Tollstjóri kynnir AEO – vottun hjá SVÞ

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Tollstjóri kynnir AEO – vottun hjá SVÞ

01.10.2015

Embætti Tollstjóra vinnur að innleiðingu á alþjóðlega viðurkenndu AEO-kerfi á Íslandi. AEO stendur fyrir „Authorised Economic Operator“ sem hefur verið nefnt „viðurkenndir rekstraraðilar“ á íslensku. AEO grundvallast á SAFE regluverki Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) og er AEO - áætlunin einn af hornsteinum þess. AEO er viðurkenning sem tollyfirvöld veita fyrirtækjum sem uppfylla öryggisskilyrði um alþjóðlega vöruflutninga.

Tollstjóri hélt kynningu á AEO - öryggisvottun í Húsi atvinnulífsins fyrir aðildarfyrirtæki flutningssviðs Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) föstudaginn 25. september sl. Um kynninguna sáu Karen Bragadóttir, forstöðumaður tollasviðs og Elvar Örn Arason, stjórnsýslufræðingur hjá Tollstjóra. Fundarstjóri var Lárus M.K. Ólafsson, lögfræðingur SVÞ.

Karen upplýsti að embætti Tollstjóra hefur hafið undirbúning að innleiðingu á íslensku AEO -  kerfi en um er að ræða viðurkennt vottunarkerfi sem tollayfirvöld veita fyrirtækjum sem gegna hlutverki í alþjóðlegu aðfangakeðjunni. Þá sagði hún mesta ávinninginn við kerfið vera gagnkvæmir samningar við önnur ríki og í því fælist ákveðin trygging ef eitthvað kæmi upp á  enda meginmarkmið að liðka fyrir viðskiptum og tryggja öryggi alþjóðlegu vörukeðjunnar.

Elvar greindi frá því hver beinn ávinningur væri af AEO -  vottun, m.a. tilkynningin um skoðun farms, færri endurskoðanir og tollskoðanir, forgang ef um er að ræða skoðun og að síðustu mögulegt val á skoðunarstað.  Þá fór hann yfir það hvernig fyrirtæki gætu öðlast AEO - vottun og hver næstu skref væru hjá Tollstjóra hvað þessi mál varðar. 

Fjöldi gesta sat fundinn og var mikil ánægja með efni fundarins.  Ljóst er að um mikið hagsmunamál er að ræða fyrir þá aðila sem koma að flutningum á einn eða annan hátt.

Karen Bragadóttir kynnir AEO á fundi með Samtökum verslunar og þjónustu

AEO kynnt fyrir SVÞ

Elvar Arason kynnir AEO á fundi með Samtökum verslunar og þjónustu

Til baka