Áramótabreytingar – Gjaldabreytingar, tollskrárbreytingar, tengiltvinnbifreiðar, BREXIT o.fl.

Sleppa leiðarkerfi
Fara heim
Stjórnartíðindi

Áramótabreytingar – Gjaldabreytingar, tollskrárbreytingar, tengiltvinnbifreiðar, BREXIT o.fl.

29.12.2020

Um áramótin 2020-2021 taka gildi nokkrar breytingar á lögum er varða tollamál og innflutning. 

Nokkrar gjaldabreytingar verða á árinu 2021 en með lögum nr. 133/2020 voru t.d. áfengis- og tóbaksgjöld hækkuð auk vörugjalda af bensíni og ákveðnum úrvinnslugjöldum. Um áramótin fellur flutningsjöfnunargjald af eldsneyti jafnframt niður, sbr. lög nr. 89/2020, og skattur á flúoraðar gróðurhúsalofttegundir hækkar í samræmi við II. bráðabirgðaákvæði við lög nr. 129/2009.

Ákveðnar breytingar verða á ákvæðum varðandi tengiltvinnbifreiðar en fyrirhuguð lækkun á virðisaukaskattsívilnun vegna innflutnings og sölu þeirra var afturkölluð með 39. gr. laga nr. 133/2020 og mun ívilnunin því áfram vera 960.000 kr. á árinu 2021. Með 4. gr. laga nr. 141/2020 var þó heimiluð skráð losun tengiltvinnbifreiða til að njóta virðisaukaskattsívilnunar lækkuð um 10 g/km en sú breyting felur í sér að hámark skráðrar losunar tengiltvinnbifreiða sem njóta ívilnunar verður 40 g/km, 45 g/km og 50 g/km í stað 50 g/km, 55 g/km og 60 g/km. Breytingin gæti haft þau áhrif á nokkrar tegundir tengiltvinnbifreiða að eftir áramót eigi þær ekki lengur rétt á niðurfellingu virðisaukaskatts.

Með lögum nr. 140/2020 voru ökutæki til vöruflutninga í atvinnuskyni sem eingöngu eru knúin metani, metanóli, rafmagni eða vetni, gerð undanþegin vörugjaldi. Þá munu ökutækjaleigur njóta ívilnunar á vörugjaldi af ökutækjum til nota í rekstri sínum á árunum 2021 og 2022, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Stofnaðir hafa verið undanþágulyklarnir LÖT32 og LÖT33 fyrir metan- og metanólknúin ökutæki til vöruflutninga og bifreiðar til útleigu hjá ökutækjaleigum. Unnið er að nánari framkvæmd á ívilnun til ökutækjaleiga og verður tilkynning þess efnis birt eftir áramót á vef Skattsins en umrædd ívilnun á að koma til framkvæmda 1. febrúar 2021.

Með 5. gr. laga nr. 141/2020 var endurvakin heimild til að fella niður virðisaukaskatt við innflutning á lyfjum sem gefin eru ríkinu eða stofnunum þess til nota við meðferð sjúklinga á heilbrigðisstofnunum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum sbr. XXIX. bráðabirgðaákvæði við lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Stofnaður hefur verið undanþágulykillinn VSKLF í þessu skyni.

Með auglýsingu nr. 149/2020 um breyting á viðauka I við tollalög nr. 88/2005 eru gerðar smávægilegar breytingar á tollskrá svo sem stofnun sérstakra númera fyrir rafknúna dembara og ýmsar einnota vörur úr plasti og pappa.

Loks ber að nefna að með reglugerð 1007/2020 var gerð breyting á 5. gr. reglugerðar um vörslu og tollmeðferð vöru nr. 1100/2006 þess efnis að tilgreina þarf í farmskrá fyrstu sex stafi í tollskrárnúmeri vöru. Unnið er að breytingum á farmskrárkerfi tollyfirvalda til að framfylgja reglugerðinni en fram að þeirri breytingu skulu þeir sem bera ábyrgð á að skila inn farmskrá tiltaka í vörulýsingu fyrstu sex stafi tollskrárnúmers vöru. Í viðamiklum sendingum sem innihalda mikinn fjölda vörutegunda skal tilgreina fyrstu sex stafi tollskrárnúmers þeirra vörutegunda sem eru mest ráðandi í sendingunni.

Nánari útlistun á gjaldabreytingum o.fl. má nálgast á frétt á vef Skattsins.

Að lokum er vert að ítreka að þann 31. desember 2020 lýkur aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretlands úr ESB sem hefur margvísleg áhrif á inn- og útflutning þaðan. Til nánari upplýsinga um áhrif BREXIT er vísað til frétta á vef Skattsins og Matvælastofnunar.

 

Til baka