Ýmsar breytingar á tollalögum og lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Ýmsar breytingar á tollalögum og lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

02.07.2015

Í gær tóku gildi breytingalög nr. 33/2015.  Lögin fela í sér ýmsar mikilvægar breytingar, m.a. á tollalögum nr. 88/2005 og lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993.

Tæki og búnaður vegna mengunarslysa og náttúruhamfara

Með breytingalögunum er tækjum og öðrum búnaði sem fluttur er hingað til lands í kjölfar viðbragðsaðgerða vegna mengunarslysa og náttúruhamfara bætt við upptalninguna í undanþáguákvæði 7. gr. tollalaga. Tilefni þessara breytinga er samningur norðurskautsríkjanna um samstarf um viðbúnað og viðbrögð gegn olíumengun sjávar á norðurslóðum.

Tollmiðlarar

Með breytingalögunum er lögfest heimild Tollstjóra til að birta tollmiðlara ákvarðanir og leiðbeiningar vegna umbjóðenda hans. Tollmiðlari skal upplýsa lögaðila og einstaklinga, sem stunda inn- eða útflutning, um ákvarðanir og leiðbeiningar Tollstjóra, þ.m.t. kæruleiðbeiningar.  Þá er gert ráð fyrir því að eitt af skilyrðum fyrir veitingu starfsleyfis til tollmiðlunar verði þekking á málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga.

Kæruleiðir

Með lögunum er lögfest að sú athöfn að stöðva tollafgreiðslu skv. 130. gr. tollalaga sé kæranleg til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga, en ákvörðun um að vara sé leyfisskyld sé kæranleg til þeirrar stofnunar sem tók ákvörðun um leyfisskylduna og/eða fagráðuneytis þeirrar stofnunar.

Bifreiðar fatlaðs fólks

Eitt af skilyrðum fyrir niðurfellingu vörugjalda á bifreiðum fatlaðs fólks var að bifreiðin væri búin hjólastólalyftu.  Með lögunum er nú hægt að taka tillit til sambærilegs búnaðar en rétt þótti að gera þessar breytingar með tilliti til þeirrar tækniþróunar sem orðið hefur  á sviði hjálpartækja á undanförnum árum.

Vörugjald af fjórhjólum, sexhjólum, körtum, golfbílum og beltabifreiðum, þ.m.t. vélsleðum.
Með lögunum er tekinn af allur vafi um að fjórhjól, sexhjól, körtur, golfbílar og beltabifreiðar, þ.m.t. vélsleðar, beri 30% vörugjald. 

Til baka