Úrskurður ríkistollanefndar nr. 1/2013

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Úrskurður ríkistollanefndar nr. 1/2013

27.06.2013

Kveðinn hefur verið upp úrskurður ríkistollanefndar nr. 1/2013 og fjallar hann um endurgreiðslu vörugjalds vegna bensíns á flugvél.  Hér er að finna stutta reifun á málavöxtum og niðurstöðu úrskurðarins.  Úrskurðurinn í heild sinni verður birtur á heimasíðu Tollstjóra þegar hann hefur borist í réttu formi til birtingar frá ríkistollanefnd.

1.   Málavextir

Kærður var úrskurður Tollstjóra nr. 2/2013 þar sem endurgreiðslu vörugjalds vegna bensíns á flugvél var hafnað. Kærandi setti 95 oktana bensín á flugvél sína úr bensíndælum við Fisfélag Reykjavíkur og Litlu Kaffistofuna og krafðist endurgreiðslu vörugjalds í samræmi við 17. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Synjun Tollstjóra var byggð á þeim rökum að þar sem notendur bensínsins afgreiði sig sjálfir væri ekki fyrir hendi fullnægjandi sönnun þess að bensínið hefði verið notað á flugvélar. Kærandi krafðist þess að ríkistollanefnd ógilti ákvörðun Tollstjóra og að vörugjaldið yrði endurgreitt, ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði.

2.   Niðurstaða ríkistollanefndar

Ríkistollanefnd staðfesti úrskurð Tollstjóra. Nefndin vísaði í tilurð eða forsögu nefndrar 17. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. í því skyni að rökstyðja hvort ákvæði hennar ætti við um allt bensín í vörulið 2710 í tollskrá eða hvort ákvæðið tæki aðeins til flugvélabensíns í tnr. 2710.1210. Nefndin taldi ljóst að vilji löggjafans hafi bersýnilega verið sá að undanþága vörugjalds skv. umræddri lagagrein tæki aðeins til flugvélabensíns í tnr. 2710.1210 en ekki annars bensíns. Þá fór nefndin ítarlega í gegnum sönnunarþátt málsins og þær bensíndælur sem kærandi notaði til að tanka á flugvél sína. Umræddar dælur væru annars vegar í almennri bensínstöð við þjóðveg 1 sem þjóni fyrst og fremst ökutækjum og hins vegar á opnu athafnasvæði Fisfélags Íslands sem vettvangskönnun nefndarmanna leiddi í ljós að ökutæki kæmust hindrunarlaust að. Þrátt fyrir að kærandi hafi skilað inn ljósmyndum af bensínafgreiðslum flugvélarinnar þá væru engar upplýsingar fyrir hendi um flug flugvélarinnar, flugtíma, flugleiðir eða eyðslu hennar á flugi. Þóttu því skilyrði umræddrar 17. gr. laga nr. 29/1993 um fullnægjandi sönnun ekki uppfyllt að mati ríkistollanefndar.

 

Til baka