Nær 20 kíló af skartgripum haldlögð

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Nær 20 kíló af skartgripum haldlögð

20.06.2013

Tollverðir haldlögðu nær tuttugu kíló af skartgripum, sem erlendur karlmaður er kom með Norrænu hingað fyrr í þessum mánuði, hugðist koma inn í landið. Um var að ræða hálsmen, hringa og armbönd. Maðurinn var á ferð ásamt  þremur öðrum og hafði fólkið falið varninginn í bifreiðum sínum sem það flutti með Norrænu  hingað.

Tollafgreiðsla ferjunnar stóð yfir þegar fjórmenningarnir, tveir karlmenn og tvær konur á aldrinum frá þrítugu til rúmlega fertugs mættu til afgreiðslu í græna hliðið. Við leit í bifreiðum þeirra fundust skartgripirnir, á sjöunda hundrað stykki. Um var að ræða skart sem virtist úr gulli eða gullhúðað, en reyndist vera úr messing. Leikur grunur á að fólkið hafi ætlað að koma því í verð hér. En þar sem skartgripunum  var ekki framvísað, eins og skylt er samkvæmt gildandi lögum og reglum, og verðmæti þeirra umfram tollfrjálsar heimildir var varningurinn haldlagður. Að auki var einn ferðalanganna, sem gekkst við því að eiga góssið, með það magn af tollfrjálsum varningi, sem honum var heimilt að taka með sér til landsins. Hann greiddi sekt vegna hins ólöglega innflutnings og féllst á upptöku skartgripanna.

 Tollverðir haldlögðu skartgripi

Til baka