Lög um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim

Lög um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

27.10.2016

Í vikunni gengu í gildi lög um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.  nr. 112/2016.  

Með lögunum voru gerðar nokkrar breytingar á tollalögum og verður hér farið yfir þær í stuttu máli.

 

VRA- vottun (AEO)

Tollstjóri fær heimild til að veita áreiðanlegum lögaðilum, sem fást við inn- eða útflutning, stöðu viðurkenndra rekstraraðila, svokallaða VRA-vottun (e. Authorised Economic Operator – AEO).  VRA-vottun gefur tollyfirvöldum til kynna að tiltekinn lög­aðili sé traustur hlekkur í aðfangakeðjunni.   VRA-vottaðir aðilar njóta ákveðins ávinnings umfram önnur fyrirtæki og mun ávinning­ur íslenskra VRA-aðila aukast eftir því sem gagnkvæmum viðurkenningarsamningum um VRA-vottun við önnur ríki fjölgar. Á grundvelli slíkra samninga munu íslensk útflutningsfyrirtæki með VRA-vottun njóta ívilnana við tollframkvæmd á erlendri grundu í samræmi við samn­ingsskuldbindingar. Ákvæði um VRA-vottun öðlast gildi um næstu áramót.  Farið verður af stað með tilraunaverkefni til að fullmóta alla ferla varðandi umsóknarferlið. 

Beiting álags vegna rangrar upplýsingagjafar

Innflytjanda verður nú skylt að greiða 50% álag til viðbótar við tolla og önnur aðflutningsgjöld, sem honum bar með réttu að greiða, hafi rangar eða villandi upplýsingar verið veittar um tegund, magn eða verðmæti vöru við innflutning. Þetta gildir jafnframt hafi upplýsingagjöf innflytjanda að öðru leyti verið svo áfátt að áhrif hafi haft við álagningu. Fella skal álagið niður ef innflytjandi færir rök fyrir því að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann veitti réttar upplýsingar eða kæmi leiðréttingu á framfæri við Tollstjóra. Þó skal ekki fella álagið niður ef annmarki á upplýsingagjöf á rætur sínar að rekja til aðgerða eða aðgerðaleysis tollmiðlara, seljanda eða send­anda.   Ákvæði um álag öðlast þegar gildi.

Varðveisla gagna

Skylda Tollstjóra til að varðveita tollskjöl vegna tollafgreiðslu sendinga, sem aðilar sem ekki eru bókhaldsskyldir flytja til landsins, er felld brott.  Í stað þess er tollmiðlurum gert að geyma þessi gögn á sama hátt og þeir gera þegar um bókhaldsskylda aðila er að ræða. Þessi breyting mun hafa í för með sér mikinn vinnusparnað fyrir tollmiðlara auk þess að draga úr prentunar- og pappírskostnaði. Þá mun þörf fyrir geymslupláss og vinnu við flokkun aðflutningsskýrslna dragast saman hjá Tollstjóra.  Ákvæði um þetta öðlast gildi um næstu áramót.

 

 

Til baka