Álagning 2014 - lækkun launaafdráttar í hnotskurn

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Álagning 2014 - lækkun launaafdráttar í hnotskurn

24.07.2014

Hægt er að ganga frá flestum greiðsluáætlunum um lækkun launaafdráttar með því að senda þjónustufulltrúum lögfræðideildar tölvupóst á netfangið vanskil@tollur.is. Einnig er hægt að gera greiðsluáætlun með því að koma til þjónustufulltrúa lögfræðideildar á 5. hæð Tollhússins. Yfirleitt eru margir sem leita til þjónustufulltrúa í kjölfar álagningar opinberra gjalda og því getur biðtími lengst. Það getur því sparað tíma og fyrirhöfn að ganga frá greiðsluáætlun með tölvupósti.

Áætlaðir skattar

  • Hafi skattar verið áætlaðir er hægt að láta útbúa greiðsluáætlun um lækkun launaafdráttar með því að koma með eða senda bráðabirgðaútreikning og er þá útbúin greiðsluáætlun í samræmi við hann.
  • Bráðabirgðaútreikning færðu á þjónustusíðu ríkisskattstjóra http://www.skattur.is/ eða hjá ríkisskattstjóra á Laugavegi 166.
  • Greiðsluáætlunina afhendir þú vinnuveitanda þínum sem á að draga af launum þínum í samræmi við hana. Ef þú óskar þess getum við sent greiðsluáætlunina með tölvupósti beint til vinnuveitanda þíns. Launakerfi ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar fá sjálfkrafa upplýsingar um greiðsluáætlunina.
  • Lögboðnir dráttarvextir reiknast á gjaldfallna álagningu og eru leiðréttir í samræmi við breytingu ríkisskattstjóra þegar framtalið er tekið til greina.  

Álagðir skattar samkvæmt framtali

  • Ef þú vilt greiða álagða skatta samkvæmt framtali á lengri tíma en þeim fimm gjalddögum sem gert er ráð fyrir í lögum um tekjuskatt, er hægt að láta gera greiðsluáætlun sem dreifir greiðslum skattanna yfir lengra tímabil.
  • Greiðsluáætlunina afhendir þú vinnuveitanda þínum sem á að draga af launum þínum í samræmi við hana. Ef þú óskar þess getum við sent greiðsluáætlunina með tölvupósti beint til vinnuveitanda þíns. Launakerfi ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar fá sjálfkrafa upplýsingar um greiðsluáætlunina.
  • Athugið að greiðsluáætlun hefur ekki áhrif á lögboðna gjalddaga og því reiknast dráttarvextir á gjaldfallna álagningu þó að greiðsluáætlun sé gerð.

Hafa þarf hugfast að gerð greiðsluáætlunar kemur ekki í veg fyrir að inneignum verði skuldajafnað upp í þær kröfur sem gjaldfallnar eru.

Til baka