Úrskurður ríkistollanefndar nr. 8/2011

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Úrskurður ríkistollanefndar nr. 8/2011

17.01.2013

Kveðinn hefur verið upp úrskurður ríkistollanefndar nr. 8/2011 og fjallar hann um EUR skírteini.  Hér er að finna stutta reifun á málavöxtum og niðurstöðu úrskurðarins.  Úrskurðurinn í heild sinni verður birtur á heimasíðu Tollstjóra þegar hann hefur borist í réttu formi til birtingar frá ríkistollanefnd.

1.   Málavextir

Kærður var að hluta úrskurður Tollstjóra nr. 19/2011 þar sem aðflutningsgjöld tveggja vörusendinga voru endurákvörðuð vegna ófullnægjandi gagna um sönnun á uppruna vöru. Fyrri sendingunni var synjað um tollfríðindameðferð vegna ófullnægjandi EUR-yfirlýsingar þar sem hún var hvorki undirrituð né dagsett. Einnig voru afhendingarskilmálar rangir og tollflokkun röng. Seinni sendingunni var synjað um tollfríðindameðferð þar sem hvorki EUR.1-skírteini né EUR-yfirlýsing fylgdi þeim gögnum sem framvísað var til Tollstjóra. Tollstjóri endurákvarðaði aðflutningsgjöld af umræddum sendingum í samræmi við 111. gr. tollalaga nr. 88/2005 þar sem formkröfur vegna tollfríðindameðferðar voru ekki uppfylltar. Kærandi sætti sig ekki við endurákvörðun aðflutningsgjalda þessara tveggja sendinga þar sem kærandi taldi sig eiga að leggja fram gögn vegna skoðunar á tollflokkun en ekki varðandi lögmæti gagna í upprunamálum og fór þ.a.l. ekki fram á frekari frest til skila á gögnum. Eftir að Tollstjóri kvað upp úrskurð sinn lagði kærandi fram EUR.1- skírteini vegna beggja sendinganna, sem voru dagsett og útgefin áður en varan var flutt til landsins. Kærandi fór fram á að tekið yrði tillit til EUR.1-skírteina við útreikning aðflutningsgjaldanna og gerði kröfu um að úrskurður Tollstjóra yrði felldur úr gildi.

2.   Niðurstaða Ríkistollanefndar

Ríkistollanefnd féllst á kröfu kæranda um að tekið yrði tillit til framlagðra EUR.1-skírteina, sem fylgdu vörusendingunum, við ákvörðun aðflutningsgjalda yfir þeim. Þrátt fyrir þann aðfinnsluverða drátt, sem varð á því að skila inn til Tollstjóra EUR.1- skírteinum, hafi hvorki verið dregið í efa gildi þessara skírteina né að þau hafi legið fyrir á þeim tíma sem tollafgreiðslan fór fram. Vegna misskilnings hafi kæranda láðst að afhenda Tollstjóra gögnin áður en hann kvað upp úrskurð sinn. Nefndin felldi því úr gildi úrskurð Tollstjóra með vísan til 1. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og að aðflutningsgjöld yrðu leiðrétt í samræmi við EUR.1-skírteinin.

Til baka