Lög nr. 117/2018 hafa tekið gildi.

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim
Stjórnartíðindi

Lög nr. 117/2018 hafa tekið gildi.

30.11.2018

Þann 30. nóvember 2018 tóku lög nr. 117/2018 gildi en lögin fela m.a. í sér ýmsar breytingar á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993.  Helstu breytingarnar eru þær að frá 1. janúar 2019 mun verða fallið frá því fyrirkomulagi að leggja vörugjald á ökutæki í tíu gjaldbilum en þess í stað munu ökutæki bera vörugjald miðað við hvert g/km skráðrar koltvísýringslosunar. Aðrar breytingar, sem taka gildi frá og með 30. nóvember 2018, eru þær að rafknúnar golf- og sendibifreiðar skulu vera undanþegnar vörugjaldi en auk þess var skilgreiningu sendibifreiða breytt. Þá skulu óskráningarskyld ökutæki til vöruflutninga undir 5 tonnum að heildarþyngd bera 13% vörugjald, í stað 30%. 

Í lögunum er einnig að finna bráðabirgðarákvæði sem ætlað er að gilda frá 30. nóvember 2018, fram að áramótum, og taka á þeim vanda ef ökutæki eru flutt til landsins sem eingöngu eru með skráða koltvísýringslosun  samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni eða með ákvarðaða losun samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni. Ákvæðin fela í sér lækkun á koltvísýringslosun um ákveðnar prósentur.

Frá og með gildistöku laganna og til áramóta skulu þeir innflytjendur sem eru að flytja inn ökutæki sem eru eingöngu með skráða koltvísýringslosun  samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni eða með ákvarðaða losun samkvæmt evrópsku aksturslotunni og samræmdu prófunaraðferðinni setja undanþágulykilinn „UND LÖT30“ í reit 14 á aðflutningsskýrslu til þess að njóta hinnar tímabundnu lækkunar á koltvísýringslosun. Í slíkum tilvikum eiga innflytjendur einnig að tollflokka viðkomandi ökutæki á aðflutningsskýrslu eftir því hver losunin er miðað við þá tímabundnu lækkun sem 4. og 5. gr. laganna kveða á um.

Hér má finna lögin.

Til baka