Víðtæk áhrif yfirvofandi SFR – verkfalls á starfsemi embættis tollstjóra

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Víðtæk áhrif yfirvofandi SFR – verkfalls á starfsemi embættis tollstjóra

13.10.2015

Yfirvofandi verkfall félagsmanna SFR, Stéttarfélags í almannaþjónustu  mun hafa víðtæk áhrif á starfsemi embættis tollstjóra, ef af verður. Umtalsverð röskun verður bæði á innheimtu- og tollasviði embættisins. Verkfallið hefur verið boðað þann 15. október næstkomandi og er ótímabundið.

Afgreiðsla og símsvörun skiptiborðs og þjónustuvera í Tollhúsinu Tryggvagötu verður lokuð og skert þjónusta verður á öðrum starfsstöðvum.  Vegna verkfalls verður m.a. ekki hægt að taka á móti tollskjölum á pappír og bráðabirgðatollafgreiðslur liggja niðri. Ekki verða gefin út upprunavottorð og farmskrárvinnsla stöðvast. Nánast öll upplýsingagjöf til viðskiptavina mun liggja niðri.

Gjaldkerar embættisins verða einnig í verkfalli og því verður ekki hægt að færa greiðslur sem greiddar eru á bankareikninga embættisins inn á skattkröfur fyrr en að verkfalli loknu.  

Verkfall mun ekki hafa áhrif á greiðsluskyldu gjaldenda eða lögboðna gjalddaga og eindaga. Upplýsingar um  bankareikninga eru hér. Áfram verður hægt að greiða greiðsluseðla í heimabanka.

Verkfallið mun ekki hafa áhrif á tollafgreiðslu flugvéla og skipa. 

Öll kerfi Tollstjóra verða áfram aðgengileg og móttaka rafrænna gagna með venjubundnum hætti. Ef upp koma frávik verður hinsvegar ekki hægt að bregðast við þeim. Tæknileg aðstoð við viðskiptavini vegna vandamála sem upp geta komið í tengslum við kerfi Tollstjóra verður ekki í boði. 

 

Til baka