Jólasendingar farnar að berast

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Jólasendingar farnar að berast

13.11.2013

Bögglapóstsendingum erlendis frá er nú þegar farið að fjölga eins og ævinlega þegar líða tekur að jólum. Margir vilja vera tímanlega með þann hluta jólaundirbúningsins, enda eins gott, því þúsundir sendinga sem innihalda jólagjafir berast til Íslands síðustu vikurnar fyrir hátíðina. Á síðasta ári bárust til dæmis rúmlega 21 þúsund bögglasendingar með pósti til landsins á þessum tíma.

Tollstjóri vill benda á að í ákveðnum tilvikum þarf ekki að greiða aðflutningsgjöld af jólagjöfum, sem sendar eru til landsins. Þetta á við um þær gjafir sem sendandi, búsettur erlendis, hefur meðferðis til Íslands eða sendir hingað og ef verðmæti hverrar gjafar ekki meira en 13.500 krónur. Sé verðmæti gjafarinnar meira þarf að greiða aðflutningsgjöld af þeirri upphæð sem er umfram 13.500 krónur.

Þessar reglur gilda á hinn bóginn ekki um innflutning í atvinnuskyni né gjafir sem einstaklingar búsettir á Íslandi panta frá útlöndum. Varningur af þeim toga er ekki undanþeginn aðflutningsgjöldum. Þá gilda gjafareglur ekki um gjafir sem einstaklingar búsettir á Íslandi kaupa erlendis og koma með til landsins. Slíkar gjafir geta þó verið undanþegnar aðflutningsgjöldum, sem hluti af tollfríðindum ferðamanns, sem eru samtals kr. 88.000 og eiga við um allan varning sem einstaklingurinn kemur með til landsins eða kaupir í tollfrjálsri verslun.

Til baka