Innleiðing á rafrænni afgreiðslu skipa

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim
Skip speglast í hafinu

Innleiðing á rafrænni afgreiðslu skipa

03.01.2019

Þann 20. október 2010 samþykkti Evrópusambandið tilskipun 2010/65/EU sem ætlað er að minnka stjórnsýslubyrði skipa sem leggja að/úr höfn sambandsríkjanna. Upplýsingar sem til þessa hafa borist yfirvöldum á IMO-FAL eyðublöðum skulu afhentar með rafrænum hætti um eina þjónustugátt.

Tilskipun þessi var innleidd á Íslandi með reglugerð 619/2017 og var verkefninu stýrt af Samgöngustofu. Breyting þessi verður innleidd þann 7. janúar 2019.

Skip sem sinna farm- og farþegaflutningum til og frá Íslandi skulu nú skila IMO-FAL upplýsingum á þar til gerðu skjali í gegnum SafeSeaNet vefgáttina með 24 tíma fyrirvara við komu til landsins og áður en lagt er af stað frá síðustu höfn á Íslandi.

Við komu skal skila farþega- og áhafnalista sem og lista yfir muni áhafnar, skipsforðalista og farmskrá sé far í farmflutningum. Samkvæmt 5. mgr. 27. gr. tollalaga nr. 88/2005 er farmönnum gert að gera skriflega grein fyrir öllum varningi sem þeir hafa fengið erlendis eða í ferðinni hvort sem varningurinn er tollskyldur eður ei. Þessar upplýsingar skulu liggja fyrir rafrænt með 24 tíma fyrirvara svo unnt sé að hljóta heimild til tollafgreiðslu. Við brottför skulu þessar upplýsingar liggja fyrir áður en lagt er af stað frá síðustu höfn á Íslandi.

Farmenn sem hafa með sér umframvarning (sjá 27. gr. tollalaga nr. 88/2005 og reglugerð 630/2008) munu áfram geta greitt opinber gjöld á vettvangi. Stefnt er að veflausn fyrir sjálfsafgreiðslu opinberra gjalda.

Hægt er að nálgast upplýsingar og aðstoð í síma 898 8493 og í tölvupóst á skipavakt@tollur.is.

Til baka