Tollgæsla haldlagði lítra af hreinum sterum

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tollgæsla haldlagði lítra af hreinum sterum

20.02.2013

Tollgæslan haldlagði í síðustu viku tæpan lítra af sterum, eða 950 millilítra, sem voru sendir til landsins frá Hong Kong. Um var að ræða hreina stera í brúsa sem búið var um í pappakassa sem barst hingað í bögglapóstsendingu. Á fylgiseðli með sendingunni stóð að um væri að ræða hnetuolíu.

Sterasendingin var stíluð á einstakling á þrítugsaldri á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakaði málið og handtók innflytjandann.  Hann viðurkenndi að hafa ætlað sterana til sölu og telst málið upplýst.

Tollgæslan hafði áður haldlagt tæki og tól til að steypa steratöflur og loka ambúlum, sem notaðar eru undir stera í sölu. Hver ambúla tekur um einn millilítra.  Hreinir sterar eru gjarnan blandaðir allt að til helminga með olíu, ella notaðri til matvælagerðar, áður en þeim er komið í sölu, þannig að magnið sem tollgæsla haldlagði nú gæti því numið allt að 2000 ambúlum komið á markað.

Sterar eru ávanabindandi og geta haft margvíslegar aukaverkanir, sé um langtímanotkun á stórum skömmtum að ræða. Nefna má skerta stjórn á skapsmunum, svo sem árásarhneigð, ofbeldishneigð og pirring. Einnig lifrarskemmdir og aukna hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, þar á meðal heilablóðfalli.

Brúsinn sem innihélt steramagn, sem nægir til að fylla allt að 2000 ambúlur  eftir íblöndun.

Sjá nánar um skaðsemi notkunar á ólöglegum sterum. 

Fleiri myndir

Nánari upplýsingar veitir Kári Gunnlaugsson yfirtollvörður í síma 8919760

Til baka