Breytingar á bráðabirgðatollafgreiðslu útfluttra vörusendinga

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Breytingar á bráðabirgðatollafgreiðslu útfluttra vörusendinga

01.04.2014

Breytingar vegna bráðabirgðatollafgreiðslu útfluttra vörusendinga sem taka gildi 1. september 2014 og varða rafræn skil útflytjanda/tollmiðlara á bráðabirgðatollskýrslu í þeim tilvikum þegar fullnægjandi gögn liggja ekki fyrir við tollafgreiðslu, og skil á fullnaðaruppgjöri

Frá og með 1. september 2014 verður útflytjendum og tollmiðlurum, sem stunda útflutning á vörum í atvinnuskyni, gert að tollafgreiða bæði bráðabirgðatollskýrslu og fullnaðartollskýrslu/uppgjör með rafrænum hætti  á eyðublaði E-2 (EDI/SMT og VEF-tollafgreiðsla).  Öðrum verður heimilt að afhenda Tollstjóra bráðabirgðatollskýrslur og skila fullnaðartollskýrslu á eyðublaði E2 á pappír.
Útflytjendur með heimild til VEF-tollafgreiðslu geta sent Tollstjóra bráðabirgðatollskýrslu frá og með 1. apríl. 

Heimilt er að ráðastafa vöru til útflutnings með bráðabirgðatollafgreiðslu þegar gögn vantar til að fullnaðartollafgreiðsla geti átt sér stað.  Getur það m.a. verið þegar endanlegt verðmæti liggur ekki fyrir, ef varan fer á uppboð erlendis eða ef flutningsgjald liggur ekki fyrir við brottför fars.

Við bráðabirgðatollafgreiðslu útfluttra vörusendinga er veittur 20 daga frestur frá tollafgreiðsludegi, til að standa skil á fullnaðaruppgjöri (fullnaðartollskýrslu).
Heimilt er að framlengja frestinn að beiðni útflytjanda/tollmiðlara ef sérstaklega stendur á.

Við bráðabirgðatollafgreiðslu á eyðublaði E-2 (hvort sem er á pappír eða með rafrænum hætti)  er sent CUSPAR skeyti (útflutningsheimild) til farmflytjanda eða annars vörsluhafa ótollafgreiddu vörunnar.

Við rafræna bráðabirgðatollafgreiðslu (EDI/SMT- og VEF-tollafgreiðslu) er sent CUSTAR skeyti (bráðabirgðakvittun) til útflytjanda/tollmiðlara þar sem m.a. kemur fram sá frestur sem Tollstjóri veitir til að standa skil á fullnaðaruppgjöri.  Við fullnaðartollafgreiðslu er sent CUSTAR (kvittun fyrir tollafgreiðslu).

1. Breytingar á útfyllingu útflutningsskýrslu þegar um bráðabirgðatollafgreiðslu er að ræða:
    a. EDI/SMT-tollafgreiðsla:
Reitur 1 (2. hluti): Skrá skal kódann U3 (tekur gildi 1. september)
    b. VEF-tollafgreiðsla:
Reitur 1 (2. hluti): Skrá skal kódann U3 (tekur gildi 1. apríl)
    c. Pappírstollafgreiðsla:
Reitur 1 (2. hluti): Skrá skal kódann U4 (tekur gildi 1. september)

Að öðru leyti skal fylla út alla þá reiti tollskýrslunnar sem kveðið er á um í almennum leiðbeiningum um útfyllingu útflutningsskýrslu. Ef gögn liggja ekki fyrir skal skrá áætlaðar upplýsingar, t.d. skv. proforma reikningi.

Við fullnaðaruppgjör skal nota sama kóda og notaður var við bráðabirgðatollafgreiðslu, þ.e. ekki er heimilt að skila fullnaðaruppgjöri á pappír (U4) vegna rafrænt bráðabirgðatollafgreiddrar vörusendingar (U3) og öfugt.

2. Breytingar sem gera verður á hugbúnaðarkerfum útflytjenda/tollmiðlara vegna rafrænnar bráðabirgðatollafgreiðslu útfluttra vörusendinga.
Sjá nánar: Tilkynning til útflytjenda/tollmiðlara og hugbúnaðarhúsa sem þjónusta tollskýrslugerðarhugbúnað þeirra - breytingar sem þarf að gera fyrir 1. september 2014

3. VEF-tollafgreiðsla. Útflytjendur með heimild til VEF-tollafgreiðslu á vef Tollstjóra geta nú þegar skilað bráðabirgðatollskýrslu og fullnaðaruppgjöri vegna bráðabirgðatollafgreiðslu.
Sjá nánar VEF-tollafgreiðsla - Rafræn bráðabirgðatollafgreiðsla útfluttra vörusendinga

Þær bráðabirgðatollafgreiðslur sem tollafgreiddar eru eftir eldra verklagi fram til 1. september og bíða fullnaðaruppgjörs  skulu fullnaðartollafgreiddar á hefðbundinn hátt eftir eldra verklagi.

Ofangreint er liður í verkefni á vegum Tollstjóra að koma öllum skilum á útflutningsskýrslum nær rauntíma og fyrir brottför fars frá landinu sbr. 140 gr. tollalaga nr. 88/2005.

Nánari upplýsingar
Um tæknilega framkvæmd:  Upplýsingatæknideild, rekstrar- og upplýsingatæknisviði, hjá Tollstjóra
ttu[hja]tollur.is eða þjónustuvakt, sími: 560 0505

Um tollamál og tollafgreiðslu: Þjónustuver tollasviðs Tollstjóra, sími 560 0315

Til baka