Tollgæsla stöðvar notuð reiðtygi enn á ný

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tollgæsla stöðvar notuð reiðtygi enn á ný

26.11.2012

 Tollgæslan í Reykjavík stöðvaði síðastliðinn föstudag sendingu frá Þýskalandi sem hafði að geyma reiðtygi. Um var að ræða hnakk með ístöðum og gjörðum, auk undirdýnu. Við skoðun á sendingunni reyndust reiðtygin vera notuð.

Tollgæslan hafði samband við Matvælastofnun og kom fulltrúi hennar og skoðaði reiðtygin. Í  framhaldi af því var  sendingin  stöðvuð.

Málið er komið í  hefðbundinn farveg hjá Matvælastofnun.

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem tollgæslan stöðvar innflutning á notuðum reiðtygjum til landsins.  Við innflutningseftirlit á Seyðisfirði þann 13. nóvember síðastliðinn stöðvaði tollgæslan innflutning á notuðum  reiðtygjum. Um var að ræða hnakk, ólíkar gerðir múla, gjarðir, hlífar, píska, hestaábreiðu, reiðhanska og fleira.   Samkvæmt tilkynningu frá MAST verður það mál kært til lögreglu og umræddum reiðtygjum fargað.

Tollgæslan minnir á að innflutningur notaðra reiðtygja og notaðra reiðhanska er með öllu bannaður, hvort sem búnaðurinn er sótthreinsaður eða ekki. Hins vegar er leyfilegt að flytja inn notaðan reiðfatnað, ef kröfu um sótthreinsun hefur verið fullnægt.  Mikil hætta er á að notuð reiðtygi og ósótthreinsaður reiðfatnaður beri með sér smitefni sem valdið getur alvarlegum dýrasjúkdómum hér á landi.

Leiðbeiningar og reglur um innflutning á notuðum reiðfatnaði/reiðtygjum

Móttaka á óhreinum reiðfatnaði í Leifsstöð

 

Til baka