Tollstjóri varar við blekkingum á netinu

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tollstjóri varar við blekkingum á netinu

03.10.2013

Tollstjóri varar, af gefnu tilefni, við varasömum viðskiptaháttum tiltekinna erlendra vefverslana, sem bjóða fólki ókeypis sýnishorn af vöru sinni gegn því að það gefi upp greiðslukortanúmer sín til að greiða sendingarkostnað. Umrædd fyrirtæki bjóða einkum upp á varning, sem flokkast undir fæðubótarefni, og andlitskrem. „Tilboð" þeirra birtast til dæmis á Facebook, eða eru jafnvel send á nöfn einstaklinga þar. Til að fá frítt sýnishorn, eins og boðið er upp á, gefur fólk upp nafn, heimilisfang og kortanúmer. Sýnishornið fær það síðan sent og sendingarkostnaðurinn er gjaldfærður af reikningum þess. En um leið og korthafi veitir þessar upplýsingar til að fá sýnishornið er hann ómeðvitað búinn að samþykkja að fá umrædda vöru framvegis í áskrift. Síðan fara að berast fleiri sendingar og er greiðsla fyrir þær jafnóðum tekin af kortinu. Að auki þarf að greiða aðflutningsgjöld af varningnum. Fjölmörg dæmi eru um það hér á landi og erlendis að fólk hafi þurft að loka kortum sínum af þessum sökum. Á bilinu þrjár til fimm sendingar af þessu tagi eru endursendar héðan á degi hverjum.

Það sem fólk þarf að hafa í huga áður en það þiggur boð um ókeypis sýnishorn frá erlendum vefverslunum er eftirfarandi:

  • - Aldrei gefa upp kortanúmer til aðila sem þú treystir ekki fullkomlega
  • - Skoða vel síðuna, t.d. hvort auðvelt sé að skila vörunni og hvort innihaldslýsing hennar sé til staðar.
  • - Kanna hvort hægt sé að fá sambærilega vöru ódýrari annars staðar.
  • - Athuga hvort verð vörunnar komi greinilega fram.

Jafnframt skal bent á ráðleggingar um netverslun á vefsíðu Tollstjóra.

og Neytendastofu.

Til baka