda við tollafgreiðslu

20.10.2012

Frá og með 20. október 2012 mun áfengisgjald (V* gjöld) aðeins verða skuldfært við tollafgreiðslu ef innflytjandi er skráður og með leyfi sem innflytjandi eða framleiðandi áfengis til sölu í atvinnuskyni hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og Ríkisskattstjóra. Þetta gildir hvort sem innflytjandi tollafgreiðir sjálfur eða tollmiðlari/tollvörugeymsla fyrir hans hönd. Framangreint hefur ekki áhrif á móttöku aðflutningsskýrslu hjá Tollstjóra hvort sem hún er rafræn (EDI/SMT/VEF) eða á pappír.

Innflutningur áfengis til eigin nota
Ef um rafræna tollafgreiðslu er að ræða og innflytjandi er að flytja inn áfengi til eigin nota þá má ljúka tollafgreiðslu hjá gjaldkera Tollstjóra eða sýslumanns með því að staðgreiða áfengisgjaldið, en önnur aðflutningsgjöld fást skuldfærð ef innflytjandi eða tollmiðlari hefur almenna heimild til skuldfærslu aðflutningsgjalda. Sambærilegt gildir um aðflutningsskýrslur á pappír.

Innflutningur áfengis í atvinnuskyni
Ef skráning og/eða leyfi til innflutnings eða framleiðslu áfengis er ekki í gildi á kennitölu innflytjanda, sem flytur inn áfengi í atvinnuskyni, þá ber honum að skrá sig eða endurnýja skráningu og leyfi hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og Ríkisskattstjóra.

Ef skráning og/eða leyfi til innflutnings eða framleiðslu áfengis er í gildi á kennitölu innflytjanda, sem flytur inn áfengi í atvinnuskyni, en innflytjandi hefur ekki heimild til skuldfærslu áfengisgjalds eða annarra aðflutningsgjalda, t.d. vegna vanskila, þá má ljúka tollafgreiðslu hjá gjaldkera Tollstjóra eða sýslumanns með því að staðgreiða aðflutningsgjöld, ef heimild tollafgreiðslu er í gildi.

Annað
Ef rafrænni tollafgreiðslu vörusendingar með rafrænni aðflutningsskýrslu sem inniheldur áfengi er synjað vegna þessarar nýju framkvæmdar á skuldfærslu áfengisgjalda hjá Tollstjóra er sent svar með EDI/VEF skeyti með textanum „Áfengisgjald en óskráður áfengisinnfl." (villukódi 957 í EDI skeyti, CUSGER).

Allar aðrar forsendur og skilyrði fyrir skuldfærslu aðflutningsgjalda við tollafgreiðslu gilda áfram og eru fyrst athugaðar við tollafgreiðslu áfengis. T.d. gildir að ef einhver vanskil eru á gjaldföllnum aðflutningsgjöldum innflytjanda, eða tollmiðlara ef skuldfært er á hann, þá stöðvast heimild til skuldfærslu allra aðflutningsgjalda hjá Tollstjóra.

Nánari upplýsingar um lagaákvæði o.fl. (pdf 41 KB)

Til baka