Rauða hliðið margborgar sig

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Rauða hliðið margborgar sig

16.11.2012

Það margborgar sig að velja rauða hliðið í Leifsstöð, ef fólk hefur keypt varning erlendis sem því ber að greiða toll af. Samkvæmt gildandi reglum má hver einstaklingur koma með til landsins tollfrjálsar verslunarvörur að verðmæti allt að 65.000 krónur, en verðmæti hvers hlutar má þó ekki vera meira en 32.500 krónur.

Sá sem framvísar tollskyldri vöru í rauðu hliði nýtur umtalsverðra tollfríðinda. Hinn, sem reynir að fara í gegnum grænt hlið með tollskylda vöru umfram ofangreindar heimildir þarf að greiða af vörunni aðflutningsgjöld vörunnar auk sektar sem nemur sömu fjárhæð og aðflutningsgjöldin að viðbættu 15% álagi. Auk þess getur komið til þess að vörurnar séu gerðar upptækar.

Nemi sekt fyrir tollalagabrot, ein og sér, 50.000 krónum eða meiru færist tollalagabrotið á sakaskrá viðkomandi.

Hver og einn velur hvort hann fer í gegnum rautt hlið eða grænt við komuna til landsins. Hafi grænt hlið verið ranglega valið, og í ljós kemur við tollskoðun að varningur er umfram heimildir, telst slíkt smygl og varðar viðurlögum skv. tollalögum.

Þó hámark tollfríðinda sé 65.000 krónur er ekkert því til fyrirstöðu að versla fyrir hærri upphæð erlendis, en þá má ekki gleyma að fara í rauða hliðið þegar heim kemur og greiða lögbundin aðflutningsgjöld.

Kynntu þér málið betur

Til baka