Tollafgreiðsla: Breyting á tollskrá, ný tegund tolls, EF, fyrir vörur upprunnar í EFTA ríkjum og Króatía verður aðildarríki í ESB. Tekur gildi 1. júlí 2013

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tollafgreiðsla: Breyting á tollskrá, ný tegund tolls, EF, fyrir vörur upprunnar í EFTA ríkjum og Króatía verður aðildarríki í ESB. Tekur gildi 1. júlí 2013

27.06.2013

Varðar m.a. innflytjendur, útflytjendur, tollmiðlara og hugbúnaðarhús, sem selja eða þjónusta hugbúnað til tollskýrslugerðar og EDI/SMT-tollafgreiðslu. Og upplýsingar fyrir innflytjendur, sem nota VEF-tollafgreiðslu á vef Tollstjóra.

Ábendingar Almennt gildir að breytingarnar taka til allra viðkomandi vara sem ótollafgreiddar eru 1. júlí 2013.

Um útflutning gildir sérstaklega: Í útflutningsskýrslu skal nota tollskrárnúmer, skilmála þess og tollafgreiðslugengi sem í gildi er tollafgreiðsludag útflutningsskýrslunnar, en þó skal aldrei miða við nýrri dag en brottfarardag flutningsfars til útlanda er flytur vörusendingu sem útflutningsskýrslan tekur til.

Þegar leiðrétta eða breyta þarf aðflutningsskýrslum vegna þegar tollafgreiddra vörusendinga, t.d. vegna of- eða vangreiddra gjalda, þá bera þær leiðréttingar aðflutningsgjöld skv. tollskrá, lögum og reglugerðum sem í gildi voru tollafgreiðsludaginn eða e.a. bráðabirgðatollafgreiðsludaginn og nota skal tollafgreiðslugengi þess dags. Tollskrárnúmer, skilmálar þeirra, gjöld og tollafgreiðslugengi innfluttra hraðsendinga miðast við þann dag þegar tollgæsla veitti leyfi til að afhenda sendinguna til notkunar innanlands (langoftast komudagur hraðsendingar til landsins).

Á vef Tollstjóra má skoða annarsvegar tegundir tolla og hinsvegar önnur aðflutningsgjöld og taxta þeirra fyrir og eftir 1. júlí 2013 með því að velja viðeigandi viðmiðunardagsetningu. Ennfremur fást upplýsingar um tollskrárnúmer, tolla og gjöld á þeim o.fl. í tollskránni á vef Tollstjóra. Breytta, uppfærða tollskrá í tollskránni á vef Tollstjóra má skoða frá og með 1. júlí 2013.

1. Breyting á tollskrá, viðauka I við tollalög nr. 88/2005 Varðar bæði inn- og útflutning. Breyting verður á tollskrá 1. júlí 2013: Tollskrárnúmerið 9619.0090 fellur úr gildi og skiptist upp í tvö ný tollskrárnúmer: 9619.0091 og 9619.0099. Að auki verður 7% vsk á 9619.0091; barnableiur og laust bleiufóður úr öðru en pappír eða vatti, margnota. Heimild: 34. gr. og c. liður 2. gr. laga nr. 146/2012 um ráðstafanir í ríkisfjármálum, sbr. um gildistöku þessara breytinga á tollskrá og virðisaukaskatti í b. lið 35. gr. sömu laga.

Sjá lið 4 hér neðar varðandi uppfærða tollskrárlykla til nota í hugbúnaði til tollskýrslugerðar.

2. Ný tegund tolls, kódi EF, fyrir tileknar vörur upprunnar í EFTA-ríkjunum Breytingar á stofnsamningi EFTA, sem ákvarðaðar voru með ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 2/2012, munu taka gildi þann 1. júlí 2013. Helstu breytingar eru þær að í staðinn fyrir sérstakan viðauka með upprunareglum kemur tilvísun í svæðisbundinn samning um upprunareglur sem eru sameiginlegar Evrópu og Miðjarðarhafslöndum og veita tollfríðindi. Þar fyrir utan eru gerðar þær breytingar að aukin tollfríðindi gilda fyrir landbúnaðarvörur, sem upprunnar eru í EFTA ríki og fluttar eru þaðan til annars ríki í EFTA, að öllum skilyrðum upprunareglna uppfylltum, m.a. að varan þarf að vera flutt beinum flutningi til landsins og gild upprunasönnun þarf að liggja fyrir (EUR upprunasönnun). Þar sem um tollfríðindi er að ræða sem eru víðtækari en þau sem veitt eru á grundvelli EES-samningsins (E kódi fyrir tegund tolls), hefur verið gerður nýr kódi, EF, fyrir tegund tolls sem notaður skal þegar óskað er eftir í aðflutningsskýrslu að nýta tollfríðindi skv. samningnum.

Þegar það á við er EF kódi fyrir tegund tolls skráður í reit 33 í aðflutningsskýrslu í vörulínu, ebl. E-1.1, og landakódi hlutaðeigandi EFTA-lands (NO fyrir Noreg, CH fyrir Sviss eða LI fyrir Liechtenstein) skráður í reit 34 fyrir upprunaland.

Tollskýrslugerðarhugbúnaður: Stofna þarf nýja tegund tolls, EF kóda, í töflu tegunda tolla og landakódar á EF tolli skulu vera: NO, CH, LI og IS. Sjá lið 4 hér neðar varðandi uppfærða tollskrárlykla til nota í hugbúnaði til tollskýrslugerðar.

3. Króatía verður aðildarríki Evrópusambandsins, ESB, frá og með 1. júlí 2013 Króatía mun 1. júlí 2013 verða aðildarríki Evrópusambandsins. Um leið fellur úr gildi fríverslunarsamningur EFTA og Króatíu sem og tvíhliða samningur Íslands og Króatíu hvað varðar fríverslun með landbúnaðarvörur. R kódi fyrir tegund tolls skv. þessum samningum fellur því úr gildi, sbr. reitur 33 í aðflutningsskýrslu, ebl. E-1.1. Frá og með 1. júlí nk. munu þar af leiðandi þeir fríverslunarsamningar sem gerðir hafa verið við ESB gilda í viðskiptum við Króatíu. Þegar þeir eiga við er E kódi fyrir tegund tolls skráður í reit 33 í aðflutningsskýrslu og landakódi Króatíu, HR kódi, skráður í reit 34 fyrir upprunaland. Í tilteknum tilvikum getur átt að skrá B kóda fyrir tegund tolls í stað E kóda, skv. sérstökum samningum á milli ESB og Íslands.

Upprunaskírteini sem gefin hafa verið út fyrir vörur sem sendar eru til Króatíu, hvort sem er við tollafgreiðslu eða eftirá í samræmi við viðeigandi ákvæði, og tollafgreiddar fyrir 1. júlí nk., munu halda gildi sínu, að því tilskyldu að slíkar upprunasannanir verði lagðar fyrir tollyfirvöld í Króatíu innan fjögurra mánaða frá og með 1. júlí nk.

Tollskýrslugerðarhugbúnaður: Fella þarf R kóda í töflu tegundar tolls úr gildi og bæta við landakóda Króatíu (HR kódi) við þá landakóda sem skráðir eru á E og B tegund tolls. Sjá lið 4 hér neðar varðandi uppfærða tollskrárlykla til nota í hugbúnaði til tollskýrslugerðar.

4. Tollskrárlyklar til nota í tollskýrslugerðarhugbúnaði, bæði inn- og útflutningur Tollskrárlyklar, sem taka gildi 1. júlí 2013, verða aðgengilegir hér á vef Tollstjóra frá og með 27. júní 2013. Bæði vegna tollskrárlykla inn- og útflutnings.

5. Nánari upplýsingar Um tæknilega framkvæmd: Tollkerfadeild, tollasviði hjá Tollstjóra ttu[hja]tollur.is eða þjónustuvakt, sími: 560 0505

Um tollamál og tollafgreiðslu: Þjónustuver tollasviðs Tollstjóra, sími 560 0315

Til baka